19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6823 í B-deild Alþingistíðinda. (6127)

129. mál, umferðarlög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Flestu gat maður búist við í þessari háu stofnun öðru en því að meiri hl. allshn. skuli leggjast gegn þessari sjálfsögðu breytingu á umferðarlögum, að mínu mati, þrátt fyrir skýrslu um dauðaslys í umferðinni á einu ári þar sem segir að 165 ökumenn hafi látið lífið og jafnframt því að þeir sem hafa rannsakað þessi slys hafa komist að því að hægt hefði verið að bjarga níu mannslífum á ári frá árinu 1972 til 1983. Ég held að það sé örugglega skoðun flestra sem til þekkja, hafa lagt sig eftir að kynna sér þessa hluti, að engin ein aðgerð kemur að eins miklu haldi við að draga úr slysum í umferðinni og notkun bílbelta. Engin ein aðgerð er áhrifameiri. Einstaka sérvitringur hefur lagst á móti því að menn séu skyldaðir til að nota bílbelti og nefna það m. a. frelsi einstaklingsins eins og það heitir. — Frelsi einstaklingsins! Menn eigi að hafa fullt frelsi til þess að aka í umferðinni eins og hún er og eiga það á hættu að stórslasa bæði sjálfa sig og aðra.

Sannleikurinn er sá að þessar tölur, þessar ógnvekjandi tölur um dauðaslys í umferðinni, eru ekki þær einu sem mönnum ber að líta á. Miklu fleiri slasast meira eða minna. Miklu fleiri en þeir sem deyja í umferðarslysum stórslasast og liggja örkumla og bjargarvana það sem þeir eiga eftir ólifað.

Ég gisti í húsi einu hér í bænum um fimm mánaða skeið á s. l. ári og fram eftir þessu ári. Sannleikurinn er sá að þó að maður hafi talið sig heldur illa kominn skammaðist maður sín fyrir það að kvarta, horfandi upp á ungmenni liggjandi meðvitundarlítil enn þá eftir margra ára legu, bjargarlaus og vonlítil. Þetta var aðeins í einu húsi, en þau eru mörg, því miður, og ævinlega vantar mörg pláss fyrir fórnardýr umferðarslysanna.

Það er ekki nokkur vafi á því að hægt er að koma í veg fyrir svo stórkostleg slys með því að nota bílbelti. Við höfum búið við bílbeltaskyldu nú um nokkurt skeið, en reynslan sýnir og það er óvefengjanlegt samkvæmt margítrekuðum könnunum að notkun bílbelta er lítil og fer ekki vaxandi svo heitið geti. Svo kemur meiri hl. í hv. nefnd í Alþingi Íslendinga og leggst á móti því að bílbeltanotkun sé aukin.

Þessi svokallaði jákvæði áróður er auðvitað nauðsynlegur og verður að halda áfram og helst með meira afli og þunga, en reynslan sýnir, eins og ég sagði áðan, að það dugar ekki, það nægir ekki. Þess vegna held ég að ekki sé nægilegt að menn noti bílbelti þegar þeir eru sjálfir fullvissir um nytsemi þeirra, eins og stendur þarna í nál., heldur verði óttinn við refsingar að koma einnig til. Þetta er svo alvarlegt mál fyrir þjóðina alla að á því verður að taka með hörku hvað svo sem menn tala hér fagurlega um frelsi einstaklingsins.

Umferðarslysin kosta mannslíf, örkuml, þjáningar ekki aðeins þeirra sem í þeim lenda sjálfir, heldur einnig fyrir aðstandendur. Kannske er ekki nægilega gott að nefna peninga um leið og menn tala um dauða og örkuml. en gífurlegur kostnaður vegna þessara slysa hlýtur að koma upp í hugann. Hvað kostar að annast eitt fórnarlamb umferðarslysa í eitt ár? (GGS: Tvær milljónir.) Ja, það kostar milljónir. Og þegar þau eru orðin hundruð á hverju ári er um gífurlega fjármuni að tefla. Þá vilja menn ekki horfa á peningana heldur gaspra glottandi um frelsi einstaklingsins. Þjóðfélagið hefur ekki efni á þessu. Hin litla þjóð þolir ekki að missa á annað hundrað einstaklinga í dauðaslysum í umferðinni. Hún þolir kannske enn síður að missa nokkur hundruð einstaklinga í áralanga veru á sjúkrahúsum, jafnvel alla ævina. Ég skora á hv. Nd. að samþykkja frv.