18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6798 í B-deild Alþingistíðinda. (6089)

Um þingsköp

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Það getur nú enginn haldið því fram að ég hafi tafið mikið fyrir þingstörfum hér í vetur. (Gripið fram í: Ekki í fyrra allavega.) Og ekki heldur í fyrra, það er rétt hjá hv. þm.

En þá loks að ég kveð mér hér hljóðs og hef áhuga á því að fjalla hér um mál, sem ég tel að varði miklu hvernig ræðst og hvernig afgreitt verður, finnst mér það ekki til of mikils mælst þó að tekið sé tillit til þess að ég óska eftir því að þetta mál sé ekki tekið fyrir klukkan að verða tvö um nótt, að fjarstöddum hæstv. flm. frv.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég skírskota til forseta varðandi þessa ósk mína. Ég tek fram að ég hef ekki tekið þátt í neinu samkomulagi um þinglausnir og er að sjálfsögðu ekki hér að koma í veg fyrir að þetta mál sé tekið til umræðu á þinginu. Það verður auðvitað að ráðast hvort málið fái umræðu og afgreiðslu á venjulegum þingfundartímum. Við höfum enn þá tvo daga til stefnu og það er ekkert því til fyrirstöðu að málið fái hér eðlilega afgreiðslu á morgun og á fimmtudag ef þingheimur sameinast um það. En mér finnst ósanngjarnt og óeðlilegt að ætlast til þess að ég flytji hér ítarlegt mál um miðja nóttu þegar það liggur ljóst fyrir að þm. munu hvað úr hverju fara að tínast héðan úr þingsalnum.

Ef þeir hins vegar treysta sér til þess að sitja hér undir tveggja til þriggja tíma ræðu þá er sjálfsagt að reikna með því. Ég hef sem sagt borið þessa ósk fram og ítreka það, herra forseti, að tekið verði tillit til hennar af þessu gefna tilefni.