19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6840 í B-deild Alþingistíðinda. (6140)

530. mál, greiðslujöfnun húsnæðislána

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Það frv. sem ég hef leyft mér hér að flytja er sömu tegundar og það frv. sem ríkisstj. flutti fyrir nokkru og þegar hefur hlotið afgreiðslu. Ég hafði ýmislegt út á það frv. að setja og tel að það hafi ekki svarað þeirri þörf sem fyrir hendi er og þar hafi ákveðnir þættir þess vanda, sem átti að leggja til atlögu við, verið teknir út fyrir sviga og ekkert í þeim málum gert. Þannig er þetta frv. mitt hér tilkomið.

Í sem fæstum dráttum er um það að segja að það takmarkar ekki eins sterklega þær aðgerðir sem ég tel nauðsyn vera á og frv. ríkisstj. Tilgangur þessa frv. er eins og tilgangur þeirra laga sem þegar hafa verið samþykki að jafna og létta greiðslubyrði af lánum einstaklinga til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin afnota með þeirri breytingu frá núgildandi lögum að hér verði um öll lán einstaklinga að ræða til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin afnota, en ekki eingöngu þau sem fólk á hjá Húsnæðisstofnun ríkisins eða Byggingarsjóði ríkisins, enda er það samdóma skoðun allra sem nú eiga í hvað mestum erfiðleikum með sín lánamál að sá vandi stafar ekki af þeim lánum sem á þessu fólki hvíla og tekin hafa verið hjá Byggingarsjóði ríkisins, en það eru yfirleitt lán á 15–25 ára kjörum með lágum vöxtum eða lægstu vöxtum sem völ er á og greiðslukjör því betri en nokkurs staðar annars staðar.

Eins fannst mér lögin sem samþykkt voru hér vera allt of flókin miðað við tiltölulega einfalda aðgerð og miklar orðskýringar á lagagreinum, sem þar var að finna, benda til þess að menn væru þar að fullnægja þörfum sínum til að láta ljós sitt skina frekar en þær fullnægðu einhverri nauðsyn eða þörf.

Eins tel ég að sá munur sem er á þessu frv. og þeim lögum sem hafa verið samþykkt sé kannske stærstur sá að stjórnvöld, sem hafa haft mjög mikil afskipti af peningamálum þessa lands, eru sá aðili sem ber ábyrgð á því ástandi sem lántakendur búa nú við. Með því að bera fram þetta frv. er ég að lýsa þeirri skoðun minni. sem ég tel að eigi að vera sjálfsagður hlutur, að það sé sameiginlegt hagsmunamál fjármagnseigenda, þá á ég við húsbyggjendur, og allra lánastofnana, hverjar sem þær eru, að greitt verði úr þeim vanda sem hér um ræðir. Mér sýnast fyrstu viðbrögð sem fengist hafa fregnir af, sérstaklega úr bankakerfinu, ekki benda til þess að bankakerfið telji sig vera í stakk búið til þess að bregðast við vanda þessa fólks með sama hætti og Byggingarsjóðurinn ætlar að gera. Þar sem það eru endanlega stjórnvöld sem bera ábyrgð á þessu ástandi teldi ég eðlilegt að stjórnvöld byðu upp á þann kost að gera öðrum lánastofnunum kleift að ráða fram úr vanda fólks með því að lána viðkomandi lánastofnunum fé sem samsvarar þeirri viðbótarfjárhæð sem af þessum skuldbreytingum leiðir. Séu nú einhverjir aðilar sem ekki fá með neinu móti úrlausn sinna mála skuli þeim gefinn kostur á láni úr Byggingarsjóði ríkisins á bankavöxtum til þess að tilgangi laganna skv. 1. gr. verði náð.

Eins kemur fram í frv. sú skoðun mín að sú launavísitala sem miða skuli við þegar reiknað er misgengið milli lánskjaravísitölu og kauptaxta sé meðalkauptaxtavísitala.

Ef ekki verður nægilega að gert sem allra fyrst er nokkuð víst að það kemur til fjölda nauðungaruppboða og þar má gera ráð fyrir því, eins og fram kemur í grg., að fólk tapi miklum fjármunum vegna þess misgengis sem hefur orðið á milli verðlags á fasteignum og lánskjaravísitölunnar eða áhrifa lánskjaravísitölunnar á lánin. Gróflega séð virðist mega reikna með því að fólk sem hefur fjárfest um 2 millj. kr. tapi við sölu líklega um hálfri millj. kr. af eigin fé ef það selur á þessu ári. Þetta tap er ekki hluti af einhverri eðlilegri áhættu, sem fólk tekur við fjárfestingar, því að þetta tap er til komið fyrir aðgerðir ríkisstj. Endanlega hlýtur það að vera viðkomandi lánastofnunum kappsmál að reyna að bjarga málum þessa fólks þó það væri ekki nema til þess að tryggja þá fjármuni sem þær hafa lánað og tryggja sparifjáreigendunum að þessir fjármunir haldi fullu verðgildi.

Menn töldu við umfjöllun um frv. ríkisstj. á sínum tíma, sem nú er orðið að lögum, að ekki væri þörf á því að láta þessi lög ná yfir aðrar lánastofnanir en byggingarsjóði, það nægði að fá loforð eða vilyrði frá öðrum lánastofnunum. Þá stöndum við frammi fyrir því að aðgangur fólks að lánastofnunum er ansi misjafn. Lög eru til þess að jafna rétt manna. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að þessi réttur sé tryggður með lögum.

Virðulegi forseti. Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að þetta frv. fær ekki neina umfjöllun á þessu þingi sem heitið getur, en ég tel nauðsynlegt að kynna þessi viðhorf nú strax. Ég býst ekki við því að við stöndum frammi fyrir því að búið sé hvorki nú né á næstunni, að leysa vanda þessa fólks sem hér um ræðir og lít þannig á að við séum að hefja hér sókn fyrir ákveðnum aðgerðum sem eiga enn þá þó nokkuð langt í land. Stærsta málið og aðalmálið er að endurskipuleggja húsnæðislánamál yfir höfuð þannig frá grunni að næstu kynslóðir, hvort sem þær kjósa að eiga íbúð eða sparifé, geti búið við meira öryggi en við hin.

Virðulegi forseti. Að þessari umr. lokinni legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.