19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6840 í B-deild Alþingistíðinda. (6138)

533. mál, breytt nýting útvarpshúss

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess, eins og fram kemur í umræddri till., að gerð sé könnun á því hvort ekki er hagkvæmara að skilja á milli starfsemi útvarps og sjónvarps, fyrst og fremst vegna þess að það er álit margra að fljótlega muni þrengja mjög verulega að báðum aðilum í hinu nýja útvarpshúsi og eins og komið hefur fram hér í umr. er það sjónarmið þorra starfsmanna sjónvarps að ekki sé ástæða til að flytja í hið nýja hús. Það er allsérstætt að þessi opinbera stofnun hefur ekki gert kröfu til þess að það sé byggt yfir hana. Hún vill vera í sínu gamla húsi. Þá held ég að ég sé að segja frá sjónarmiðum alls þorra starfsmanna sjónvarpsins.

Það er held ég einnig rétt að miklar líkur eru á að kostnaðurinn við að flytja starfsemina í hið nýja hús geti verið ámóta mikill og sú fjárhæð sem hægt væri að fá fyrir núverandi hús sjónvarpsins.

Það er þannig með sjónvarpið að það má segja að þar séu mörg hús inni í einu húsi. Það er sérinnréttað á margan hátt og margar deildir búa við sérstakar innréttingar. Það er því ekki út í hött að segja að það séu þarna mörg hús inni í einu húsi. Kostnaðurinn við að færa það til hlýtur að verða mjög mikill. Ég held að það sé þess vegna full ástæða til að skoða þetta mál til hlítar og með hraði.