19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6809 í B-deild Alþingistíðinda. (6103)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Þetta stjfrv., sem hér er til umr., var lagt fram snemma á þessu þingi í hv. Nd. Jafnframt var lagt fram frv. frá þm. stjórnarandstöðuflokkanna um sama efni, en ekki efnislega samhljóða. 1. flm. þess frv. var fyrrv. félmrh. Svavar Gestsson. Málið hefur verið lengi til umfjöllunar í félmn. hv. Nd. og árangurinn af því starfi er frv. í þeim búningi sem það kemur nú til hv. Ed.

Það liggur í augum uppi að ef afgreiða á þetta mál sem lög frá Alþingi nú var ekki um annað að ræða fyrir félmn. hv. Ed. en að afgreiða það án ítarlegrar umfjöllunar í nefnd og virða það samkomulag sem náðist í málinu og kemur reyndar fram í þeim brtt. við frv. sem samþykktar voru í hv. Nd. Það kemur fram í nál. félmn. Nd. að nefndin hefur lagt sig fram um að ná samkomulagi um þetta mál til þess að það náist að afgreiða það á þessu þingi. Þegar slíkt samkomulag næst ber að hafa í huga að það hefur í för með sér að lagðar hafa verið til hliðar ýtrustu óskir einstakra nm. varðandi ágreiningsatriðin.

Ég tel ástæðu til að fagna því sérstaklega að samstaða hefur náðst í þessu máli á hv. Alþingi. Sjálf hef ég valið að styðja þá málsmeðferð og ætla mér því ekki að fjalla efnislega um málið. Ég styð frv. eins og það kemur frá hv. Nd. og kem ekki í ræðustól til að skapa mér sérstöðu í málinu.

Það er vissulega skemmtileg tilviljun að þetta frv. verður væntanlega afgreitt sem lög frá Alþingi í dag, 19. júní 1985. þegar konur um land allt minnast þess að 19. júní 1915, eða fyrir nákvæmlega 70 árum, öðluðust þær full stjórnmálaleg réttindi, þ. e. kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis.

Eins og ég sagði áðan staðfesti konungur, á þeim tíma Íslands og Danmerkur. nýja stjórnarskrá fyrir Ísland hinn 19. júní 1915. Í henni voru mörg nýmæli sem stefndu í átt til aukins lýðræðis. Íslenskar konur áttu innan sinna vébanda miklar hæfileikakonur í jafnréttisbaráttunni sem beittu sér af miklu harðfylgi fyrir baráttumálum kvenna. Þessar forustukonur beittu ýmsum aðferðum til að þrýsta málum áfram innan Alþingis. t. d. með undirskriftasöfnun um jafnrétti í öllum málum á við karla og skiptu þær undirskriftir þúsundum. Þær héldu baráttufundi og gáfu út kvennablöð þar sem þær skrifuðu um baráttumálin.

Fyrsta kosningarréttarhreyfing íslenskra kvenna má segja að hafi orðið til þegar Hið íslenska kvenfélag var stofnað 26. janúar 1894. Árið 1911 hefur oft verið nefnt hið mikla kvenréttindaár. Þá er stjórnarskrárfrv. til umfjöllunar á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir kosningarrétti og kjörgengi kvenna til Alþingis. Og það er vissulega margt fróðlegt sem kemur fram í umræðunum um viðhorf karlanna hér á hv. Alþingi. Einn þm. sagði, með leyfi forseta:

„Ég er því hlynntur, að konur fái jafnrétti við karlmenn, því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kostum. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla, og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum. Þetta vegur því upp hvað annað.“

Annar þm. taldi nægjanlegt í bili að leyfa konum að æfa sig í að nota fengin réttindi til sveitarstjórnarkosninga sem þær höfðu þá þegar öðlast, þ. e. árið 1882. Að vísu fengu þær ekki jafnhliða kjörgengi fyrr en 1902. En hann taldi ekki brýna þjóðarnauðsyn á að veita konum kosningarrétt í pólitískum málum.

Fleiri vildu fara varlega í sakirnar, veita konum réttinn smátt og smátt og þannig mundu þær öðlast meiri þroska og verða betur undir það búnar, annað yrði bylting. Aðrir voru víðsýnni eins og t. d. sá sem sagði, með leyfi forseta:

„Jafnsjálfsögð mannréttindi og kosningarrétt hafa konur alltaf í sjálfu sér haft jafnt og karlmenn, og skila þeim ekki þessum rétti þegar og öllum í einu er engin sanngirni né réttlæti.“

Þessi víðsýni varðandi jafnrétti kynjanna kemur e. t. v. hvað skýrast fram þegar fyrsta og eina konan kýs til sveitarstjórnar á Íslandi, en það gerist 31. mars 1863, 19 árum áður en lög um takmarkaðan kosningarrétt íslenskra kvenna til sveitarstjórna eru staðfest. Og það er athyglisvert varðandi þetta atvik að þar er um að ræða túlkun og þýðingu orðsins „menn“ úr dönskum texta á íslensku, „alle fuldmyndige Mænd“. Um það er að ræða hvort átt sé við menn í víðtækri merkingu orðsins, þ. e. karla og konur, eða hvort aðeins sé átt við karlmenn.

Í þessu tiltekna atviki vildi kjörstjórn á Akureyri, en þetta gerðist á Akureyri, ekki synja konum kosningarréttarins og „höndlunarborgarinnan“ maddama Vilhelmína Lever á Akureyri notaði þennan rétt sinn, enda uppfyllti hún önnur skilyrði sem voru að kosningarrétt höfðu allir fullmyndugir menn — í danska textanum „alle fuldmyndige Mænd“ — sem ekki eru öðrum háðir sem hjú og hafa verið búfastir í kaupstaðnum síðasta árið þegar þeir a. m. k. borga 2 ríkisdali í bæjargjöld á ári. Auk þess var að sjálfsögðu skilyrði um óflekkað mannorð og eigin fjárforræði og fylgdi honum þá einnig kjörgengi.

Umræðum á þingi 1911 lauk síðan með því að konur fengu með lögum kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. En það var svo ekki fyrr en með staðfestingu nýrrar stjórnarskrárbreytingar 19. júní 1915 sem þær öðluðust full stjórnmálaleg réttindi, kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Ekki fengu þær þó sama rétt og karlar. Aðeins konur 40 ára og eldri voru teknar inn á fyrstu kjörskrá eftir breytinguna. En aldursmörkin skyldu lækka um eitt ár árlega uns jafnrétti við karla væri náð, en þau voru bundin við 25 ára aldur við kjördæmakosningar en 35 ára aldur við landskjör. Árið 1920 voru þessi skerðingarákvæði loks að fullu numin úr gildi.

Þegar reykvískar konur höfðu sannfærst um að fregnirnar af staðfestingu stjórnarskrárinnar væru réttar tóku þær að ræða um og undirbúa einhvern mannfagnað vegna hinna nýfengnu réttinda. Kom öllum saman um að best væri að halda þessa hátíð samtímis því er Alþingi kæmi saman, 7. júlí. Mikill viðbúnaður var hafður og margar undirbúningsnefndir að starfi. Það var mælst til þess að allir vinnuveitendur gæfu verkafólki sínu frí síðari hluta þess dags því að starfsfólkið mundi svo borga það með því að ganga með margfaldri ánægju að starfi daginn eftir.

Í bók Gísla Jónssonar menntaskólakennara á Akureyri um konur og kosningar gefur hann skemmtilega mynd af þessum atburði. Með leyfi forseta langar mig að lesa smákafla þar sem segir frá þessum atburði. Hann er svona:

„Hinn 7. júlí var bjart og fagurt veður í Reykjavík. Austurvöllur var allur fánum skrýddur þeim megin sem vissi að alþingishúsinu. Báðum megin við aðalhlið vallarins voru nýju íslensku fánarnir og ýmis önnur flögg þar út í frá, ræðustóllinn einnig skreyttur íslenska fánanum. Um klukkan hálffimm raðaði fylking kvenna sér upp í barnaskólagarðinum og hélt af stað. Fremst gengu 200 ljóshærðar ungmeyjar, allar með lítil íslensk flögg í höndum sér. Fór fylkingin um Lækjargötu, Austurstræti, Pósthússtræti, Kirkjustræti og inn á Austurvöll og staðnæmdist þar. Þaðan gekk svo sendinefnd, sem færa átti Alþingi ávarp, inn í þinghúsið kl. sex. Sátu þá forseti Sþ., séra Kristinn Daníelsson, og ráðherra, Einar Arnórsson, í sætum sínum, en þingmenn aðrir stóðu umhverfis.

Þingið tók á móti nefndinni í neðri deildar salnum. Stóðu konurnar á miðju gólfi, en fröken Ingibjörg H. Bjarnason [fyrsta konan sem kosin var síðar á þing] las upp skrautritað ávarp til Alþingis, og var það geymt í mjög vönduðu og skrautlegu skinnhulstri. Texti þess var svo:

„Á þessum mikilvægu tímamótum, þegar hið háa Alþingi kemur saman í fyrsta sinni eftir að íslenskar konur hafa með nýjum stjórnarskrárbreytingum öðlast full stjórnmálaleg réttindi, þá hafa konur Reykjavíkurbæjar óskað að votta hinu háa Alþingi og hæstv. ráðh. vorum gleði vora og þakklæti fyrir þau mikilsverðu réttindi, sem stjórnarskráin veitir íslenskum konum. Vér könnumst fyllilega við það frjálslyndi og réttlæti, sem hið háa Alþingi hefur sýnt í mörgum og mikilsverðum réttarbótum nú á síðari árum, íslenskum konum til handa, sem jafnan hafa verið samþykktar af miklum meiri hluta allra hinna pólitísku flokka þingsins. Vér vitum vel, að auknum réttindum fylgja auknar skyldur. En vér tökum móti hvoru tveggja með gleði. Vér vitum og skiljum, að kosningarréttur til Alþingis og kjörgengi er lykillinn að löggjafarvaldi landsins, sem á að fjalla um alla hagsmuni þjóðarinnar, jafnt karla sem kvenna.

Vér trúum því, að fósturjörðin, stóra heimilið vor allra, þarfnist starfskrafta allra sinna barna, jafnt kvenna sem karla, eins og einkaheimilin þarfnast starfskrafta alls heimilisfólksins, og vér trúum því, að vér eigum skyldum að gegna og störf að rækja í löggjöf lands og þjóðar, eins og á einkaheimilum.

Vér vonum einlæglega, að hin nýja samvinna vor með bræðrum vorum á komandi tímum í landsmálum verði þjóðinni til heilla.“

Forseti þakkaði ávarpið með stuttri ræðu og sömuleiðis ráðh. Síðan bað varaforseti Sþ., séra Sigurður Gunnarsson, konur lengi að lifa, og tóku þm. undir það með ferföldu húrra. Við setningu þingsins las forseti þakkarskeyti frá konum á Stokkseyri, Eyrarbakka og Húsavík.“

Þegar litið er yfir baráttu kvenna fyrir auknum pólitískum réttindum á fyrstu áratugum aldarinnar hlýtur að vakna aðdáun á öllum þeim sem þar voru í forustu. Eldmóður þeirra og baráttugleði ættu að vera konum hvatning og áminning um að láta ekki undan síga. Allt of hægt hefur miðað í þessari baráttu og ætla má að þær sem ruddu brautina hefðu vart trúað því hversu skammt hefur miðað 70 árum síðar. Í dag eiga aðeins níu konur sæti á Alþingi af 60 þm. eða 15%, en voru til skamms tíma hámarkið 5% eða þrjár.

Margar ástæður geta verið fyrir því hve hægt miðar. Álag á konur sem vinna utan heimilis, jafnvel fullan vinnudag, er mikið og varla von að þær geti jafnframt sinnt stjórnmála- og félagsstörfum nema með góðri samvinnu annarra í fjölskyldunni. Samvinna og verkaskipting foreldra um barnauppeldi og heimilisstörf hefur mikið að segja í þeim efnum. Annars hljóta þær að verða að velja á milli. Það þarf að koma til móts við þessa breyttu þjóðfélagshætti varðandi þarfir fjölskyldunnar og í kjarasamningum þurfa aðilar vinnumarkaðarins að hafa það hugfast, og það held ég að sé aldrei nógu brýnt fyrir þeim aðilum, að foreldraábyrgðin er jöfn. Það eru ekki bara hagsmunir mæðra heldur einnig feðra að taka tillit til þarfa fjölskyldunnar.

En það er ekki nóg fyrir okkur konur að öðlast rétt. Við þurfum líka að nota þennan rétt. Það verður að segjast eins og er að við höfum ekki verið nógu duglegar og samtaka um að notfæra okkur þann rétt sem við höfum í gegnum tíðina öðlast með lögum. En konur eru nú óðum að efla samtakamátt sinn. t. d. á vinnumarkaðinum, og þannig munum við vissulega best koma í veg fyrir misrétti á þeim vettvangi.

Ég vil nú, herra forseti, ekki taka lengri tíma þingsins, en ég gat ekki að mér gert í tilefni dagsins. Ég er í hátíðaskapi í dag, eins og ég veit að allar íslenskar konur eru, og mér fannst það vissulega við hæfi að á einhvern hátt væri munað eftir því hér á hv. Alþingi hvað gerðist 19. júní fyrir 70 árum.