19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6824 í B-deild Alþingistíðinda. (6128)

129. mál, umferðarlög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði áðan, að hér er vissulega um mjög alvarlegt mál að ræða, gífurlega alvarlegt. Ég er hins vegar ekki sammála honum um að meiri hl., sem hann talar um að sé í hv. n., sé að leggjast á móti því að notkun bílbelta sé aukin. Ég skil ekki afstöðu þeirra hv. nm. sem skrifa undir nál. á þskj. 1069 á þann veg að þeir séu að leggjast á móti því að aukin sé notkun bílbelta. Hér greinir menn á um leiðina sem gæti orðið til að tryggja betur að hið vissulega mikilsverða öryggistæki væri notað almennt og nyti meiri skilnings ökumanna.

Þegar frv. um lögleiðingu bílbelta var til umr. á Alþingi á sínum tíma var ég andvígur því, greiddi atkvæði gegn því, og ég er enn sömu skoðunar. Ég er ekki um það sannfærður að lögleiðing af þessu tagi sé til hins góða til þess að ná árangri. (Gripið fram í.) Var hv. þm. Suðurl. Garðar Sigurðsson, eitthvað að segja? (GJG: Það væri gott ef hv. þm. Karvel Pálmason hefði belti í sæti sínu.) Já, það er út af fyrir sig rétt. Sumir þurfa ekki belti, eru fastir. Það sýnir vaxtarlagið.

Hvað sem því líður er ég enn þeirrar skoðunar að lögfesting, boð og bönn í þessu tilfelli, verði ekki til þess að auka skilning almennings á því öryggi sem getur verið samfara notkun bílbeltis. Ég dreg ekkert í efa að í sumum tilfellum, kannske mörgum, er um að ræða öryggistæki sem bjarga mannslífum, en ég er ekkert viss um nema slíkt tæki verki öfugt undir sumum kringumstæðum. Ég er þeirrar skoðunar að það verði að einhverju leyti að treysta dómgreind almennings.

Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni og trúlega fleirum, að umferðarslysin, fyrir utan peningalegu hliðina á þeim, eru hrikaleg, en ég held að ef á að ná virkilega góðum árangri hvað það snertir að koma í veg fyrir slys af því tagi sem horft er upp á nánast daglega verði það ekki gert með boðum og bönnum. Ætli þau skipti ekki tugum, jafnvel hundruðum, boðin og bönnin í núgildandi umferðarlögum sem virt eru að vettugi og ekki framfylgt? Við horfum upp á það daglega, nánast hvar sem er á landinu, að umferðarlöggjöfinni er ekki framfylgt. Það var sagt áðan úr ræðustól: Lítið þið hérna út um gluggana. Þetta má horfa upp á dag eftir dag, að þverbrotin séu umferðarlög eins og hér er gert. En hvar er löggæslan?

Við horfum upp á þetta miklu víðar. Lagabókstafurinn sem slíkur gagnar því ekki í öllum tilvikum til þess að ná því fram sem menn telja æskilegast hverju sinni og ná árangri. Ég tek hins vegar undir það að ef menn eru um það sannfærðir að hægt sé að ná raunhæfum árangri með slíkri löggjöf eða með einhvers konar öðrum hætti eiga menn miskunnarlaust að berjast fyrir því að það verði gert. Ég er þó einn af þeim mönnum sem eru alls ekki sannfærðir um að þetta færi okkur fram á veginn og ýti undir skilning almennings í því að nota þetta öryggistæki í bílnum.

Hvað ætli hver og einn hv. þm. horfi upp á það oft á hverjum einasta degi að umferðarlögin séu brotin án þess að nokkuð sé aðhafst og oft og tíðum án þess að löggæslan hafi afskipti þar af? Það má kannske orða það eins og fyrrv. hæstv. dóms- og kirkjumálaráðh. áðan: Löggæslan má ekki líta undan þegar slíkt á sér stað. - Ef það á að ná árangri með þeim hætti að lögleiða þetta verður að sjálfsögðu að fylgja því eftir. Þar hefur á skort í allt of mörgum tilfellum að því er varðar umferðarlöggjöfina eins og hún er og að því er varðar miklu fleira í lagasmíð og framkvæmd hennar hér á landi.

Menn fullyrða hér margir hverjir að þeir hafi ekki trú á því að með fræðslu sé hægt að ná árangri í þessu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé hægt og það sé kannske vænlegra til árangurs að fá menn til að tileinka sér í þessu tilfelli notkun bílbeltis með því að fara aðra leið en að lögleiða það.

Ég hef oft vitnað til þess að þegar var skipt úr vinstri í hægri umferð á sínum tíma var það fyrst og fremst fræðslan sem varð þess valdandi að jafnvel tókst til og raun bar vitni. Það hefði að mínu viti ekki náðst sá árangur sem náðist þá hefði átt að fara fram með boðum og bönnum. Það var fyrst og fremst sú fræðsla sem uppi var höfð sem skilaði þeim árangri sem þá náðist og var virkilega góður árangur. Ég er enn sömu skoðunar, að fyrst og fremst muni fræðsla skila okkur betri árangri að því er þetta varðar en boð og bönn eins og hér er lagt til.

Ég vísa á bug fullyrðingum af því tagi, sem hér hafa komið fram, að við sem erum þessarar skoðunar, teljum að það eigi að fara aðra leið að markinu, séum andvíg því að ná árangri í öryggi í umferðinni. (Gripið fram í: Það næst ekki meira.) Það er síður en svo, hv. þm., að fullreynt sé orðið að það sé hægt. Spurningin er: Hvað vilja menn í þeim tilgangi eins og öðrum leggja af mörkum til þeirrar fræðslu sem þarf til að ná árangri? Ég hugsa að það skorti mikið á að menn hafi þar lagt nægilega mikið af mörkum til þess að viðunandi árangur skilaði sér.

Mér er ljóst að slík fræðsla kostar peninga og það mikla peninga, en hún kostar ekki mikla peninga miðað við þann árangur sem við gætum náð til að bjarga þeim gífurlega fjölda einstaklinga sem lendir í umferðarslysum á ári hverju hér á Íslandi. Ég vil ekki fyrir mitt leyti liggja undir því að ég sé neitt síðri talsmaður öryggis í umferð þó að mig greini á við aðra um hvaða leið skuli fara að markinu. En ég tel rétt að það komi strax fram að ég mun greiða atkvæði gegn frv.