19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6817 í B-deild Alþingistíðinda. (6118)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er auðvitað með öllu óviðunandi að hæstv. ráðh. sem eru í landinu skuli ekki sjá ástæðu til að sitja þingfundi á síðustu starfsdögum Alþingis. Hér eru á dagskránni tvö mál sem varða sérstaklega hæstv. menntmrh. og hæstv. ráðh. hefur mér vitanlega ekki fjarvist á þessum fundi, en sést hér ekki í þingsal. Þetta tel ég nánast vítavert, að svo skuli staðið að málum af hæstv. ríkisstj. þegar samkomulag er um að reyna að hraða störfum þingsins. Ég hélt að þetta væru mál, þau sem hér eru til umr., sem hæstv. ráðh. hefði áhuga á að rædd væru og þá að vera viðstaddur umr.

Svipað hefur gerst á undanförnum dögum. Ráðh. hafa ekki haft fjarvist frá þingfundum, en forseti hefur síðan orðið að upplýsa að þeir væru utanbæjar og jafnvel komnir til útlanda án þess að fjarvistarbeiðni lægi fyrir.