19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6807 í B-deild Alþingistíðinda. (6102)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Frsm. minni hl. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hl. félmn., en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Lög um jafnrétti kvenna og karla hafa verið í gildi hér á landi frá árinu 1976. Setning þessara laga var á sínum tíma merkur áfangi í átt að jöfnum rétti kvenna og karla, en þótt lögin hafi á margan hátt komið að gagni á gildistíma sínum hafa þau því miður ekki reynst sá aflgjafi raunverulegs jafnréttis kvenna og karla sem vonir stóðu til í upphafi. Nú, níu árum síðar, njóta konur og karlar í reynd ekki sama réttar hér á landi. Nægir í því efni að horfa til vinnumarkaðarins en þar blasir mismunun kvenna og karla hvarvetna við.

Svo að dæmi sé tekið kemur fram í skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins um vinnumarkaðinn árið 1983 að öll karlastörf nema í landbúnaði skila launum yfir landsmeðaltali það ár en öll kvennastörf skila lægri launum en sem nemur landsmeðaltalinu. Meðallaun karla árið 1983 voru samkv. þessari skýrslu tæpum 52% hærri en meðallaun kvenna. Kynbundið launamisrétti er þetta ástand á vinnumarkaðinum venjulega nefnt og það viðgengst óhindrað þrátt fyrir lög um jafnrétti kvenna og karla.

Fleiri dæmi má nefna:

Flestar íslenskar konur stunda heimilisstörf sem aðalstarf einhvern hluta ævi sinnar en heimilisstörf eru ekki metin til starfsreynslu úti á vinnumarkaðinum.“

Í öðru lagi: „Umönnun barna hvílir að miklu leyti á herðum kvenna og allt að 80% íslenskra kvenna vinna utan heimilis en árið 1983 var aðeins rúm fyrir 43.5% barna 5 ára og yngri á dagvistarheimilum landsins. Þar af áttu aðeins 8.9% barnanna kost á meira en fjögurra tíma fóstrun á dag. Sama ár var rúm fyrir 1.5% barna á aldrinum 6 til 11 ára á skóladagheimilum landsins.“

Í þriðja lagi: „Bæði félagsleg og heilsufarsleg rök hníga að því að gera mæðrum kleift að sinna börnum sínum óskiptar fyrstu sex ævimánuði barnsins en fæðingarorlof hér á landi er aðeins þrír mánuðir.“

Í fjórða lagi: „Kvennastörf eru á öllum sviðum metin til lægri launa en karlastörf en engin tilraun er gerð til að endurmeta þessi störf.

Fjölmargt fleira mætti nefna, en þessara atriða er getið hér m. a. vegna þess að þeim hefur öllum verið hreyft sem þingmálum á þessu þingi, en án árangurs. Þau hafa ekki notið stuðnings stjórnarflokkanna sem aftur á móti standa að þessu frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það má þó öllum ljóst vera að sé mönnum einhver alvara með að koma á jöfnum rétti og jafnri stöðu kvenna og karla þarf meira að koma til en ný útgáfa af jafnréttislögunum. Jafnréttislög afnema ekki það kynbundna launamisrétti sem nú viðgengst, þau endurmeta ekki störf kvenna, þau byggja ekki dagvistarheimili og þau lengja ekki fæðingarorlof, svo að eitthvað sé nefnt af þeim fjölmörgu málum sem jafnað geta félagslegan og fjárhagslegan aðstöðumun kvenna og karla og lagt grunninn að raunverulegu jafnrétti kynjanna.

Þetta frv. mun því litlu breyta um stöðu kvenna hér á landi, en það gæti hins vegar orðið til þess að villa sýn á raunverulegri stöðu þessara mála þar sem með samþykkt þess kann svo að virðast sem þar með hafi staða kvenna verið færð til betri vegar. Svo er ekki. Til þess þarf löggjöf og ráðstafanir sem taka með beinum hætti á félagslegum og fjárhagslegum aðstæðum kvenna eins og þau þingmál gera sem vísað var til hér að framan.

Þar sem þetta frv. kemur þannig ekki til með að hafa neinar umtalsverðar breytingar í för með sér og virðist auk þess vera meinlaust að mestu, sér minni hl. n. ekki ástæðu til að mæla gegn samþykkt þess. Af sömu ástæðum sér minni hl. n. heldur ekki ástæðu til að mæla með samþykki frv. og mun því sitja hjá við afgreiðslu þess. Undanskildar eru í þessu efni þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. og eiga við 3., 17. og 22. gr. frv. í þessum greinum felst afstaða til sérstakra tímabundinna aðgerða sem ætlað er að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti kynjanna, til rýmkunar á málshöfðunarrétti jafnréttisráðs og til framkvæmdaáætlana um jafnréttismál. Þessar greinar horfa til bóta í jafnréttislöggjöfinni og mun minni hl. n. því styðja þær.

Að lokum sér minni hl. n. ástæðu til að minnast þess að í dag eru liðin 70 ár frá því að íslenskar konur fengu kosningarrétt og kjörgengi til jafns á við karla. Ef litið er til Alþingis Íslendinga á þessum merkisdegi þá eiga þar aðeins sæti níu konur þrátt fyrir 70 ára lagalegt jafnrétti kvenna og karla hvað kjörgengi og kosningarrétt varðar. Það eitt ætti í sjálfu sér að nægja til að færa mönnum heim sanninn um að miklu meira þarf til að koma en lagabókstafur um jafnrétti kvenna og karla ef það jafnrétti á einhvern tíma að verða að veruleika.“

Hér lýkur nál. minni hl. félmn. og ég vona, virðulegur forseti, að það fari ekki á milli mála eftir þennan lestur nál. að Kvennalistinn mælir hvorki á móti þessu máli né með því af þeirri einföldu ástæðu að það kemur ekki til með að hafa nein veruleg áhrif á hvernig aðstæðum kvenna er háttað hér á landi. Ég vil einnig taka það fram að með þessu er Kvennalistinn ekki heldur að segja að jafnréttislög eigi ekki rétt á sér. Það eiga þau svo sannarlega á meðan ekki ríkir jafnrétti hér á landi. Hins vegar breytir sú endurbætta útgáfa eða umorðun jafnréttislaganna sem hér er á ferðinni litlu og því er sú afstaða tekin sem hér hefur komið fram. Undanskilin í þessu efni eru einstaka atriði frv. eins og fram kemur í nál., en til þess að koma þeim á hefði dugað að gera breytingar á núgildandi jafnréttislögum. En rétt eins og með útvarpslögin dugar ekki minna en heill nýr lagabálkur þótt komast megi af með minna. Þetta bendir vitaskuld til þess að núverandi hæstv. ríkisstj. vilji gefa í skyn hvað jafnréttislögin varðar að eitthvað sé verið að gera í málefnum kvenna, ekki síst vegna þess að færa má rök fyrir því að aðstæður kvenna hafi versnað í tíð þessarar ríkisstj.

Eitt atriði langar mig að ræða hér um sérstaklega og það á bæði við það jafnréttisfrv. sem hér er til umr. og eins það þmfrv. um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla sem lagt var fram fyrr á þessu þingi. Þetta atriði varðar skilning á hugtakinu „jafnrétti“. Í báðum þessum frv. má lesa þann grunnskilning út úr þessu hugtaki að það þýði að leitað sé allra leiða til þess að konur geti staðið jafnfætis körlum á þann veg að þær gætu orðið eins og karlar. Það er alltaf spurning um að lyfta konum upp til móts við karla í þessum frv. báðum. Ég vil þessu til stuðnings benda á 9, gr. þessa frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Atvinnurekendur skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.“

Ég er þeirrar skoðunar að ekkert sé að því að störf teljist annaðhvort kvennastörf eða karlastörf. Það sem að er að mínu viti er það að kvennastörfin eru ekki launuð til jafns á við karlastörfin. Mín skoðun er því sú að í stað þess að reyna að þurrka út skilin milli karla og kvenna sé æskilegra að meta konur eins og þær koma fyrir, ef svo má segja, á sínum eigin forsendum eins og við Kvennalistakonur höfum iðulega bent á.

Það má líka benda á 10. gr. frv. í þessu efni. Þar er talað um að við náms- og starfsfræðslu í skólum skuli leitast við að breyta hinu venjubundna starfs- og námsvali kvenna og karla til samræmis við tilgang laga þessara. Ég sé ekki heldur að það sé endilega rétta leiðin í þessum efnum. Ég held að það sé vænlegra að fara frekar þá leið að störf og námsbrautir séu jafnréttháar en að beina bæði konum og körlum inn á sömu brautirnar. Hver á þá að stunda þau störf sem ekki teljast karlastörf í dag eða stunda þær greinar sem konur eru í meiri hluta í í dag? Það gefur auga leið að þær starfsgreinar munu ekki leggjast niður og umrædd störf munu ekki leggjast af þótt slík breyting ætti sér stað og við stæðum því eftir með sama vandamálið og áður.

Þessum skilningi, sem hér er á ferðinni á jafnréttishugtakinu, hefur Kvennalistinn hafnað. Mig langar í því efni að lesa hérna fjórar línur úr upphafi stefnuskrár Kvennalistans, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við setjum á oddinn hugmyndir um kvenfrelsi sem fela í sér rétt kvenna til að vera metnar á sínum eigin forsendum til jafns á við karla. Við leggjum til hliðar hugmyndir um jafnrétti sem fela í sér rétt kvenna til þess að fá að vera eins og karlar.“

Ljóst má því vera að þetta frv. byggir á öðrum grundvallarhugmyndum um stöðu kvenna og karla en þeim sem Kvennalistinn leggur til grundvallar og það er ein ástæða þess að Kvennalistinn mælir ekki með samþykkt þessa frv.

Virðulegi forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram.