19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6856 í B-deild Alþingistíðinda. (6166)

456. mál, Byggðastofnun

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirra orðaskipta sem hér urðu áðan milli hv. 5. landsk. þm. og hv. 8. landsk. þm. Það er kannske fyrst til að taka að benda hv. 5. landsk. þm. á að hlusta áður en hann talar því að hér var enginn að slá neinu eignarhaldi á nokkrar hugmyndir heldur lýst stuðningi við skoðanir sem hann lýsti hér úr ræðustól. Það er að því er ég best veit enginn í Bandalagi jafnaðarmanna svo vitlaus að halda því fram að neitt af því sem við erum að berjast fyrir sé nýtt undir sólinni. Ef svo væri, að ekki mætti halda við neitt það sem gamalt væri, þá væri náttúrlega réttast að byrja á því að henda burt blessuðu lýðræðinu því að það er orðið allt of gamalt.

Þær hugmyndir sem hreyft var meðal Austfirðinga og komu m. a. fram í Gerpi og studdar voru þar mjög rækilega af framsóknarmönnum miklu frekar en jafnaðarmönnum eru náttúrlega svona með þeim fyrri sem settar hafa verið fram um þriðja stjórnsýslustigið og komu vitaskuld í kjölfarið á lýðveldisstofnuninni. En mér er ekki kunnugt um að Alþfl. hafi barist fyrir þessum hugmyndum í a. m. k. 40 ár. Ég held að hv. 5. landsk. þm. geti ekki haldið því fram. Sama er um hugmyndina um landið sem eitt kjördæmi. Auðvitað er sú hugmynd ekki ný. En þó að þetta hafi verið svokallað baráttumál Alþfl. vegna þess að menn hafa skráð eitthvert mál einhvern tíma í einhverja stefnuskrá, þá er allavega mjög langt síðan Alþfl. barðist fyrir því að landið yrði eitt kjördæmi. Og hvað seinustu orðum hv. þm. viðvíkur, þá teldi ég nú, fyrir mig sjálfan sagt, að ég vildi frekar vera í smáum flokki sem er fallegur en stórum flokki sem er ljótur.

Hv. 4. þm. Vesturl. talaði hér um þriðja stjórnsýslustigið og um hans orð get ég ekkert annað sagt en að það mat hans á þriðja stjórnsýslustiginu sagði allt um skoðanir hans á hlutverki stjórnmálamanna en ekkert um þriðja stjórnsýslustigið í raun og veru. Samkvæmt hans skilningi eru hans stjórnmálamenn fyrst og fremst nokkurs konar þjónustuaðilar sem fólk verður að sækja allt sitt til og þess vegna telur hann þessu hlutverki sínu betur borgið í nafnleysi stóru miðstýringarinnar í Reykjavík heldur en í nálægðinni við kjósendur sína heima í kjördæmi.