08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Ég skal ekki fara mörgum orðum um ræðu síðasta hv. þm. Hann hefur lengi verið einn helsti skemmtikrafturinn í hópi þm. og hann brást heldur ekki að þessu sinni. Ég vil að vísu taka undir það með hv. þm. að félagshyggjufólk þarf ætíð að standa á verði um velferðarþjóðfélagið og félagshyggjuna, en það verður ekki gert með því að frjósa fastir í aldagömlum hjólförum. Vitanlega þarf félagshyggjufólk eins og annað fólk að fylgjast með því sem gerist og því sem breytist í þjóðfélögunum í kringum okkur.

Ég vona hins vegar að menn hafi hlustað vandlega á ræðu hv. 1. flm. vantraustsins, Svavars Gestssonar. Ég gerði það a.m.k. og vildi þá leita að einhverjum góðum rökstuðningi fyrir vantrausti á ríkisstj. nú. Ég heyrði ekkert annað en kokhraustan stjórnarandstæðing halda því fram að ríkisstj., sem hann er svo mikið á móti, væri vond og að sjálfsögðu væri hann einn fær um að ráða málum þjóðarinnar. Að vísu var það afar athyglisvert að hlusta á hv. þm. halda því fram að Alþb. væri ábyrgur stjórnmálaflokkur. Ég er ekki viss um að honum hafi tekist að sannfæra þjóðina um það.

En hvers vegna er þá vantraustið flutt? Er vantraustið flutt vegna þess að ríkisstj. hefur óumdeilanlega tekist að færa verðbólgu úr u.þ.b. 130% niður í 15% á rúmlega einu ári? Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Svavar Gestsson að halda því fram að verðbólgan hafi verið um 86% þegar ríkisstj. tók við. Þetta eru opinberar tölur, tölur sem Hagstofan hefur birt, tölur sem voru byggðar á síðustu þremur mánuðum fyrir ríkisstjórnarskiptin. Verðbólgan var þá 130% og allir vita að íslenskir atvinnuvegir hefðu aldrei staðist þá verðbólgu. Það vita allir og einnig þessi hv. þm. að atvinnulífið hefði stöðvast og fjöldaatvinnuleysi hefði orðið. Frá þessu hefur ríkisstj. bjargað þjóðinni. Er vantraustið flutt þess vegna?

Er vantraustið flutt vegna þess að í raun og veru hefur ríkisstj. bjargað þjóðinni frá þeirri hættu að glata sínu efnahagslega sjálfstæði? Ég leyfi mér að fullyrða að þjóð, sem er með erlendar skuldir sem nema um það bil 60% þjóðarframleiðslu, hefði ekki lengi staðist það að atvinnulífið stöðvaðist og atvinnuleysi yrði, að tekjur fengjust ekki til að standa undir erlendum skuldum. Ætli við værum þá ekki í hópi Suður-Ameríkuþjóða? Er það þess vegna sem hv. þm. flytur vantraustið? Er það vantraust á ríkisstj. fyrir að hafa bjargað frá þessari holskeflu?

Hv. þm. leyfir sér að halda því fram að atvinnuleysi hafi skapast. Þó sýna opinberar tölur að atvinnuástand hefur verið mjög viðunandi, atvinnuleysi u.þ.b. 1%, eða aðeins lítið eitt hærra en það var þegar hann gegndi ráðherrastörfum. Að sjálfsögðu hafa atvinnufyrirtæki hingað og þangað um landið stöðvast, eins og gerðist í þá tíð. En er hv. þm. að halda því fram að atvinnuleysi hefði ekki orðið þegar sjávarútvegsfyrirtæki stöðvuðust t.d. á Eyrarbakka, Bíldudal, Þórshöfn o.s.frv.? Vitanlega var þá gripið til ráðstafana til að endurreisa þau fyrirtæki og endurskapa atvinnuna og það hefur þessi ríkisstj. einnig gert. Einstök fyrirtæki lenda ætíð í erfiðleikum og við því verður ekki gert. Af ýmsum ástæðum gera þau það.

Nei, atvinnuöryggi hefur verið gott þrátt fyrir hrakspár hv. stjórnarandstæðinga og ekki síst þessa þm., sem lesa má í þskj. frá s.l. vetri þegar hann hélt því fram, og endurtekið var á síðum Þjóðviljans, að atvinnuleysi hér yrði gífurlegt, varla reiknanlegt, það yrði svo mikið í kjölfar ráðstafana ríkisstj. Þetta hefur reynst algerlega rangt. Ef þetta veldur hv. þm. vonbrigðum, þá ætti hann að fela þau vonbrigði.

Hv. þm. talar mikið um það að kaupmættinum sé rænt og hann er að reyna að afsaka það, sem hann alls ekki þarf að gera, að kaupmátturinn féll á árinu 1982. Hann leyfir sér meira að segja að kalla línurit, sem birtist og dreift hefur verið nú á borð þm. í útgáfu kjararannsóknarnefndar nr. 65, falsrit, hann segir að það sé falsað. Þetta rit og þær tölur sem því fylgja sýna svo að alls ekki verður um deilt að kaupmátturinn féll frá miðju ári 1982 og þar til ríkisstj. tók við um a.m.k. 15% eða svona nærri 2/4–3/4 af því sem kaupmátturinn hefur fallið. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að vitanlega féll þessi kaupmáttur vegna þess að þjóðartekjur voru fallandi. Sá kaupmáttur verður aldrei varinn sem ekki hefur þjóðarframleiðslu og þjóðartekjur að baki nema menn vilji taka erlend lán, en það vildi hv. þm. ekki frekar en allir í þeirri ríkisstj. gera. Við vitum allir að erlendar skuldir þjóðarinnar eru orðnar of háar.

Hv. þm. segir gjarnan að fólkið hafi greitt herkostnað við að koma verðbólgunni niður þrátt fyrir það að hann hefur nú fengist til að viðurkenna að kaupmátturinn hlaut að falla þegar þjóðartekjur falla. En þegar hann segir að stolið hafi verið fjórðu hverri krónu úr umslagi launþegans, þá getur hann þess aldrei að við Íslendingar höfum nú gengið í gegnum lengsta samdráttarskeið sem við höfum orðið að þola í 30 ár. Þá getur hann þess aldrei að þjóðartekjur hafa fallið um u.þ.b. 9%. Þá getur hann þess aldrei heldur að við Íslendingar höfum því miður lifað oft og lengi við viðskiptahalla eða m.ö.o. safnað erlendum skuldum. Hann getur þess aldrei að erlendar skuldir, sem eru um 60%, mega ekki aukast.

Þessi þjóð getur ekki haldið áfram á þessari braut. Þessi þjóð getur ekki haldið uppi kaupmætti með viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun. Frá því hefur þessi ríkisstj. einnig bjargað þjóðinni. Ríkisstj. hefur spornað við því að erlendar skuldir aukist. Erlendar skuldir á þessu ári hafa ekki aukist nema u.þ.b. 1% og það er minni aukning erlendra skulda en verið hefur í áratug hingað til. Hv. þm. getur þess heldur ekki að krónurnar, sem mennirnir fá í launaumslögin nú, eru ólíkt meira virði en þær sem þeir fengu eftir vísitöluhækkanir verðbólguáranna. Á fundi ekki alls fyrir löngu gat ég þess að vísitöluhækkanir launa hefðu allar verið uppétnar af verðhækkunum á einum mánuði. Þá stóð upp einn skynsamur maður og sagði: Þetta er rangt, ég fylgdist vandlega með þessu og ég leyfi mér að fullyrða að verðbætur launa voru búnar eftir tvær vikur. Það er þess vegna sem kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur minnkað miklu minna en kaupmáttur kauptaxta m.a.

Hv. þm. heldur því fram að ríkisstj. muni ekki kappkosta að varðveita þann kaupmátt sem raunhæfur er. Hann hefur að vísu, sýnist mér, dregið það nokkuð í land, hann mælir ekki gegn því að kaupmátturinn hljóti eitthvað að falla. Í sjónvarpinu s.l. þriðjudag heyrðist mér hins vegar hann segja hvað eftir annað að vitanlega ætti að varðveita þann kaupmátt sem um hefði verið samið. Ég spurði hv. þm. að því þá hvort hann teldi ekki að bændur ættu að fá svipaða tekjuhækkun og launamenn hafa fengið og sjómenn sömuleiðis sama og menn hafa fengið í landi. Eftir nokkra hringsnúninga viðurkenndi hann það, að svo hlyti að verða. En ég vil þá gjarnan spyrja hv. þm. að því hvort hann telji að landbúnaðarverð hljóti þar með ekki að hækka. Launakostnaðurinn í vinnslu og framleiðslu landbúnaðarafurða er u.þ.b. 40% heildarkostnaðar. Mér sýnist ljóst að landbúnaðarvörur hljóti að hækka a.m.k. sem því nemur. Er þá önnur kostnaðarhækkun ekki með talin. Eða telur hv. þm. t.d. að byggingarkostnaður hljóti ekki að hækka með útseldri vinnu? Útseld vinna hlýtur að hækka eins og launin hafa hækkað. Ég sá nýlega í blöðum t.d. að bækur muni hækka um allt að 15%. Þetta eru allt saman hækkanir sem ríkisstj. ræður ekki við og þetta eru allt saman hækkanir sem munu byrja að draga til baka þann kaupmátt sem um hefur verið samið.

Ég heyrði að hv. þm. viðurkenndi að sjómenn hlytu að fá svipaða launahækkun. Launahækkun og kostnaðarhækkun í fiskvinnslunni þar með verður orðin á bilinu 15–18%. Hv. þm. heldur því fram að þetta eigi að bæta með því að draga úr milliliðakostnaðinum. Ég tek undir það með hv. þm. að sjálfsagt er að leggja áherslu á það. En dettur nokkrum heilvita manni það í hug að unnt sé að draga svo úr þeim 25%, sem eftir eru af kostnaði fiskvinnslunnar, að unnt sé að mæta slíkum kostnaðarhækkunum hjá fiskvinnslunni í heild? Nei, vitanlega dettur engum heilvita manni það í hug og ekki einu sinni hv. þm.

Ríkisstj. mun leggja áherslu á að þær ráðstafanir, sem nauðsynlegt verður að grípa til, tryggi atvinnuöryggi. Undir það vil ég taka með hv. þm., enda er þetta fyrsta atriðið á stefnuskrá ríkisstj. og hefur tekist vel. Því verður haldið áfram. Ég er þeirrar skoðunar að atvinnuöryggi sé eitt hið mikilvægasta fyrir Íslendinga. Íslendingar hafa lengi byggt tekjur sínar á mikilli atvinnu. Atvinnuleysi væri því ákaflega skaðlegt.

Ég tek einnig undir það með hv. þm. að að sjálfsögðu ber að leggja áherslu á að ýmsir milliliðakostnaðir lækki, eins og t.d. farmgjöldin. Það er auðveldast að gera með því að bjóða út flutningana. Ég get t.d. upplýst að nýlegt útboð SH á flutningum á fiski mun leiða til mjög verulegrar lækkunar. Þá leið á tvímælalaust að fara. Staðreyndin er hins vegar sú að fragtgjöldin hækkuðu mest árið 1982 vegna þess að þau eru, eins og hv. þm. sagði, bundin í erlendum gjaldeyri og gjaldeyrir féll mest á því ári.

Ég vil einnig taka undir það með hv. þm. að gæta verður þess á meðan verðbólgualda gengur yfir að vextirnir fylgi henni ekki upp. Vitanlega verður það gert. En ég spyr hv. þm.: Treystir hv. þm. sér til að lækka þá vexti sem t.d. eru nú á erlendum lánum? Treystir hv. þm. sér til þess að lækka t.d. dollaravextina sem eru 9.5% umfram verðbólgu? Staðreyndin er vitanlega sú að fjármagn í íslensku atvinnulífi er gífurlega mikið háð erlendum vöxtum, eins og erlendu skuldir þjóðarinnar bera glöggan vott um.

Ég tek einnig undir það með hv. þm. að halda verður verðlagi niðri eins og frekast er kleift. Nýlegt yfirlit, sem ég fékk frá Hagstofu og Verðlagsstofnun, var lagt fram á ríkisstjórnarfundi í dag og sýnir athyglisverðar niðurstöður. Það sýnir að hækkun á því, sem hefur verið losað undan verðlagseftirliti, er umtalsvert minni en á því sem er undir verðlagseftirliti eða undir hámarksverðlagi. Ég held satt að segja að hv. þm. mættu skoða þetta. Þetta sýnir okkur að næg samkeppni, en þannig eru þau lög sem farið er eftir, leiði til verðlækkunar.

Góðir Íslendingar. Alþb. ætlar að koma ríkisstj. frá. Það beitti sér fyrir því í verkföllunum og var mörgum saklausum einstaklingnum fórnað í því skyni, fyrst prenturum og síðan opinberum starfsmönnum. Það tókst ekki. Þetta vantraust er flutt á fyrstu dögum þingsins og átti að innsigla slíkan sigur. Það sem Alþb. hefur tekist er að kynda eld verðbólgunnar á ný. Ríkisstj. mun taka á þessum málum af festu. Ríkisstj. mun kappkosta að treysta atvinnuöryggi, treysta rekstrargrundvöll atvinnuveganna, tryggja þann kaupmátt sem raunverulegur er og mun gera sérstakar ráðstafanir til þess að þeir, sem lökust hafa kjörin, beri sem mest úr býtum. Ríkisstj. leggur áherslu á að slökkva þann verðbólgueld sem Alþb. reynir að kynda.