19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6871 í B-deild Alþingistíðinda. (6177)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er nú jafnan svo að þegar sígur á seinni hluta þingsins sneyðist mjög um þann tíma sem menn hafa til umráða til að fjalla um hin ýmsu mál sem þá eru á dagskrá. Auðvitað hefur þetta gerst á þessu þingi nú þegar dregur að lokum engu síður en undir öðrum kringumstæðum.

Þetta frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu búvara er kannske dæmigert fyrir þá meðferð sem mál fá hér á síðustu dögum þings. Málið er búið að vera lengi hjá hv. landbn. Nd., sem gerði við það allmargar brtt. sem eru ekki efnislegar, vil ég segja, nema tiltölulega mjög fáar. Þessar brtt. eru hvorki meira né minna en 16 talsins, sumar satt best að segja ákaflega lítilvægar, og verður ekki séð hverju þær breyta í rauninni. Landbn. þessarar hv. deildar hafði að vísu uppi nokkra tilburði til að fjalla lítillega um þetta mál áður en það barst nefndinni og var það svo sem virðingarverð viðleitni af hálfu formanns, hv. 11. landsk. þm. Engu að síður verður að viðurkenna að frv. hefur alls ekki fengið þá athugun í deildinni sem vert væri. Landbn. hélt að vísu alllangan fund í morgun, um það bil tveggja klukkustunda fund. Þangað komu fulltrúar ýmissa þeirra aðila sem hagsmuna eiga að gæta og er skylt að geta þess að formaður nefndarinnar varð við öllum óskum um að kveðja til fundar þá menn sem nm. óskuðu eftir að fengnir yrðu til að tjá sig um málið. Þangað komu sem sé fulltrúar Stéttarsambands bænda, fulltrúar Neytendasamtaka, fulltrúi kartöfluframleiðenda og alifuglaframleiðenda.

Við áttum fróðleg samtöl við þessa gesti okkar og þar kom mætavel í ljós hver ágreiningur ríkir um þetta mál, ágreiningur sem kannske er útilokað að jafna, vegna þess að svo virðist sem hér rekist á hagsmunir. Það er sjálfsagt aldrei hægt að semja frv. til l. um þessi mál sem bændur verða alsáttir við og fulltrúar neytenda telja sig geta bærilega unað. Ég er sannfærður um að það yrði mjög erfitt. Engu að síður held ég að það sé alveg ljóst að þótt hjá stjórnarflokkunum hafi verið mikið um þetta mál fjallað og margt rætt í því sambandi, þá hefur þess ekki verið gætt að reyna til hins ýtrasta að sætta sjónarmið. Mér þykir ekki ósennilegt að ef nokkru lengur hefði verið setið á rökstólum hefði e. t. v. mátt ná ívið lengra til samkomulags og kannske koma þessu í svolítið skynsamlegra horf. En það skal viðurkennt að hér er um að ræða mál sem eru hreint ekki einföld né auðveld viðureignar.

Mín niðurstaða er sú, að eins og að þessu hefur verið staðið sé ekki fært að samþykkja þetta mál óbreytt eins og það liggur fyrir og eru til þess ærið margar ástæður. Ég hef því lagt fram á þskj. 1354 till. til rökstuddrar dagskrár. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þar sem

— mikið skortir á að frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum hafi fengið eðlilega athugun, skoðun og umræðu í landbn. Ed.,

— frv. byggir ekki á neinni fræðilegri könnun á fjárhagslegum áhrifum þess á kjör bænda, neytenda, skattgreiðenda, ríkissjóðs né þjóðarbús,

— frv. byggir á úreltum hugmyndum um ríkisforsjá, einokunarverðmyndun, miðstýringu, valdboð og þvinganir sem ganga í berhögg við stjórnarskrárákvæði um atvinnufrelsi,

— frv. lokar síðustu smugunum sem eftir eru fyrir frjálsa menn við landbúnaðarstörf og gerir þá að þrælum Framleiðsluráðs og ráðuneytis,

— frv. útilokar samkeppni framleiðenda um verð og gæði og afnemur þar með alla hvatningu til að halda tilkostnaði í skefjum og lækka verð og stuðlar þannig að rekstrarlegu ábyrgðarleysi og offjárfestingu vinnslu- og dreifingaraðila,

— frv. tryggir bændum ekki staðgreiðslu afurða sinna og mun að öllum líkindum hækka verulega tilkostnað við framleiðslu, vinnslu og dreifingu landbúnaðarafurða og þar með „útflutningsbótaþörf“ á næstu árum,

— frv. viðheldur því fáránlega reikningskerfi að rekaviður og laxveiðileyfi séu undirstaða útflutningsbóta,

— frv. slær enn á frest löngu tímabærum uppskurði á úreltu, rándýru, óhagkvæmu og ranglátu ofstjórnar- og milliliðakerfi í landbúnaði sem skaðar jafnt neytendur sem bændur,

— frv. mun verða þjóðarheildinni dýrt, verði það að lögum,

telur Alþingi ótækt að samþykkja frv. eins og það nú liggur fyrir, vísar því málinu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er sem sagt, virðulegi forseti, sú rökstudda dagskrá sem ég hef lagt hér fram varðandi afgreiðslu þessa máls.

Það er alveg ljóst að íslenskir neytendur hafa notið góðs af því að ýmis landbúnaðarframleiðsla er ekki hneppt í fjötra þess kerfis sem komið hefur verið upp. Þetta gildir um kjúklinga, þetta gildir um svínakjöt og þetta gildir um egg. Þarna hefur frjáls samkeppni ríkt og neytendur hafa notið þess. Að því er varðar aðrar greinar er þetta allt í viðjum kerfisins og neytendur eiga enga valkosti. Með því að taka þetta allt inn í kerfið er þetta landbúnaðarkerfi í rauninni farið að stjórna neyslunni, sem auðvitað gerist með verðlagningunni. Það er ósköp einfalt að taka ákvarðanir um það innan þessa kerfis að nú skuli hækka kjúklinga- og svínakjöt þannig að það seljist meira af lambakjöti.

Það kom fram í viðræðum okkar í morgun við fullfrúa alifuglaframleiðenda hvernig kjarnfóðurgjaldið, sem þeir hafa greitt, hefur verið notað m. a. til að greiða niður áburð. Ekki kemur það alifuglabændum að neinu gagni. Með þessu frv. er sem sagt horfið til aukinnar miðstýringar og skipulagningar og tilgangurinn með því er m. a. að ná tökum á þeim framleiðendum sem enn eru utan kerfisins. Það er verið að draga úr frelsi með þessu frv. Um það eru engin áhöld.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvort það þjónar nokkrum tilgangi að vera að setja hér á langa ræðu um þetta mál. Ég ræddi það töluvert ítarlega við 1. umr. Hér er enn verið að slá á frest breytingum á þessu úrelta kerfi sem er bæði bændum og neytendum til bölvunar. Kartöflumálin voru töluvert rædd á fundi landbn. í morgun og bar þar sitt af hverju á góma. Mér er það næsta eftirminnilegt frá þeim fundi er ég rakti fullyrðingar, sem fram komu á fundi hjá Neytendasamtökunum fyrir rúmu ári síðan, um það að kartöflubændur höguðu sínu starfi þannig, þegar þeir sendu vörur á markað, að þeir tækju jafnan þær kartöflur sem styst geymsluþol ættu eftir og þær væru sendar á markað, þannig að neytendur hér væru jafnan að borða kartöflur sem væru fast að því komnar að skemmast. Þessu var ekki mótmælt í morgun. En sú breyting sem orðið hefur á þessum kartöflumálum, að tekist hefur að brjóta þetta kerfi niður, hefur haft það í för með sér að neytendur eiga völ á betri vöru. Það hefur komið mjög greinilega í ljós. Sömuleiðis hefur komið í ljós að kartöflubændur eru óánægðir með það fyrirkomulag sem nú ríkir.

Sérstakur þáttur þessa máls er t. d. 52. gr. sem fjallar um Grænmetisverslun landbúnaðarins. Við hana var samþykkt brtt. í Nd. Þetta fyrirtæki hefur verið eitt af þessum dularfullu fyrirtækjum í kerfinu, sem enginn veit hver á, sem ekki virðist hafa verið krafið um opinber gjöld eða skatta, fyrirtæki sem er auðvitað tímaskekkja og á engan rétt á sér. (Gripið fram í: Og má leggja þar með niður.) Já, það er kveðið á um það hér í frv. að Framleiðsluráðið hætti rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins frá og með 1. júní 1986. Þá er nú eftir að sjá hvernig framkvæmdin verður á þessu ákvæði vegna þess að hér segir líka: Heimilt er landbrh. að selja samtökum framleiðenda kartaflna og grænmetis eða hlutafélagi í eigu þessara aðila eignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins, aðrar en fasteignir. Það vakna auðvitað ýmsar spurningar í sambandi við þetta. Hver á þetta fyrirtæki í raun og veru? Um það stendur þetta deilumál. Og mér þætti ekkert ólíklegt að það endaði í dómsmáli að kveða upp úrskurð um það hver eigi þetta fyrirtæki í raun og veru.

Það er auðvitað ótrúlega margt sem er ótrúlega vitlaust í þessu frv. og ég hef minnst hér á eitt og annað af því. Hér segir t. d. í 36. gr.:

„Heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar skal miða við afurðir nautgripa, sauðfjár, hrossa, svína og alifugla, svo og garðávexti, gróðurhúsaframleiðslu og afurðir hlunninda á því verði sem framleiðendur fá greitt fyrir þessar búvörur.“ Og á þessu eru útflutningsbæturnar grundvallaðar. Þetta er auðvitað svo fáránlegt að engu tali tekur. Verðið á laxveiðileyfum í Laxá á Ásum eða einhverri góðri laxveiðiá, hvað í ósköpunum hefur það að gera með útflutningsbætur á kindakjöt og mjólkurduft? Eða tekjur sem bændur hafa af því að saga rekavið niður í girðingarstaura, tekjur af sölu æðardúns, hvað kemur þetta við útflutningi og útflutningsbótum á lambakjöt? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það sem á að leggja til grundvallar við þennan útreikning, eins og þetta kerfi er núna, er auðvitað verðmæti þeirra afurða sem út eru fluttar, þeirra framleiðslugreina. Þetta er auðvitað hreint fáránleg regla.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, og endurtek það, hvort ástæða er til að orðlengja miklu frekar um þetta mál. Ég er algerlega andvígur þessu frv. og hef lagt til að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá vegna þess að ég held að það sé hvorki gott fyrir bændur né heldur fyrir neytendur, sem svo eru kallaðir, þ. e. þá sem ekki stunda búvöruframleiðslu en eru kaupendur að framleiðslunni, ég held að það sé hvorugum til góðs að þetta frv. verði samþykkt. Það þurfa miklu meiri breytingar til að koma, breytingar sem tryggja bændum eðlilegt verð og greiðslur á réttum tíma fyrir sína framleiðslu, sem tryggja neytendum góða vöru á sanngjörnu verði. en ekki eins og nú er að það séu milliliðirnir sem hafa allt sitt alltaf á hreinu en bændur mæti afgangi og neytendum sé gert að borga það sem upp er sett. Það er engin samkeppni heldur hrein einokunarverðmyndun. Hvernig halda menn t. d. að það ágæta fyrirtæki Mjólkursamsalan í Reykjavík hafi getað byggt stórhýsið hér uppi á hálsi án þess að taka eina krónu að láni öðruvísi en að eitthvað sé bogið við verðlagningarstefnu fyrirtækisins frá sjónarmiði neytenda? Þetta þýðir m. ö. o. að í hvert einasta skipti sem neytendur hér á svæði Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafa verið að kaupa mjólkurpott eða rjómapela hafa þeir greitt svo og svo mikið í þennan byggingarsjóð. Mörg af þessum milliliðafyrirtækjum landbúnaðarins hafa, held ég. öðlast eins konar sjálfstætt líf. Bændur hafa afskaplega lítið að segja um stjórn þessara fyrirtækja, hinn almenni bóndi er svo sem ekkert spurður þar. Það er komið upp ákveðið valdakerfi í landbúnaðargeiranum, þar sem er fámennisstjórn, kannske eins konar oddvitalýðræði. eins og stundum er sagt úti á landsbyggðinni. og þar eru allar ákvarðanir teknar af þröngum hópi valdamanna í nánu samstarfi og samvinnu við Samband ísl. samvinnufélaga.

Það voru merkilegar yfirlýsingar, sem sýna kannske svolítið hugsunarháttinn í þessum efnum, sem menn heyrðu í gærkvöld þegar verið var að ræða við hæstv. forsrh. í ágætum sjónvarpsþætti. Hann notaði þar þau orð, sem hann hefur viðhaft hér í ræðustóli, að við hefðum engin efni á því að vera að fjárfesta í útvarpsstöðvum, þetta væri mjög dýrt. það þyrfti að byggja yfir þetta og þetta kostaði allt mjög mikla peninga, og eins og ástatt væri í þjóðarbúskapnum núna hefðum við annað við peningana að gera. Þetta var að mörgu leyti skynsamleg ábending sem hann hafði áður haft orð á hér í þessum ræðustól í Ed. Alþingis. Síðan var talinu vikið að fyrirætlunum Sambands ísl. samvinnufélaga um að koma hér á fót öflugu fjölmiðlafyrirtæki sem ræki útvarpsstöðvar o. fl. Hæstv. forsrh. sá ekkert athugavert við það og hafði þá engin orð um það að slíkt gæti verið dýrt. Það sýnir þessa tvöfeldni í hugsunarhætti sem gildir þegar annars vegar er Samband ísl. samvinnufélaga og þetta landbúnaðarkerfi allt saman og hins vegar þegar verið er að tala um aðra hluti.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur oft gert hér harða hríð að valdakerfi Sambands ísl. samvinnufélaga. Mér sýnist þetta frv. til þess eins fallið að efla þetta núverandi kerfi, efla núverandi valdakerfi innan landbúnaðargeirans og sjálfsagt gera Samband ísl. samvinnufélaga og áhrif þess enn þá meiri en þegar er orðið. Það er svo sem eftir öðru í þessu ríkisstjórnarsamstarfi að Sjálfstfl. haldi áfram að hlaða undir Sambandið. Hann hefur gert það mjög dyggilega fram að þessu og Samband ísl. samvinnufélaga á svo sem ýmislegt gott skilið líka. En það er orðið feiknalega stórt fyrirtæki, sem teygir arma sína út um allt þjóðfélagið, og slík fyrirtæki þurfa bæði aðhald og eftirlit. Í siðmenntuðum löndum er yfirleitt engu fyrirtæki leyft að verða eins stórt og Samband ísl. samvinnufélaga er orðið á íslenskan mælikvarða. Áður en það gerist eru þau klofin upp í smærri einingar en til þess vantar okkur hér á Íslandi löggjöf um einokun og hringamyndun. Í Bandaríkjunum t. d. hygg ég að ekkert fyrirtæki mundi fá að starfa undir sömu formerkjum og Samband ísl. samvinnufélaga. Það held ég að sé alveg deginum ljósara.

Eins og ég segi er mjög margt gott um þetta fyrirtæki að segja og það á sér sína merku sögu. En ég held að það hafi hlaupið í það ofvöxtur vegna þess m. a. hvílík ógnartök það hefur á öllum landbúnaðarþættinum í þessu samfélagi. Því er ekki að neita. Ég held að þarna þurfi menn að athuga sinn gang og spyrna við fótum. Ég hugsa að þess séu ekki dæmi í nágrannalöndum okkar til dæmis að það sé sama fyrirtækið sem rekur innkaupastofnun eða skrifstofu erlendis, sem kaupir hveiti eða — ja, við getum tekið kaffibaunir, það er kannske frægasta dæmið og þær koma við sögu í einni af auglýsingum Sambandsins sem er oft sýnd í sjónvarpinu, að það sé fyrirtæki sem kaupir kaffibaunir erlendis —við skulum sleppa öllum faktúrufölsunum o. þ. h. — það sé sama fyrirtækið sem flytur kaffibaunirnar til landsins, sama fyrirtækið sem tryggir kaffibaunirnar á leiðinni, sama fyrirtækið sem tekur kaffibaunirnar í vörugeymslu hér á hafnarbakkanum, sama fyrirtækið sem flytur kaffibaunirnar í kaffibrennsluna, sama fyrirtækið sem á kaffibrennsluna og sama fyrirtækið sem réttir viðskiptavininum kaffipakkann yfir búðarborðið. Ég hugsa að slík dæmi finnist hvergi í grannlöndum okkar. Þetta er í rauninni andstætt öllu því sem heitir viðskiptasiðferði og venjulegir viðskiptahættir í löndunum hér í kringum okkur. Ég held því að það sé kominn tími til að gera miklu stærri uppskurð á þessu kerfi en gerður hefur verið hingað til. En með þessu frv. eru stjórnarflokkarnir að lýsa blessun sinni yfir núverandi ástandi og hneppa þá fáu frjálsu framleiðendur, sem eftir eru utan kerfisins, í spennitreyju kerfisins. Og það er ekki gott. Þess vegna greiði ég atkv. gegn þessu frv.