18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6779 í B-deild Alþingistíðinda. (6049)

423. mál, viðskiptabankar

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég lét mig hafa það að biðja um orðið undir ræðu hv. 4. landsk. þm. Ég hef ekki hugsað mér að ræða hér málefni Hafskips og hef enga heimild til þess, enda kannske óþarft að öðru leyti en því að mér fannst alger óþarfi að draga óþverramálflutning Helgarpóstsins inn í umræður á hinu háa Alþingi. Það sem var mest áberandi í þeirri grein, fyrir utan illkvittni og sóðaskap, var að birt var stór mynd af sökkvandi skipi með nafni og númeri. Það lýsir innræti viðkomandi ritstjóra betur en nokkur orð.

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvers vegna þetta frv. er flutt vegna þess að það sem maður hefði helst viljað sjá í slíku frv. vantar í það. Ég ætla hins vegar ekki að fara yfir frv., aðeins nefna örfá atriði og brtt. sem hafa komið fram. Það er mín skoðun að vaxtaákvarðanir eigi ekki að vera teknar af bankaráðunum eins og gert er ráð fyrir í 21. gr. Það er mín skoðun að ríkisstj. eigi að marka ákveðna vaxtastefnu í þjóðfélaginu. Vextir eru ákaflega stór þáttur í efnahagslífinu og peningamálunum. Það finnst mér að ríkisstj. eigi að gera í samráði við Seðlabanka eins og er í núgildandi lögum. Það frelsi sem hefur verið í þessum efnum að undanförnu hefur ekki reynst til góðs, heldur þvert á móti. Hin gífurlega samkeppni um sparifé hefur orðið til þess að vaxtastigið hefur hækkað mjög. Ég vil einnig taka fram að mér finnst engin skynsemi í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. um það að bankaráðin þurfi að leita umsagnar hjá bankaeftirlitinu. Auðvitað má gefa bankaeftirlitinu allar upplýsingar um ákvarðanir vaxta, ef það verður niðurstaðan. Það er alveg sjálfsagt að senda þeim niðurstöðuna.

Í þessu frv. er að mínum dómi margt einkennilegt.

T. d. segir í sambandi við ákvörðun vaxta hjá bankaráðunum í 22. gr.: „Við ákvörðun vaxta og þjónustugjalda er viðskiptabanka óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir.“ Hvers konar grein er þetta eiginlega? Það er eins og það sé ekki til sími hér í höfuðstaðnum. Það er ekkert auðveldara en að krunka sig saman um þessa hluti þó að það sé ekki gert á opinberum vettvangi. Þetta er auðvitað ekkert annað en hreint grín.

Sama er að segja um 26. gr. Þar segir: „Viðskiptabönkum og öðrum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“ Hver er reyndin í þessu? Það er fjöldi fyrirtækja hér úti í bæ sem eru að keppast við að selja og kaupa alls kyns verðbréf. Hvað á þá að vera að setja svona lagað inn í lög af þessu tagi?

Herra forseti. Það eru ýmis atriði sem mér hugnast heldur illa í frv. Það er kannske fyrst og fremst spurningin um það hvort okkur vanti banka. Nauðvantar Íslendinga banka? Halda menn að sparifjáraukning verði þó að við fjölgum bönkum? Nei, það er nokkuð föst stærð. Jafnvel þó við bætum við tíu bönkum, þá draga þessir bankar ósköp einfaldlega frá þeim sem fyrir eru. Það er einn aðalgallinn í íslenska bankakerfinu að bankaeiningarnar eru allt of smáar. Þær ráða ekki við að fjármagna stór fyrirtæki. Miklu nær væri að fækka bönkum og gera bankana öflugri, sameina þessa minni hlutafélagabanka hér úti í bæ og hafa kannske samtals í hæsta lagi fjóra banka. En núna eru þeir sjö. Og með þessu háttarlagi, að stefna að fjölgun banka eins og gert er með þessu frv., eitt aðalatriðið í þessu frv. er að fjölga bönkum, vaknar sú spurning hvað verði eftir af frv. ef það er tekið út. Svo sem ekki neitt. Þetta er kjarnaatriði. Og það er og verður til bölvunar. Ekki vegna þess að ég sé á móti frelsinu út af fyrir sig, þó að það hafi ekki reynst vel, heldur af því að þá er ósköp einfaldlega verið að dreifa þessu takmarkaða fjármagni sem við höfum til útlána. Svo einfalt er það.

Í þessu frv. eru m. a. ákvæði um það að erlendir bankar megi setja hér upp umboðsskrifstofur. Eins og það er orðað í frv. virðist þetta vera afar saklaust. En til hvers er þá verið að hafa þetta hér? Ég er á móti þessu ákvæði sem leiðir til þess fyrr eða síðar að erlendir bankar fara að hefja umsvif hér á Íslandi. Það leiðir til þess. Ég er þess vegna á móti þess konar ákvæði.

Það má auðvitað taka fjölmörg önnur atriði hér fyrir. En ég vil vera í þeirra hópi sem stytta mál sitt vegna ákveðins samkomulags um þinghaldið. En ég verð að segja það að lokum að ég er ekki viss um að a. m. k. eins og sakir standa sé það skynsamlegt að auglýsa það í bönkunum hverjir skulda hverjum hvað, að þar verði nafnalisti, jafnvel með myndum, um það hvað hver skuldar í hverjum banka. Það getur verið að takmarka þurfi eitthvað hæstu útlán og lán sem stefna í það að verða óeðlileg miðað við stærð lánastofnunarinnar. En það er aftur allt annað mál. Þarna er verið að fara að mínum dómi út á allt aðrar brautir en við höfum tíðkað í langan tíma.

Herra forseti. Ég veit satt að segja ekki hvernig ég á að fara að því að greiða atkvæði um þetta plagg í heild. Ég hef ekki áhuga fyrir því og ég hef ekki áhuga fyrir þeim breytingum sem í því eru. Þær eru auðvitað misgóðar þannig að ég gæti hugsað mér að samþykkja einstakar fáar greinar. En að mínum dómi er hér stefnt til rangrar áttar. Það er verið að fjölga bönkum, það er verið að fjölga útibúum, hvað svo sem menn segja um takmarkanir í þeim efnum. Það er ekki mikill vandi að fixa það, fyrir menn sem kunna vel sitt bókhald, að opna svo sem eins og nokkur útibú. Það verður ekki vandamál. Með þessu frv. er verið að auka útþenslu bankakerfisins og er fyrir löngu nóg komið.