19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6819 í B-deild Alþingistíðinda. (6125)

129. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það er nú orðið nokkuð um liðið síðan mælt var fyrir áliti meiri hl. allshn. og ég vildi aðeins rifja upp nokkur atriði í því sambandi til þess að það komi inn í umr. Ég ætla að leyfa mér að lesa álit meiri hl. sem er stutt. Það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Meiri hl. nefndarinnar telur að varanlegur grunnur að bættri umferðarmenningu og meira öryggi verði ekki lagður með sektarákvæðum. Úrbætur verða að fást með jákvæðri löggæslu, hvatningu og upplýsingum, umferðarkennslu og aðgerðum á sviði gatnaframkvæmda og skipulags, svo að dæmi séu nefnd.

Notkun einstaklinga á bílbeltum verður að byggjast á fullvissu þeirra sjálfra um nytsemi hennar en ekki á ótta við lögreglu- og dómsvald.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði fellt.“ Undir þetta rita Guðmundur Einarsson, Ólafur Þ. Þórðarson, Pálmi Jónsson og Friðjón Þórðarson með fyrirvara.

Í framsögu fyrir þessu nál. á sínum tíma vísaði ég til greinar sem birtist í DV þann 3. apríl 1984 þar sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor gerir nokkur atriði að umtalsefni varðandi þetta mál. Mér finnst það þess virði fyrir alþm. að velta þeim málum svolítið fyrir sér. Þar fjallar lagaprófessorinn um þetta á ýmsan hátt og ég ætla að vísa til nokkurra atriða.

Í fyrsta lagi fjallar Stefán Már um það sem hann kallar „neikvæð áhrif refsiviðurlaga við smábrotum“ og þar segir hann, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi valda ákvæði um refsiviðurlög því að jafnaði að efla verður löggæslu og dómgæslu í landinu því að þessir aðilar hafa eftirlit með brotum af þessu tagi. Einstök lög hafa þó mismunandi áhrif að þessu leyti. Lögleiðing refsiviðurlaga við vanrækslu á notkun bílbelta mundi hafa mikil áhrif að þessu leyti. Hún mundi ljóslega leiða til þess að stórefla þyrfti löggæslu og dómgæslu í landinu ef að gagni ætti að koma.“

Í öðru lagi segir Stefán Már um refsiviðurlög og neikvæð áhrif þeirra:

„Í öðru lagi valda eftirlits- og refsiaðgerðir í tilefni af smábrotum því að lögregluaðgerðir aukast almennt séð. Margir telja að slíkum afskiptum fylgi ófrelsi. Þeir telja sig oftlega órétti beitta, m. a. vegna þess að komast mátti hjá þessum aðgerðum. Þetta á auðvitað alveg sérstaklega við þegar um er að ræða víðtækar eftirlitsaðgerðir út af umdeildum smábrotum. Í þriðja lagi eru víðtæk refsiviðurlög í tilefni smábrota almennt til þess fallin að veikja virðingu borgarans fyrir lögum og að veikja traust sem ríkja verður milli hans og lögregluyfirvalda (eða annarra yfirvalda). Þetta á sérstaklega við þegar tvímælis orkar um réttmæti refsiviðurlaga.“

Þarna eru tiltekin þrjú atriði sem eru vel þess virði að velta fyrir sér ef menn hugleiða að innleiða sektir vegna þessa.

Einnig gerir Stefán Már Stefánsson að umræðuefni í þessari grein rökstuðning með fyrirliggjandi frv. og ræðir um þá fullyrðingu í grg. að fullreynt megi teljast að ekki verði unnt með áróðri og fræðslustarfsemi einni að auka bílbeltanotkun meira en orðið er. Hann telur að þessi fullyrðing sé ósönnuð. Ég er þessu sammála. Ég tel að ekki hafi verið hafðar í frammi þær aðgerðir til áróðurs og upplýsingar um bílbelti sem hægt er að gera ef menn vilja það viðhafa með þeim miðlum sem mönnum eru tiltækir, hvort sem það eru blöð, útvarp eða sjónvarp eða útgáfa upplýsingagagna.

„Í öðru lagi“, segir í þessari grein, „er ekki rétt sú fullyrðing ... að vandfundin séu lög þar sem dómsvaldinu sé ekki ætlað að beita viðurlögum ef út af er brugðið. Slík ákvæði í lögum eru þvert á móti algeng.“ Í þriðja lagi er sagt í þessari grein að sú staðhæfing að notkun bílbelta geti dregið úr slysum sé ekki ein út af fyrir sig næg til að taka upp refsiviðurlög við brotum á fyrirmælum laga um notkun bílbelta:

„Slíkt hlýtur ávallt að verða að meta með hliðsjón af mun fleiri atriðum, t. d. með hliðsjón af kostnaði, hagkvæmni, möguleikum að ná sama árangri með öðrum aðferðum, hugmyndum manna um frelsi einstaklingsins o. s. frv. Engum virðist t. d. detta í hug að banna vindlingareykingar með lögum að viðlögðum lögregluaðgerðum og refsingum, enda þótt ómótmælt sé að reykingar valdi bæði reykingamanni sjálfum og öðrum skaða.

Í fjórða lagi er gerður nokkur samanburður í umræddri grg. við reynslu frá öðrum löndum og dregnar af því ályktanir... slíkum samanburði ber að taka með varúð.“

Ég lýsti því í ræðu minni þegar ég mælti fyrir nál. að maður hefði fulla ástæðu til að óttast að Íslendingar tækju þessum hlutum öðruvísi en ýmsar þjóðir gera. Menn virðast almennt minna löghlýðnir, a. m. k. í sambandi við umferðarmál. Menn þurfa ekki annað en að líta hérna út fyrir veggi Alþingishússins á ráðherrabílana sem þar standa.

Mér datt í hug að þetta ætti erindi inn í þessa umr. rétt til að rifja upp það sem kemur í hugann þegar menn tala um að lögleiða sektir vegna þessara atriða. Þarna er farið inn á mjög vafasamt svið að mínu mati. Það vita allir að afleiðingar slysa þar sem fólk t. d. berst í framrúður eru hryggilegar og ýmis fleiri slys, eins og lamanir vegna mænuskaða og þess háttar. Það er þó engu að síður alltaf matsatriði hversu langt löggjafinn á að ganga til að vernda fólk á þann hátt sem lögð er áhersla á í frv.

Ég ætla að láta þetta nægja að sinni, en mun kannske gera grein fyrir áliti mínu frekar.