19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6806 í B-deild Alþingistíðinda. (6101)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Frsm. meiri hl. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Það má segja að það sé skemmtileg tilviljun að við skulum ræða hér jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á þessum sögulega degi í íslenskri kvennabaráttu og um leið merkilegum degi í okkar þjóðarsögu. En ég fer ekki nánar út í það.

Það er ekki langt síðan mælt var fyrir þessu frv. í Ed. Ég vil þó leyfa mér að fara yfir helstu nýmæli frv. eins og getið er um þau í aths. við frv.

Helstu nýmæli þessa lagafrv. frá núgildandi lögum er að finna í 1. gr. Þar segir að tilgangur laganna sé að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í núgildandi lögum er kveðið á um að stuðla að jafnrétti.

Mikilvæg breyting er gerð á skipan jafnréttisráðs. Skv. 13. gr. frv. er gert ráð fyrir að félagasamtök sem hafa jafnréttisbaráttu á dagskrá tilnefni fulltrúa í ráðið. Þessi breyting ætti að stuðla að því að í ráðinu sitji fulltrúar sem hafa sérstakan áhuga á að vinna farsællega að jafnréttismálum.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á 10. gr. núgildandi jafnréttislaga sem efnislega er 15. gr. frv. Mikilvægasta breytingin kemur fram í 2. tölul. greinarinnar, en skv. henni skal jafnréttisráð vinna framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn þar sem kveðið skal á um aðgerðir til að koma á jafnrétti kynjanna. Þessa áætlun skal leggja fyrir félmrh. sem síðan skal undirbúa stefnu ríkisstj. í þessum málaflokki. sbr. 22. gr.

Ákvæði 11. gr. frv. fjalla um sama efni og 8. gr. núgildandi laga. Hins vegar eru fleiri aðilar dregnir til ábyrgðar skv. ákvæði frv. en nú er vegna brota á ákvæðum laga nr. 48 frá 1976. Að lokum má benda á að viðurlög vegna brota á ákvæðum frv. eru ákveðnari en áður var. Auk þess er gert ráð fyrir endurskoðun laganna eftir fimm ár frá setningu nái frv. fram að ganga.

Í Nd. voru samþykktar nokkrar breytingar á frv. Þessar breytingar eru reyndar ekki stórvægilegar, en þær eru þrjár.

1. brtt. gerir ráð fyrir að sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, teljist ekki ganga gegn lögunum.

2. brtt., sem samþykkt var í Nd., fjallar um málshöfðunarrétt jafnréttisráðs. Skv. brtt. fær jafnréttisráð heimild til málshöfðunar í samráði við aðila sem telur á sér brotið, en rn. þarf ekki að reka málið í umboði hans eins og í stjfrv. er sagt eins og það var lagt fram. Með þessari breytingu rýmkast málshöfðunarréttur jafnréttisráðs, en þó verður ráðið að virða neitun viðkomandi aðila ef hann vill ekki afhenda forræði sakarefnis.

Í 3. brtt. er fjallað um framkvæmdaáætlanir um jafnréttismál og framlagningu skýrslna á Alþingi um þróun og stöðu mála.

Um þetta mál varð alger samstaða í Nd. Í félmn. Ed. varð ekki alger samstaða. Þar skilar einn nm. séráliti og mun væntanlega gera grein fyrir því hér við umr. Það kemur fram að hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mun sitja hjá við þessa atkvgr. Það skal þó skýrt tekið fram að í stuttu en drjúgu nefndarstarfi um þetta mál tók hv. þm. það sérstaklega fram að hún mundi í engu bregða fæti fyrir þetta frv., síður en svo.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta frv. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt frá afgreiðslu þess í Nd.