19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6830 í B-deild Alþingistíðinda. (6132)

129. mál, umferðarlög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð sem mér finnst ástæða til að komi inn í þessar umr. því að þær eru um margt fróðlegar.

Ég vil byrja á því að lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér liggur fyrir á þskj. 133. Og ég styð þá brtt. sem minni hl. allshn. hefur lagt fram.

Ég vil taka sérstaklega undir það sem hv. 4. þm. Suðurl. sagði áðan. Þar var hvert orð rétt og málað réttum litum því að staðreyndir málsins eiga að blasa við öllum hugsandi mönnum. Ég er nýlega búinn að heimsækja stofnanir hér í Reykjavík þar sem fjöldi fólks dvelst sem sumt hvert nær sér aldrei eftir umferðarslys. Margt af þessu fólki hefði sloppið við örkuml ef það hefði notað þau öryggistæki sem bjóðast og bílbeltin eru vissulega meðal þeirra.

Ég vil ekki draga úr nauðsyn þess að auka fræðslu í þessum málum og hvet til þess að það sé gert, en því miður dugar það ekki. Ég tel að sá aðlögunartími sem við höfum haft frá því að lög um bílbelti voru sett hér á hv. Alþingi sé orðinn nægjanlega langur þannig að ekki dugi annað en að herða viðurlög við því að fara ekki eftir þeim lögum.

Ég vil endurtaka að ég vonast til þess að Alþingi afgreiði þetta mál á þann veg sem nál. minni hl. segir til um.