19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6801 í B-deild Alþingistíðinda. (6094)

423. mál, viðskiptabankar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Bandalag jafnaðarmanna hefur í sínu starfi lagt ríka áherslu á tvö atriði: Annars vegar á aðgreint kjör framkvæmdavalds og löggjafarvalds og er það í raun spurning um framkvæmd lýðræðis. Hitt atriðið er áhersla á það stjórnarskráratriði að valdsvið og starf hins þrígreinda ríkisvalds sé skýrt og hlutverkum valdþáttanna ekki blandað saman. Þar á ég við löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Það sem er að þessu frv. er það að hér er enn eina ferðina reistur minnisvarði yfir þá samþættingu þessara valdþátta sem við teljum af hinu vonda.

Sósíalisering bankakerfisins á Íslandi á sér í fyrsta lagi enga hliðstæðu hérna megin járntjalds og er algerlega óþekkt fyrirbæri annars staðar í vestrænum löndum að ríkisvaldið eigi og reki banka, enda þurfa menn ekki að skoða hug sinn lengi til að átta sig á hvaða stjórnmálalegri hugsun eða hugsjón og hvaða stjórnkerfi slíkt fyrirkomulag þjónar. Þessi sósíalisering bankakerfisins er reyndar skringilegt nokk orðin til að mestu leyti fyrir tilstuðlan þeirra manna sem í dag kalla sig sjálfstæðismenn, en voru kannske áður fyrr frekar kallaðir íhaldsmenn. Hún tengdist vandkvæðum eða vandræðum sjávarútvegs hér á landi fyrir rúmlega 50 árum og hruni Íslandsbanka þar sem hlutunum var bjargað fyrir horn með því að gera blessaðan bankann að ríkisbanka. Allt í einu voru menn dottnir niður á ákveðna aðferð til að stjórna landi í gegnum bankakerfið sem er svo áhrifarík að einn höfuðsósíalisti þessa lands, Einar Olgeirsson, á að hafa sagt einhvern tíma: Það er ekkert einfaldara en að gera byltingu á Íslandi. Það eina sem þarf að gera er að ná yfirhöndinni í bankaráðum íslensku ríkisbankanna.

Þetta frv. er minnisvarði yfir höfuðeinkennið á afskiptum stjórnmálaflokka á Íslandi, og þá allra stjórnmálaflokka, af úthlutun og skömmtun peninga og ég tel að þetta fyrirkomulag sé ein af höfuðorsökum þess bága ástands í efnahagslífi okkar Íslendinga sem við búum við í dag og höfum búið við óralengi. Menn skyldu ekki reyna að halda því fram hér að efnahagur Íslendinga hafi einhvern tíma verið mikið betri en hann er nú því að íslenskir stjórnmálamenn hafa haft möguleika á og einstaka hæfileika til að froðsa með eigur landsmanna og er þar m. a. hægt að minna menn á gerðir og afleiðingar gerða nýsköpunarstjórnarinnar. Þess vegna kem ég til með að flytja brtt. við þetta frv. sem eru hliðstæðar þeim tillögum sem fluttar voru við frv. í Nd. nema það að ég hef bætt einni brtt. að auki við 8. gr. frv. Í 8. gr. frv. er allra náðarsamlegast stigið skref í „frjálsræðisátt“ eins og flokkur frelsisins er alltaf að stíga. Hann er alltaf að stíga skref í frjálsræðisátt án þess að komast nokkurn tíma nálægt frelsinu. Þar er stigið það skref í frjálsræðisátt að veita hlutafélagsbönkum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, leyfi til þess að starfrækja umboðsskrifstofur hér á landi. Eftir að hafa hlustað á umr. í Nd. fram yfir miðnætti í gær sannfærðist ég um að eina raunhæfa leiðin til að bjarga fjármálum Íslendinga undan afskiptum íslenskra stjórnmálamanna væri sú að heimila bankarekstur erlendra banka á Íslandi þannig að Íslendingar gætu fengið andvirði vinnu sinnar tryggt og ávaxtað í gjaldmiðlum sem ekki er stöðugt verið að eyðileggja með afskiptum stjórnmálamanna. (Gripíð fram í: Segið þið svo að umr. á Alþingi veki ekki áhuga manna.)