19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6875 í B-deild Alþingistíðinda. (6178)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Það væri vissulega ástæða til að eyða nokkuð löngu máli í að ræða landbúnaðarmálin almennt í tengslum við afgreiðslu á þessu frv. Ég mun hins vegar ekki eyða miklum tíma frá deildinni enda langt liðið á kvöld, klukkan að verða 11.

Það má segja að íslenskur landbúnaður hafi átt í allverulegum erfiðleikum á síðustu árum. Þessir erfiðleikar eiga sínar ástæður sem okkur hv. alþm. eru meira og minna kunnar. Þar getur verið um mismunandi áherslur að ræða og ætla ég ekki að fara út í það.

Ég hygg að engum blandist hugur um það að bændur landsins hafa ekki á undanförnum árum notið þeirra kjara og þeirrar lífsafkomu sem ættast hefur verið til. Það má auðvitað ekki gleyma því að undanfarin ár hefur verið á brattann að sækja hjá launamönnum almennt og er ég þá hvorki að deila á núverandi eða fyrrv. ríkisstj. í því sambandi. Staðreyndin er sú, að okkur hefur ekki tekist að afla nægjanlegra verðmæta í þjóðarbúið þrátt fyrir allt, en það er auðvitað forsendan fyrir því að hér sé hægt að veita fólki eðlileg og sanngjörn lífskjör.

Öll umræða um landbúnaðarmál, a. m. k. síðustu ár, hefur verið að mínum dómi nokkuð brotakennd. Það er engum blöðum um það að fletta að það eru deildar meiningar um landbúnaðinn, mjög mismunandi áherslur. Það kann vel að vera að orðræða um landbúnaðarmál sé nokkru skarpari hér á Íslandi, ef ég má svo að orði komast, heldur en víða erlendis, e. t. v. einfaldlega vegna þess að í þessu stóra þéttbýli hér á Reykjavíkursvæðinu á sér stað æðimikil skoðanamyndun. Þau búsetuhlutföll sem hér eru á Íslandi samanborið við það sem erlendis gerist eru auðvitað allsendis ósambærileg.

Stór hluti þjóðarinnar býr hér á einu landshorni og er af þeim sökum skiljanlegt að nokkuð kastist í kekki í orðræðu í þessu tilviki um landbúnaðarmál. Jákvæð viðhorf mættu þó oftar heyrast úr röðum þéttbýlisfólks.

Mér hefur stundum þótt svo sem umræðan, ekki eingöngu um landbúnaðarmál heldur um ýmsa aðra undirstöðuatvinnustarfsemi í landinu, hafi einkennst af því að a. m. k. hluti þjóðarinnar hefði það ekki á takteinum á hverju hún lifði í raun og veru. Mér eru minnisstæðar umræður og skrif um sjávarútveg í þessu sambandi og ég hygg að hv. alþm. séu mér sammála um það, að mörg þau orð sem fallið hafa, ekki einvörðungu um landbúnað, ekki einvörðungu um sjávarútveg, heldur um ýmsa aðra undirstöðuatvinnustarfsemi í landinu, ýmis þau orð hafi ekki verið af sanngirni mælt. Ég held að það væri ekki úr vegi, vegna þess frv. sem hér er til umræðu og vegna þeirra orða sem fallið hafa um alla málsmeðferð, ekki síst málsmeðferð í þeirri nefnd sem ég átti nú raunar sæti í og vann að því að setja þetta frv. saman, að ég fari nokkrum orðum um aðdraganda frv.

Það hefur verið látið að því liggja að bændasamtökin hafi heldur lítið verið höfð með í ráðum. Ekki skal ég neita því að atburðarásin hefur verið nokkuð hröð eftir útmánuði s. l. vetrar. Eins og kunnugt er stóð þetta starf yfir í hartnær tvö ár, en það var ekki fyrr en á liðnum vetri að menn fengu, ef ég má svo að orði komast, fast land undir fætur í umfjöllun þessa máls. Það hefur margoft verið vitnað til stjórnarsáttmála þar sem vikið er að þessum málum og auðvitað er hann grunnurinn að þessu endurskoðunarstarfi. Ég ætla ekki að eyða dýrmætum tíma deildarinnar í að lesa það upp sem þar stendur. Hins vegar vil ég leyfa mér að minna á ályktun um stefnumótun í landbúnaði sem samþykkt var á aðalfundi Stéttarsambands bænda á s. l. sumri.

Ég kemst varla hjá því að fara aðeins yfir þessa ályktun um stefnumótun, einfaldlega vegna þess að hún leiðir það í ljós að a. m. k. hluti þeirra niðurstaðna sem felast í þessu frv. á sér vegvísi m. a. í þessari ályktun. Þessi ályktun er í nokkrum liðum:

„1. Framleiðsla landbúnaðarvara skal fullnægja, eftir því sem tök eru á, þörfum innanlands, bæði er varðar landbúnaðarafurðir til manneldis og iðnaðarframleiðslu. Framleiðsla umfram það verði í samræmi við aðstæður á erlendum mörkuðum. Tryggja skal þeim sem vinna landbúnaðarstörf sambærileg fjárhagsleg og félagsleg kjör og aðrir landsmenn njóta. Stefna skal að því svo sem unnt er að framleiðsla landbúnaðarafurða byggist á innlendum auðlindum. Við framleiðslu landbúnaðarafurða sé ávallt tekið tillit til hagkvæmnis- og landnýtingarsjónarmiða með það fyrir augum að efla hag bænda og tryggja neytendum sem bestar og ódýrastar búvörur. Tryggja skal og styrkja eftir föngum núverandi byggð í landinu. Atvinnuréttindi og framleiðsluréttur þeirra er búvöruframleiðslu stunda verði tryggður með löggjöf.

Til að þessum markmiðum verði náð bendir fundurinn á eftirfarandi atriði:

Sett verði löggjöf sem kveði á um samninga milli stjórnvalda og framleiðenda um árlegt magn þeirra tegunda búvöru sem tryggt verði fullt verð fyrir. Þess skal gætt að framleiðslan tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður. Framleiðslustjórnun verði efld og öll búvöruframleiðsla felld inn í ramma slíkrar stjórnunar. Aðlögun búvöruframleiðslunnar að breyttum markaðsaðstæðum gerist skipulega og í samningsbundnum áföngum. Samhliða þeirri aðlögun verði gert stórátak í eflingu atvinnulífs svo að ekki komi til frekari byggðaröskunar.“

Þetta var tilvitnun í ályktun um stefnumótun í landbúnaði sem samþykkt var á aðalfundi Stéttarsambands bænda á síðasta sumri.

Í framhaldi af þessu, til þess að skýra örlítið nánar hvaða verk hafa verið unnin og með hvaða hætti hefur verið fjallað um þessi mál, ekki einvörðungu í nefndinni sem við hv. 11. landsk. þm. sátum saman í, tel ég rétt að vitna hér til nál. nefndar sem komið var á laggirnar af hálfu landbrh.

Í þessari nefnd sátu eftirtaldir menn: Birkir Friðbertsson bóndi, Birkihlíð, suðureyrarhreppi, Hermann Sigurjónsson bóndi, Raftholti, Ingi Tryggvason formaður Stéttarsambands bænda, Jóhannes Torfason bóndi, Torfalæk, Sigurður Þórólfsson bóndi, Innri-Fagradal, Sveinbjörn Dagfinnsson ráðuneytisstjóri, Þórður Pálsson bóndi, Refsstað. Bjarni Guðmundsson, aðstoðarmaður ráðherra, hefur starfað með nefndinni og setið alla fundi hennar.

Nefndin aflaði töluverðra upplýsinga um þessi mál en tillögur hennar byggjast á eftirtöldum markmiðum: „1. Að framleiðsla búvara miðist fyrst og fremst við að fullnægja innlendri markaðsþörf fyrir mjólk, sláturafurðir, egg, kartöflur og það grænmeti sem unnt er að rækta hérlendis með hagkvæmum hætti.

2. Að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur á erlendum mörkuðum eftir því sem hagkvæmt þykir.

3. Að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnusköpun.

4. Að bændur njóti kjara sem sambærileg eru við aðrar stéttir.

5. Að röskun byggðar verði sem minnst.

6. Að nýting lands til beitar sé innan þeirra marka sem gróðri landsins hæfir.

Til þess að ná ofanskráðum markmiðum bendir nefndin á eftirfarandi leiðir:

1. Næstu fimm árin verði aðlögunartími að framleiðslumarkmiðum, enda verði samið um stuðning við nýja atvinnuuppbyggingu til þess að mæta samdrætti í hefðbundinni búvöruframleiðslu og úrvinnslugreinum hennar.

2. Lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. verði breytt þannig að stjórnvöldum og samtökum framleiðenda sé gert að semja um árlegt magn og tegundir þeirrar búvöru sem tryggt verði fullt verð fyrir. Í slíkum samningum um mjólk verði hverju sinni miðað við neyslu síðustu fjögur ár með eðlilegri viðbót til þess að mæta árstíðar- og árferðissveiflum.“

Ég læt nægja að vitna til þessa álits sem og ályktunar aðalfundar Stéttarsambands bænda. Eins og ég tók fram áðan tel ég það nauðsynlegt, ekki síst vegna þess að viðhöfð hafa verið þau orð að samning þessa frv. hefði verið gerð svo að segja í einrúmi aðila, lítið samband hefði verið haft við þar til bæra fulltrúa bænda o. s. frv.

Nú ætla ég ekki að fara að bera blak af þeirri nefnd sem samdi þetta frv. Ég er ekki svo kokhraustur að ég telji að hún hafi staðið að málum með þeim besta hætti sem völ var á. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. Að því hefur verið vikið að eðlilegast hefði verið að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hefðu átt sæti í þessari nefnd. Ekki hefði ég haft í sjálfu sér á móti því, það hefði ég aldrei gert. Hins vegar eru það staðreyndir að þessari nefnd var komið á laggirnar fyrir tilstilli núv. ríkisstj., þannig varð nefndin til.

Varðandi umfjöllun þessa frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum vil ég taka fram að það var skoðun mín áður en frv. var lagt fram og raunar eftir að umfjöllun hófst hér í þinginu að eðlilegt væri að málið fengi víðtækari kynningu og umfjöllun úti í þjóðfélaginu, ekki síst meðal þeirra sem eiga að vinna á grundvelli þessarar löggjafar meira og minna. Á þeirri stundu, þegar frv. var lagt fram, gerði maður sér að sjálfsögðu ekki grein fyrir því að Alþingi sæti að störfum fram eftir sumri. En því verður ekki á móti mælt að kynning á frv. út á við hefur ekki verið næg. Viðbrögð ýmissa aðila við þessu frv. finnst mér vera til vitnis um að a. m. k. sumir aðilar hafi ekki kynnt sér þetta mál, hvort sem það stafar nú af viljaleysi eða bókstaflega því að aðilar hafi ekki haft til þess tækifæri.

Það er ofur eðlilegt, þegar slíkt frv. er til umfjöllunar sem felur í sér töluverðar breytingar frá því sem verið hefur, að menn staldri við og séu jafnvel nokkuð hvumpnir þegar slíkar breytingar eru á ferðinni. Hinu megum við ekki gleyma að mörg undanfarin ár hefur verið um það rætt á vegum bændasamtakanna, á vegum bænda sjálfra og mjög víða úti í samfélaginu — og þá er ég ekki með í huga þá sem því miður hafa oft á tíðum sýnt af sér of lítinn skilning á undirstöðuatvinnuvegum okkar, ég á ekki við þá heldur aðra sem hafa verið til þess bærari að fjalla um atvinnumál, þeir hafa margoft bent á það — að íslenskur landbúnaður kæmist ekki hjá því að aðlaga sig í ríkari mæli ríkjandi aðstæðum.

Þegar við berum saman íslenskan landbúnað og landbúnað erlendis. ekki síst í hinum vestræna heimi, þá eru viðfangsefnin og vandamálin alls ekki af ólíkum toga. Staðreyndin er auðvitað sú, að allur hinn vestræni heimur er yfirfullur af mat. Sannleikurinn er sá, að það er varla hægt að hugsa þá hugsun til enda að stór hluti mannkyns skuli ekki hafa málungi matar, en eins og ég segi hinn vestræni heimur yfirfullur af þessum mjög góðu matvælum, landbúnaðarvörum. En ég lít svo til að við Íslendingar eigum hægara með að ná tökum á okkar málum að þessu leyti heldur en a. m. k. margar þjóðir aðrar, einfaldlega vegna þess að okkar umfang er minna í sniðum. Við sjáum í ríkari mæli yfir okkar þjóðfélag. Við erum svo heppin að eiga þess kost að stofna til annarrar atvinnustarfsemi í stað þeirrar sem þarf að einhverju leyti að draga saman. Þessu er ekki að heilsa mjög víða erlendis. Þar eru þrátt fyrir allt ekki sömu aðstæður til búháttabreytinga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fjalla um einstakar greinar þessa frv. Hæstv. landbrh. fór mjög ítarlega yfir frv. þegar hann mælti fyrir því við 1. umr. hér í hv. Ed. Í Nd. var farið mjög gaumgæfilega yfir frv. Ég skal viðurkenna að sú málsmeðferð sem við neyddumst til að viðhafa í landbn. Ed. er auðvitað af því tagi að menn ættu sennilega ekki að láta bjóða sér slíkt. Er ég þá ekki með ávirðingar á hendur einum eða neinum í þessari hv. deild. Að sj álfsögðu þyrfti hvor deild um sig að taka sér ríflegan tíma til að fjalla um slíkan lagabálk sem þennan, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. En eins og komið var var ekki annað fært en ýta málinu áfram. Ég fagna fyrir það fyrsta þeirri samstöðu sem virtist takast — já, og tókst reyndar í meiri hl. landbn. Nd. Nú er ég ekki viss um, enda þótt landbn. Nd. klofnaði í afstöðu sinni til málsins, að stjórnarandstæðingar séu svo mótfallnir fjölmörgu sem er í þessu frv. Hér hafa stjórnarandstæðingar í þessari hv. deild mælt fyrir sínum nál. Mér finnst ofur eðlilegt að menn vilji jafnvel vísa málinu frá á þeim forsendum að ekki hafi tekist að fjalla um það nægjanlega vel. Ég get ekki fundið að slíkri tillögugerð. Það er allt annað fyrir okkur sem höfum fjallað um þessi mál í fleiri mánuði. Það er ólíku saman að jafna hjá okkur að taka afstöðu til málsins. Ég hef þess vegna í sjálfu sér engar athugasemdir fram að færa við þá málsmeðferð sem hv. stjórnarandstæðingar hafa hér lagt til. En þrátt fyrir þeirra orð um margvíslega lesti þessa frv., þá er ég sannfærður um það að hvar sem menn standa í pólitík muni þeir vinna að því eins og þeir frekast geta að framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, muni takast sem allra best. A. m. k. leyfi ég mér að láta þá ósk koma fram hér.

Hv. 11. landsk. þm. fór nokkrum ítarlegum orðum um landbúnaðarmálin. Ég ætla ekki að lengja þá umræðu en það er auðvitað staðreynd að varðandi þetta frv. í heild sinni, ef að lögum verður, þá stendur auðvitað allt og fellur með framkvæmdinni, ekki síst ýmissa lykilatriða sem varða stjórnvöld. Þá á ég einkum við þá samninga sem gert er ráð fyrir að fram fari og haldnir verði. Í öðru lagi má nefna greiðslu afurða en eins og kunnugt er þá er gert ráð fyrir því í frv. að hraða greiðslum til bænda frá því sem nú er. Það vita allir, sem til þekkja, að slíkum greiðslum verður ekki hraðað og útborgunarhlutfall, vægt til orða tekið, verður ekki hækkað nema afurðastöðvum sé gert það kleift með afurðalánum. Og eftir því sem ég veit best hafa ráðherrar látið frá sér fara yfirlýsingar við afgreiðslu málsins í Nd. Enda þótt svo hafi verið mun ég að sjálfsögðu gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að ríkjandi stjórnvöld standi við þau orð og þau fyrirheit sem gefin hafa verið í þessu sambandi.

Þriðja atriðið, sem varðar mjög stjórnvöld og um leið framkvæmd þessa frv., ef að lögum verður, er framleiðslubreytingin, búháttabreytingin sem frv. felur í sér. En e. t. v. er sá þáttur frv. stærstur af mörgum stórum.

Það hefur verið vikið að því að þetta frv. hafi í för með sér eina saman ofstjórn, ófrelsi o. s. frv. Ég held að þetta sé ekki rétt mat. Skipulag, hæfilegt skipulag er að mínum dómi besta tryggingin fyrir frelsinu, ekki aðeins einstaklingsins heldur hópanna og samfélagsins alls.

Það skipulag sem að mínum dómi er gert ráð fyrir með þessu frv. varðar ekki einvörðungu framleiðendur heldur líka afurðastöðvar. Og það er einmitt nauðsynlegt og hefur margoft verið að því vikið af hálfu bænda eftir að vísir að framleiðslustjórnun var tekin upp að ekki væri nóg að stjórna einvörðungu í annan endann, eins og stundum hefur verið sagt, það yrði líka að stjórna og skipuleggja á sviði vinnslunnar.

Virðulegi forseti. Ég lofaði því í upphafi að tala ekki langt mál. Ef til vill hef ég talað aðeins lengra mál en hóflegt er af því að tíminn líður nokkuð hratt á þessum fagra sumardegi. Ég læt þá von í ljós við 2. umr. þessa máls, sem nú stendur yfir, að þetta frv. megi verða til þess m. a. að ný sókn landbúnaðarins verði hafin í okkar þjóðarbúskap.