19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6842 í B-deild Alþingistíðinda. (6146)

479. mál, ferðamál

Guðrún Tryggvadóttir:

Virðulegi forseti. Við 2. umr. um frv. til l. um skipulag ferðamála kom fram í nál. hv. samgn. að ég var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Fjarvera mín, sem stafaði af ónógum samgöngum við Austurland, þannig að ég náði ekki fundi samgn. í tæka tíð, hefur orðið þess valdandi að ég tek til máls hér og nú.

Það er mér sönn ánægja að lýsa því yfir að ég er fyllilega samþykk frv. Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi og því afar mikilvægt að vel sé á málum haldið að því er varðar skipulag. Sumir vilja kalla þessa atvinnugrein ferðamannaiðnað í daglegu umtali. Mér þykir það ljótt orð, ekki síst vegna þess að til iðnaðar þarf hráefni og hráefnið í þessu tilviki væru þá ferðamennirnir.

Í frv. er gert ráð fyrir að tilgangur laganna sé tvíþættur. Annars vegar að stuðla að þróun ferðamála sem atvinnugreinar og hins vegar skipulagningu ferðaþjónustu fyrir íslenskt og erlent ferðafólk. Ég fagna þessu frv. sérstaklega vegna þess að það felur m. a. í sér aukna möguleika á atvinnu úti á landsbyggðinni. Ekki er að efa að sú samvinna sem fyrirhuguð er milli ferðamálaráðs og landshlutasamtaka um ferðamál á eftir að skila sér ríkulega.