18.06.1985
Neðri deild: 102. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6799 í B-deild Alþingistíðinda. (6092)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Hv. 6. þm. Reykv. spyr hvað knýi á um það að taka mál til umræðu. Það er auðvitað alveg ljóst að við erum að ýmsu leyti komin í erfiða stöðu um að ljúka öllum þeim mörgu málum sem eru m. a. á þessari dagskrá okkar nú og ýmsum öðrum málum sem menn vilja gjarnan ræða og ljúka áður en þingi lýkur. Það er þetta sem knýr á um það að taka mál til umræðu jafnvel að kvöldlagi og að næturlagi.

Hins vegar vill forseti taka það skýrt fram að hv. 6. þm. Reykv. hefur farið fram á það, borið fram þá eðlilegu ósk að þetta mál, sem hann ber fyrir brjósti, verði ekki rætt að þessu sinni. Og forseti telur ekki eðlilegt af sinni hálfu að fara að knýja á um það, þegar svo ákveðin mótmæli koma fram frá hv. þm., að taka þetta mál nú fyrir. Þess vegna verður orðið við þeirri ósk að þetta mál verði ekki rætt hér á næturfundi og það er hér með tekið út af dagskrá og önnur mál sem hér eru koma ekki frekar fyrir. Ég vona að það semjist þá um það fremur á morgun að við reynum að ganga hyggilega til starfa þann tíma sem við eigum eftir.