18.06.1985
Neðri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6791 í B-deild Alþingistíðinda. (6057)

493. mál, sparisjóðir

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Eins og fram kom hjá frsm. fjh.- og viðskn., hv. 1. þm. Suðurl., flytur meiri hl. n. tillögur á þskj. 1287, tillögur sem ég er sammála að undanskilinni 2. brtt. Sú afstaða mín kom reyndar fram þegar rætt var um frv. um viðskiptabankana. Ég hef leyft mér á þskj. 1321 að leggja til sömu breytingu og þá með sömu rökum og ég rakti hér áður. Eins og ég sagði vakir að sjálfsögðu það sama fyrir meiri hl., sem flytur till. á þskj. 1287, og fram kemur hjá mér, að gera bankaeftirlitinu kleift að fylgjast með starfsemi þessara stofnana. En til að fyrirbyggja að þar gætu átt sér stað einhverjir þeir árekstrar sem ekki eiga að þurfa að verða taldi ég réttara það orðalag sem er á þskj. 1321.

Hér vék hv. 3. þm. Reykv. að 30. gr. sérstaklega í sparisjóðafrv., svo og 26. gr. Það liggur ljóst fyrir hvað átt er við með þeim greinum eins og þar stendur og verður ekki skýrt með neinum öðrum hætti en fram kemur við lestur þeirra greina. Ég tel að þar sé svo skýrt tekið fram hver sé hugsuð starfsemi þessara stofnana: geymsla og ávöxtun fjár og önnur þjónustustarfsemi, sem er í eðlilegum tengslum við slík viðskipti, að þar þurfi ekki neinnar skýringar við, né heldur hitt, að með túlkun þeirri sem fram kom hjá hv. þm. verði metið annað en það sem í greininni stendur.

Ég ætta svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég leyfi mér að endurtaka þakklæti mitt til nm. fyrir þeirra störf í sambandi við þetta frv.