19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6835 í B-deild Alþingistíðinda. (6136)

533. mál, breytt nýting útvarpshúss

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Maður kemst ekki hjá því að taka þátt í umr. þegar nýtingarmál hinna ýmsu stórbygginga á höfuðborgarsvæðinu eru á dagskrá.

Hér er lagt til að skoðað verði hvort hægt er að nýta þetta mikla hús til einhverra annarra þarfa en fyrir sjónvarpið. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni, að það væri sjálfsagt full ástæða til þess og raunar nauðsynlegt fyrir hv. þm. að skoða þetta hús. Sjálfur hef ég ekki látið svo lítið, ef ég má svo að orði komast, að skoða þetta mikla hús. (Gripið fram í: Þú gætir týnst.) Já, ég gæti hugsanlega týnst. Ég mundi hætta á það samt. Vafalaust fengi ég góða fylgd hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar því að hann er þegar nokkuð kunnugur í þessari stórbyggingu.

Kannske hef ég ekki tekið nægjanlega vel eftir, en ég hef því miður ekki á takteinum hve mikið húsrými þessar stofnanir, þ. e. hljóðvarpið og sjónvarpið, hafa til ráðstöfunar nú og hversu mikil rýmisaukning er fyrirhuguð í nýju húsi. (Gripið fram í.) Já, ég geri ráð fyrir að þegar þessi bygging var teiknuð, hönnuð, hafi menn leitast við að gera sér í hugarlund umfang þeirrar starfsemi sem þar skyldi fara fram. Í grg. með þessari till. til þál. stendur, með leyfi forseta:

„Upphaflega var nýbyggingin áætluð hljóðvarpinu einu og kom það seinna til að ætla sjónvarpinu þar rými líka.“

Nú er ég ekki nógu kunnugur þeim fyrirætlunum sem þarna lágu til grundvallar. Var húsið fyrirhugað minna í upphafi eða stærra en raunin hefur orðið? Það mundi einhver halda því fram að með tilliti til þess sem hér stendur hafi verið farið út á þá braut að nýta húsið mjög vel, hafi upphaflegar hugmyndir verið samhljóða því húsi sem nú er senn risið, en ef þarna er um verulegt umframrými að ræða er ég á því að miðað við það að bæði hljóðvarpið og sjónvarpið verði þar til húsa hafi þeim skotist þótt skýrir séu. Ég segi nú ekki annað.

Í mínum huga er ákjósanlegt að ýmsu leyti að rekstur hljóðvarps og sjónvarps sé í nálægum húsakynnum, jafnvel sömu húsakynnum. Nú skal ég játa að ég er ekki nógu fróður um slík rekstrarmál, en einhvern veginn finnst mér að það hljóti að geta verið hagkvæmt að hafa báðar þessar stofnanir undir sama þaki.

Varðandi tæki sjónvarpsins, sem vikið hefur verið að, hef ég grun um að drjúgur hluti þess tæknibúnaðar sem þar er til nota sé kominn á síðari snúning, orðinn fyrntur og í sumum tilvikum jafnvel úreltur. Um þetta skal ég ekkert fullyrða. Ég segi þetta einfaldlega til að vekja athygli á því að það er ekki víst að þarna sé um að ræða að kasta öllu þessu á glæ samanborið við að e. t. v. þarf það endurnýjunar við hvort sem er.

En það má vel vera að þessari till. fylgi alvöruþungi. Ég mælist til þess áður en hv. þm. eru jafnvel knúnir til að taka afstöðu til þessa máls að þeir fái ráðrúm til að skoða þessa miklu byggingu.