08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 902 í B-deild Alþingistíðinda. (617)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég lýsi vantrausti á þessa ríkisstjórn í kvöld af þremur höfuðástæðum. Sú fyrsta er að ríkisstjórnin hefur misboðið réttlætiskennd og sjálfsvirðingu þjóðarinnar. Önnur ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist í því hlutverki sínu að búa hér í haginn fyrir framtíðina í efnahagslegu og atvinnulegu tilliti. Þriðja ástæðan er sú að ríkisstjórnin er hrunin. Hún nýtur hvorki trausts fólksins í landinu né þingmanna sinna og stjórnarflokkarnir virðast hættir að treysta hver öðrum.

Um hvað fjalla stjórnmál? Fjalla þau um það hvort einhver þrep í skattstiga eigi að vera 30 eða 35%? Fjalla þau um það hvort húsnæðislán eigi að greiðast á einum, tveimur eða þremur gjalddögum?

Um hvað talar fólkið á götunni? Þegar ég ræði skattamál við kunningja minn þá ræðum við kannske um skattprósentuna en það kemur enginn glampi í augun á honum. Glampinn kemur þegar talið berst að þeim sem enga skatta greiða, svíkjast um að greiða til velferðarkerfisins sem hjúkrar sjúkum og öldruðum og menntar börnin okkar.

Þegar ég ræði húsnæðismál við hann erum við sammála um að auðvitað sé greiðslufyrirkomulag lánanna óviðunandi, en það kemur enginn glampi í augun á honum. Hann kemur þegar talið berst að kynslóðamisréttinu. Fæstir þeirra sem byggðu fyrir 1975 skilja vandkvæði unga fólksins í dag. Nú leggur fólk ekki hart að sér í 3 eða 4 ár til þess að eignast húsnæði. Ef það á annað borð eignast húsnæði þarf það að fórna til þess allri ævinni við núverandi ástand.

Ég þekki fullorðin hjón. Þau eiga fjögurra ára gamlan bíl. Á næsta ári verður húsbóndinn að hætta að vinna og láta ellilífeyrinn og eftirlaunin nægja. Þá verða þau að selja skrjóðinn sinn eins og þau segja, og það kemur þessi sami glampi í augun á þeim. Svona er ástandið eftir samanlagt 110 ára starfsævi þeirra. Verðlaun samfélagsins til handa gamla fólkinu, fólkinu sem hefur komið okkur öllum á legg, eru að halda því við hungurmarkið.

Hver er samnefnarinn úr þessum dæmum, um skattamálin, húsnæðismálin og lífeyrismálin? Samnefnarinn er óréttlæti. Ójöfnuðurinn á milli kynslóða og starfsstétta er orðinn óbærilegur. Við þekkjum fleiri dæmi. Kynjamisréttið er eitt. Misrétti til náms er annað dæmi.

Fólk vill ekki láta beita sig óréttlæti. Það er höfuðhlutverk ríkisstjórnar að gæta jafnaðar og réttlætis. Þessu hlutverki hefur ríkisstj. brugðist. Þess vegna hefur þjóðin lýst vantrausti á hana og þær niðurstöður birtust okkur fyrir skemmstu í skoðanakönnunum og verkfallsaðgerðum.

Ég sagði í byrjun að ríkisstjórnin hefði misboðið sjálfsvirðingu fólksins. Hvað hefur sjálfsvirðing með þetta mál að gera? Hvað er sjálfsvirðing? Hluti sjálfsvirðingar er staðföst vissa einstaklingsins um það að vera metinn að verðleikum, að samfélagið hafi trú og traust á því sem hann tekur sér fyrir hendur. Þess vegna er það árás á sjálfsvirðingu opinberra starfsmanna þegar fjármálaráðuneytið lýsir því yfir á haustdögum að það hafi ekki ætlað sér að greiða þeim mannsæmandi laun. Það er árás á sjálfsvirðingu kennara þegar fjármálaráðherrann, ráðherra sem á að þjóna öllum landsmönnum en ekki sérvisku sinni einni, lýsir því yfir að kennarar séu ekki launa sinna verðir vegna þess að þeir vinni ekki eins og menn. En þó er stærsta árásin á sjálfsvirðingu fólksins sú staðreynd að fjöldi fólks, duglegs heilbrigðs fólks, getur ekki með fullri vinnu séð fyrir nauðþurftum heimila sinna, svo að við tölum ekki um þá sem búa við sjúkdóma eða skerta starfsorku. Framkoma ríkisstjórnarinnar við þetta fólk er árás á sjálfsvirðingu þess.

Ameríski heimspekingurinn John Rawls, sem fyrir rúmum 10 árum síðan skrifaði bókina Kenning um réttlæti, telur sjálfsvirðinguna til grundvallarlífsgæða. Hann setur hana á bekk með frelsi, mannréttindum, heilbrigði og öðru slíku. Ég tel þetta rétt. Árás ríkisstj. á sjálfsvirðingu fólks og réttlætiskennd er skýring á því að meiri hluti landsmanna skildi og studdi launabaráttu opinberra starfsmanna. Þetta eru líka ástæðurnar fyrir því að borgarstarfsmenn felldu samningana. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ríkisstj. er að missa stuðning fólksins í landinu.

En ráðamenn leita annarra skýringa. Þeir segja að kommarnir hafi verið að æsa fólkið upp. Þeir segja að Kristján Thorlacius hafi komið með svo mergjaðan áróður gegn borgarsamningunum í einum hádegisfréttatíma um það leyti er fólk gekk til atkvæða um samningana og það hafi ráðið úrslitum. Þeir segja að fólk skilji ekki nauðsyn aðhalds og sparnaðar í efnahagsmálum.

Þeir stjórnmálamenn, sem í grunnhyggni og einfeldni leggja slíkan dóm á hlutina, ættu að vara sig. Það eru að gerast merkilegir hlutir í íslenskri pólitík. Í æ ríkara mæli er fólk farið að láta skoðanir sínar frekar en flokksskírteinin ráða gerðum sínum. Fólkið í landinu þekkir muninn á réttu og röngu, réttlæti og óréttlæti. Þessi stóri dómur hefur þegar fellt sinn úrskurð.

Þetta var um það hvernig ríkisstjórnin hefur vegið að réttlætiskennd og sjálfsvirðingu fólksins í landinu. Snúum okkur nú að framtíðinni.

Á næstu 15 árum, þ.e. til aldamóta. mun gífurlegur fjöldi ungmenna koma á vinnumarkaðinn, líklega nærri 20 þúsund manns. Vegna samdráttar og breyttra atvinnuhátta, svo sem aukinnar sjálfvirkni og tölvuvæðingar, munu landbúnaður og sjávarútvegur ekki taka við auknum fjölda fólks á komandi árum. Þvert á móti mun störfum þar fara fækkandi, jafnvel svo að þúsundum skiptir. Það er því brýnt að nýr atvinnurekstur komi í staðinn.

Hvað þarf að gera til að bæta lífskjörin til frambúðar? Í fyrsta lagi þarf að hyggja að ýmsum gömlum fyrirtækjarekstri og uppræta þar ýmis rótgróin vandamál íslensks þjóðarbúskapar, sem eru m.a. fjáraustur í ríkisrekinn hallærisfyrirtæki, glórulausar fjárfestingar í sjávarútvegi og landbúnaði. millifærslur og ölmusugjafir. Í þessum tilfellum er í engu sinnt sjálfsögðum kröfum um arðsemi og heilbrigðan rekstur fyrirtækja sem framtíðarþróun öflugs efnahagslífs verður að byggjast á. Þessi rekstur er heldur ekki samboðinn fólki sem vill standa á eigin fótum. Það er staðreynd að atvinnurekendur og launafólk á Íslandi eru orðin langþreytt á því að þurfa að vera bónbjargarmenn við borð stjórnmálamannanna. Þetta fólk vill bera ábyrgð á gerðum sínum. Það þarf að byggja ný fyrirtæki undir forsjá fólksins í landinu. Þessi fyrirtæki eiga að byggja á framtaki einstaklinga og frjálsum samtökum þeirra. Þau þurfa að fá að bera arð til nýsköpunar og fjárfestingar og til að greiða aðstandendum sínum eðlilegan hagnað. Með slíkum atvinnurekstri er hægt að endurreisa lífskjörin í landinu.

Kunnáttumenn telja að Vesturlönd muni hafna stóriðjukostinum í síauknum mæli en snúa sér frekar að nýtæknigreinum eins og tölvutækni. líftækni. fjarskiptatækni, geimtækni og þess háttar. Þessi staðreynd ætti að vera Íslendingum til umhugsunar, sem um árabil hafa fylgt þeirri stefnu að nýting fallvatna til stóriðju væri eina von þeirra til aukinnar hagsældar. En á Vesturlöndum er stóriðjan því að verða stefna gærdagsins.

En hvað gerum við í þessum málefnum framtíðarinnar? Það er heldur lítið. Við erum á kafi í gömlu iðnbyltingunni og við erum að skuldbreyta í landbúnaði og sjávarútvegi svo milljónahundruðum skiptir. Byltingamenn stóriðjudrauma okkar eru á ferðalögum um allan heim til að laða hingað atvinnuhætti gærdagsins. En þeir eru því miður einni iðnbyltingu á eftir. Ef við ætlum okkur hlut í framtíðinni verðum við að kaupa hlutabréf í henni strax í dag. Við gerum það með því að segja námsfólki okkar frá möguleikunum og með því að segja þeim frá hugmyndum okkar um lífshætti morgundagsins. Það gerum við t.d. með því að styrkja rannsóknir á íslenskum möguleikum. Rannsóknarmönnum okkar mundi muna stórkostlega um fjárstyrk sem ekki næmi meiru en ferðastyrkjum og dagpeningum stóriðjunefndarinnar.

Við skulum fara að þurrka móðuna af framrúðunni áður en 21. öldin rennur upp. Ef við horfum einungis í baksýnisspegilinn gætum við orðið heiminum nokkurs konar Árbæjarsafn í atvinnuháttum. Undirstaða þessarar framtíðar er þekking og hugvit eins og áður sagði. Bismarck sagði einu sinni að framtíðin væri þeirra þjóða sem ættu bestu skólana. Þjóð sem á í efnahagsörðugleikum og býr sig undir sókn til bættra lífskjara, ætti því að styrkja skólakerfi sitt og bæta aðbúnað nemenda og kennara. Maður skyldi því halda að það væri stjórnvöldum landsins ærið umhugsunarefni að kennslustörf eru hér á öllum stigum skólakerfisins að verða láglaunastörf. Menn skyldu spyrja sig hvort þannig sé tryggt að þjóðin njóti bestu leiðsagnarinnar inn í 21. öldina, sem verður öld menntunar, þekkingar og hugvits.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur að vísu uppgötvað framtíðina. En á sama tíma veldur hún samdrætti í skólakerfi landsins, hún veldur því að kennarar flýja störf sín og það er undir mati ríkisbankastjóranna komið hvaða námsmenn hefji nám hér á næstu árum á æðri menntastigum. Námslánakerfið, sem átti að vera efnalitlu fólki trygging til að geta sótt sitt nám, er það ekki lengur. Nú verður unga fólkið að mæta hjá bankastjórunum og þeir, sem ekki eiga nógu álitlega ábyrgðarmenn fyrir víxlana, fara ekki í skóla. Þetta er enn eitt dæmið um óréttlætið sem magnast hefur í tíð þessarar stjórnar. En þetta er líka dæmi um það að peningamálastefna skammsýnnar ríkisstj. kemur í veg fyrir að þjóðin fái að njóta gáfna og starfskrafta sumra sinna bestu manna. Ríkisstjórnin vanrækir skóla- og menntakerfið. Þess vegna m.a. lýsi ég vantrausti á hana. Henni finnst menntun fólksins dýr, en það er ekki þorandi að leyfa henni að sýna okkur hvað fáfræði þjóðarinnar muni kosta.

Herra forseti. Ég lýsi vantrausti á þessa ríkisstj., eins og ég hef sagt í ræðu minni, vegna þess að hún hefur misboðið réttlætiskennd og sjálfsvirðingu fólks og hún hefur svikist um að byggja hér upp atvinnuhætti fyrir framtíðina. En þetta vantraust nær um leið til stjórnarhátta síðustu áratuga á Íslandi. Öllum ríkisstj. hefur mistekist að gæta réttlætis. Allar ríkisstj. hafa verið að baslast í sjávarútvegi og landbúnaði, sem þrátt fyrir ellefu hundruð ára aðlögunartíma virðast ekki kunna fótum sínum forráð.

Allar ríkisstj. hafa byggt hérna upp óvirki og lamandi kerfi flokksítaka og sérhagsmunavörslu. Í stofnunum ríkisins út um allan bæ eru skrifborð og á stólbökum hanga jakkar. En hvað eru eigendur jakkanna að gera? Þótt einhvern tíma hafi verið ástæða til að setja upp stofnanir til að sinna ýmsum verkefnum fyrir þessa þjóð er full ástæða til þess að endurskoða hvort ýmsri slíkri starfsemi sé ekki hægt að sinna nú á tímum á annan hátt.

Stefán Benediktsson þm. BJ flutti nýlega tillögur um að ríkið hætti þátttöku í eða legði niður ýmsar af þeim stofnunum sem hér hafa hrannast upp á undanförnum áratugum. Viðbrögð þm. voru býsna forvitnileg. Einn þm. Alþb. lagði þær að jöfnu við árás á velferðarkerfið. Hann setti sem sé samasemmerki á milli Jarðborana ríkisins og dagvistarheimila eða framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar ríkisins og sjúkrahúsa eða húsameistara ríkisins og barnaskóla. Það er nefnilega svo að kerfiskarlarnir bæði innan þings og utan eru löngu hættir að greina á milli þeirra stofnana, sem milliliðalaust varða velferð einstaklinga, menntun þeirra og heilbrigði, og ýmiss konar skriffinnskustofnana sem hugsanlega áttu einhvern tíma rétt á sér en eru nú orðnar eins og steinrunnar tröllkerlingar í dagrenningu. Þessar stofnanir skipta tugum og rekstur þeirra kostar milljónahundruð.

BJ vill standa dyggan vörð um það velferðarkerfi fólksins í landinu sem hér hefur risið upp í samvinnu allra flokka á undanförnum áratugum. Nú eru gerðar að því kerfi áður óþekktar atrennur. En sú varðstaða bandalagsins nær ekki tilvelferðarstofnana pilsfaldakapítalistanna og kerfiskarlanna.

Herra forseti. Ég minntist hér fyrr í ræðu minni á ýmis atriði er varða uppbyggingu atvinnuvega á Íslandi. Þýðing sjávarútvegsins fyrir okkur Íslendinga markast fyrst og fremst af þeirri staðreynd að 70–80% af gjaldeyristekjum okkar aflast vegna sölu ýmiss konar sjávarafurða. Þessi gjaldeyrisöflun verður að gerast á sem hagkvæmastan hátt fyrir alla þjóðina. Svo mikilvæga atvinnugrein er ekki hægt að reka eins og félagsmálastofnun. Þar verður að minnka íhlutun ríkisvaldsins, afskipti þess af verðlagsmálum greinarinnar verða að hætta. Til greina kæmi að breyta gjaldeyrismeðferð. Sölukerfin þarf að opna og það þarf að kanna miklu meira en nú er gert hvort íslensk kunnátta í sjávarútvegi og íslensk fyrirtæki geti ekki haslað sér völl erlendis.

Herra forseti. Í upphafi máls míns nefndi ég þriðju höfuðástæðuna fyrir því að ég stæði hér að flutningi vantrauststillögu í kvöld. Hún var sú að ríkisstj. hefði glatað trausti fólksins í landinu og þm. sinna og að innviðir hennar væru að hrynja. Um þessi atriði þarf í raun ekki að hafa svo mörg orð. Þan skýra sig af fréttum undanfarinna daga þar sem stjórnarþm. hafa vegist á.

Framsfl. virðist að talsverðu leyti kominn með annan fótinn út fyrir borðstokkinn og Páll Pétursson þingflokksformaður framsóknarmanna hefur lýst andstöðu sinni við flestallt sem ríkisstj. hefur gert frá því í vor, t.d. í peningamálum, launamálum og útvarpsmálum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Hæstv. forsrh. er hættur í pólitík og er kominn í einkastríð við hv. þm. Svavar Gestsson. Það er orðið dálítið þreytandi fyrir þjóðina, fyrst í sjónvarpinu um daginn og nú í kvöld, að hlusta á þetta uppgjör. Ég legg til að ráðh. taki hv. þm. Svavar Gestsson með sér í næstu ferð á kjördæmisþing framsóknarmanna í Austurlöndum nær og þeir geri út um sín mál úr fyrri ríkisstj. án þess að þjóðin þurfi að horfa upp á það.

Sjálfstfl. er sýnilega ekki í neinu ástandi til þess að vera aðili að ríkisstj. Menn voru farnir að venjast því að hann væri klofinn, en nú er hann sundraður, tvístraður. Hann er eins og brotinn spegill á baðherbergisgólfi. Þessum stóra flokki ólíkra sjónarmiða og ólíkra hagsmuna var áður haldið saman af sterkum forustumönnum, töframönnum, sem voru þyngdarpunkturinn í flokksstarfinu og allra augu mændu til. Nú er þessi stóri flokkur að vakna úr álögum, nú horfa hinir almennu flokksmenn ekki út fyrir raðir sínar til sterkra foringja, heldur horfa þeir inn á við og þeir horfa hver á annan og segja: Er ég í flokki með honum? Og kennararnir í Sjálfstfl. segja: Er ég virkilega í flokki með fjmrh.? Og launþegarnir segja: Erum við í flokki með strákunum uppi í Garðastræti? Þetta er eins og upprisa af Þyrnirósarsvefni. Raunveruleikinn blasir við og hann er sár. En það er augljóst að þessi flokkur getur á engan hátt verið aðili að ríkisstj. eins og fyrir honum er komið.

BJ lýsir vantrausti sínu á þessa ríkisstj., á þá stjórnarhætti sem hafa komið okkur í þær þrengingar sem við erum nú í og á það stjórnkerfi sem hefur aldrei átt neinar lausnir á vandamálum samtímans. Tilvist BJ, hvert einasta prósent í fylgi þess, er raunar ein allsherjar vantraustsyfirlýsing á ríkjandi stjórnarháttu. — Góða nótt.