08.11.1984
Efri deild: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

143. mál, álbræðsla við Straumsvík

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Við erum hér þátttakendur í lokakafla máls sem hefur tekið mikið pláss í íslenskum stjórnmálum undanfarið. Viðaukasamningur milli ríkisstj. Íslands og Swiss Aluminium liggur fyrir. Samið hefur verið um orkuverð, samið hefur verið um skuldakröfur íslenska ríkisins á hendur Swiss Aluminium eða ÍSAL og samið hefur verið um stækkun álbræðslunnar. Hér spyrja menn um gæði þessa samnings og svara sér í þeim efnum. Til að byrja með vil ég lýsa því yfir að ég fagna því að deilu þessari skuli lokið. ÍSAL-málið er ekki mesta vandamál Íslendinga í dag. Mál þetta hefur verið blásið upp af ýmsum aðilum í stærðir sem ekki standa í neinu hlutfalli við þýðingu þess fyrir land og þjóð. Alþb. hefur tekist að leika hér svipaðan leik og í herstöðvamálinu, þ.e. að láta eins og það stefndi að grundvallarbreytingum í þessum málum. Sjálfstfl. hefur látið eins og andstaða við Alusuisse væru landráð og Morgunblaðið hefur gengið þar fram fyrir skjöldu.

Ég tel að fagna beri því að þetta mál er að baki vegna þess að það hefur nú í nálægt fimm ár lamað störf iðnrn. og hreint og beint tafið þátttöku þessa rn. í uppbyggingu íslensks atvinnulífs. Að öðru leyti er þessi samningur ekki neitt afrek. Þó að það beri að virða hann sem málalok er hann enginn sigur. Árangur þessa samnings liggur fyrst og fremst í endalokum innanlandsóeirða þar sem stærstu stjórnmálaflokkarnir fórnuðu hagsmunum umbjóðenda sina í margra ára pólitískt skítkast. Sagan mun dæma þessa flokka og menn fyrir óábyrga hegðun þeirra í von um pólitískan ávinning. Auðvitað er það ávinningur en ekki ósigur að ná fram tvöfalt hærra orkuverði. En það er enginn stórsigur að nálgast meðalverð á orkuverði á heimsmarkaði eða innanlandsmarkaði. Ég held að því verði ekki mótmæli að Alusuisse geti vel við unað. Dráttur samningsins á þessu ári miðað við 400 þús. kr. á dag hefur þegar kostað okkur Íslendinga 88 milljónir, eins og hv. 11. þm. Reykv. benti á. Hér hefur Alusuisse því einnig hagnast á kostnað okkar Íslendinga.

Það má geta þess að samninganefndin hefur hingað til kostað okkur 13 millj. ísl. kr. eða jafnvirði einnar heilsugæslustöðvar. Syndakvittun ríkisstj. er auðvitað ekki sigur heldur tap. Ég er þeirrar skoðunar að sú styrjöld hafi verið tópuð fyrir löngu. Sú styrjöld tapaðist þegar Morgunblaðið hóf herferð sína gegn kröfum fyrrv. hæstv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar og síðan fylgdu eftir Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl. Þar með var sú samstaða rofin sem þurfti til að fylgja þeirri kröfu eftir.

Það var líka ábyrgðarlaust og óskynsamlegt þegar hæstv. fyrrv. iðnrh. ætlaði að vinna þetta mál einn og að miklu leyti í fjölmiðlum. Það er ekki sagt honum til ávirðingar því ég efast ekki um að ásetningur hans hafi verið vel meintur. Að fá þriðjung út úr þessari kröfu, sem breytt hefði skattinneign í skattskuld, er ekki sigur heldur tap. Sjálfstfl. tók þá óheillastefnu í þessum málum sem reynist okkur afdrifarík í dag. Hvers vegna þurfti Sjálfstfl. að taka mark á Morgunblaðinu sem dómara í þessum málum? Hvers vegna máttu Íslendingar ekki hagnast á viðskiptum sínum við ÍSAL? Hvers vegna máttu ekki dómstólar skera úr um réttmæti kröfu Íslendinga? Ég vil meina að afstaða Sjálfstfl. á örlagastund hafi verið andíslensk og furðuleg í ljósi þess að hann telur sig sérstaklega gæta íslenskra hagsmuna.

Endalok þessarar deilu eru í samræmi við upphaf hennar. Af því að Sjálfstfl. var hræddur um að Alþb. væri að slá sér upp á svindli ÍSALs lét Sjálfstfl. hagsmuni landsmanna lönd og leið í skiptum fyrir flokkspólitíska hagsmuni. Hann beit sig þar í afstöðu sem gerir það að verkum að hann hefur enga samningsstöðu nú. Ég hef eina ósk, ég á reyndar ekki von á því að hún rætist, en ósk mín er sú að menn hætti nú að nota mál, sem þeir geta í engu lengur breytt, sér til pólitísks framdráttar og snúi sér að lausn viðblasandi vandamála. En ef koma skyldi upp slíkt mál sem þetta í framtíðinni þá læri menn af reynslunni og standi saman þrátt fyrir flokkapólitík.

Eitt atriði í þessum samningi er vont. Það er stækkunin. Hún er vond vegna þess að æskilegt hefði verið að eiga eins og eitt tromp á hendi í samningunum við Alusuisse í framtíðinni. Stækkunin er líka vond í ljósi þess ástands sem hér ríkir í efnahags- og atvinnulífi. Í von um 250 störf í fjarlægri framtíð á nú að reiða fram í snatri 2 milljarða í virkjun og vel að merkja, þetta gerist án þess að samið sé um orkuverð eða orkuverðsviðmiðun í orkusölu til þessarar stækkunar. Það er lítill ávinningur fyrir Íslendinga en stór ávinningur fyrir Alusuisse því að þar með eru þeir búnir að fá heimild fyrir endanlegri stærð þessa iðjuvers og því ekkert um að semja á þessum vettvangi meir.

Ég held að ekki fari milli mála hver fór með lengri endann út úr þessum samningi og hvor með þann styttri. Ég álít að hér sé um lokaþátt að ræða í máli sem hefði mátt leiða betur til lykta, mál sem hefur tekið upp tíma þings og stjórnar allt of lengi og tafið úrlausn annarra brýnna mála. Endalok þessa máls eru ekki til að hreykja sér yfir en það má vona að menn læri af þessu máli sem öðrum og hagi sér skynsamlegar í framtíðinni.

Virkjanasaga Íslendinga er slysasaga þegar horft er til þess litla afrakstrar sem hún hefur enn skilað okkur. Minna má á það að þessa dagana eru stjórnvöld að leggja 20 þús. kr. skuldakröfu undir koddann hjá hverjum starfandi Íslendingi vegna yfirtöku ríkisins á þrotabúi Kröfluvirkjunar. Reynslan af ÍSAL-málinu og reynslan af Kröflumálinu, reynsla fortíðarinnar, verður að fara að skila skynsamlegum vinnubrögðum. Við höfum ekki efni á fleiri slysum.

Virðulegi forseti. Ég hef tvær spurningar fram að færa til hæstv. ráðh. Sú fyrri er: Hvað gerum við í orkuverðsmálum ef dollarinn fellur mikið? Hin spurningin er: Hvenær á að semja um orkuverð til stækkunar verksmiðjunnar í Straumsvík?

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.