19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6880 í B-deild Alþingistíðinda. (6179)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Það stóð nú ekki til að ég tæki neinn þátt í þessari umræðu þó að margt megi ræða um landbúnaðarmálin. En ég stóðst ekki frýjunarorð hv. þm. Eiðs Guðnasonar hér áðan þegar hann lét að því liggja að baráttumaðurinn Eyjólfur Konráð Jónsson væri jafnvel að samþykkja enn þá verri lög til handa auðhringnum okkar alsæla. Það held ég að sé nú ekki rétt. Það er alveg rétt, og ég skammast mín ekki fyrir það, að ég hafi í langa tíð, a. m. k. í áratug barist mjög hatrammlega gegn því kerfi að Samband ísl. samvinnufélaga, sem raunar er ekki samvinnufélag heldur samvinnusamband og uppfyllir ekkert af skilyrðum samvinnufélagalöggjafar, barist gegn því að það léki landbúnaðinn jafngrátt og það hefur gert í áratugi. Ég vona að ég kveiki ekki neinar umræður hér af því að ég ætla ekkert að segja sem ég hef ekki sagt úr þessum ræðustól margsinnis áður og raunar í Sþ. líka og allt er það til í Alþingistíðindum. Ég hef sagt að vandamál landbúnaðarins væri eitt, það væri SÍS. Og við það stend ég. Það er það enn í dag. En það hefur mikið vatn runnið til sjávar og bændur eru að brjóta af sér hlekkina. Það sjáum við á öllum þeim samtökum og fundum sem þeir eru að halda.

Úr því að ég fór hér í pontuna get ég gjarnan rifjað það upp að það var á haustmánuðum 1976 að ég kynntist vinnubrögðum þeirra manna sem réðu yfir landbúnaðarstefnunni. Þetta eru örfáir menn sem þar hafa ráðið öllu og skirrðust ekki við að beita hreinu ofbeldi gagnvart bændum í Skagafirði og varð fræg mín för þangað. Ég kynntist því þar þá sem ég hélt að væri ekki til á Íslandi og það hefur kannske mikið lagast síðan. En ég flutti þá þáltill. í desembermánuði, 20. desember held ég að það hafi verið, 1976 um það að bændur fengju sín afurðalán í hendur en ekki afurðasölufélögin sem völsuðu með þessa peninga. Sú till. varð auðvitað ekki útrædd en á næsta þingi spurði Jóhann Hafstein mig að því hvort ég ætlaði ekki að flytja till. mína aftur. Ég spurði: Hvaða till.? Hann sagði: Þessa um afurðalánin. Þegar hann var orðinn þar meðflm. fóru málin aðeins að taka hreyfingu og á næsta þingi voru bæði Alþb. og Alþfl. meðflm. að þessu og ég man dagsetninguna, hinn 22. maí 1979 var þessi till. samþykkt. En enginn ráðherra, og þeir hafa verið úr fleiri en einum og fleiri en tveimur flokkum, hefur staðið við það að framfylgja þessu, ekki heldur núverandi viðskrh. Hann hefur verið með tilburði til þess en þegar sex ára afmælið var um daginn hafði hann lítið gert. Það eru staðreyndir sem ekki verður fram hjá komist.

Hins vegar er alveg ljóst að t. d. það að till. eins og sú sem þessi hv. deild samþykkti núna fyrir nokkrum dögum um rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda skyldi verða samþykkt hefði ekki getað gerst hér fyrir örfáum árum, það er gersamlega útilokað. Raunar á ég ekki von á því að Nd. afgreiði þá till. þó að hún væri samþykkt hér með miklum meiri hluta. Það gat heldur ekki gerst, hv. þm. Eiður Guðnason, að við í sameiningu gætum höggvið svolítið í kartöflukerfið í fyrra. En hvort sem við köllum þetta auðhring eða eitthvað annað, þá er þetta kerfi að láta undan. En kerfi stendur alltaf með kerfi og bæði Búnaðarbanki og Landsbanki hafa skrifað algerlega órökstuddar greinar og bréf til hv. Alþingis. Þeir hafa mokað peningum í Sambandsveldið sem hefur séð til þess að bændur fengju aldrei sín afurðalán eða beinar greiðslur fyrr en eftir dúk og disk. Þetta vita allir menn. Þetta er sagan og ég skammast mín ekki fyrir það að hafa átt þátt í að berjast fyrir frjálsræði sem þó vottar fyrir nú. Og aðalatriðið er auðvitað að héðan í frá er það lögbundið væntanlega, eftir þennan fund okkar í kvöld, að bændur skuli fá sína peninga greidda út að fullu um leið og þeir leggja afurðirnar inn. Það er meginsigurinn. Að vísu koma menn og segja: Það verður að útvega bændum eða öllu heldur kaupfélögunum, og nú geri ég samt mikinn skilsmun á kaupfélögum sem eru samvinnufélög og Sambandsveldinu, aukin afurðalán. Það þarf alls ekki. Það eru til afurðasölufyrirtæki sem alltaf hafa greitt fullt grundvallarverð refjalaust á réttum gjalddögum og aldrei stolið nokkrum vöxtum eða verðbólgugróða, af því að þau eru vel rekin og það er ekki farið með peningana í einhverja allt aðra hluti. Það er þetta sem er að gerast.

Ég veit að þetta eru ekki algóð lög sem við væntanlega samþykkjum hér. Það er ýmsu áfátt í þeim eins og kom fram á fundi í landbn. í morgun í sambandi við kjúklingabændur t. d. En þeir komast þó inn í þetta kerfi að því leyti til að þeir geta haft einhver áhrif. Þeir geta klofið niður þennan fámennishóp, sem hefur stjórnað öllu þessu í þágu Sambandsins, ekki hóp bænda. Það er það sem er að gerast og það eru stórir atburðir. Og bankakerfið er að láta undan líka alls staðar. Það er raunar búið að koma peningum Íslands fyrir bí með því að gefa þá — ég endurtek: gefa í allt að 130% verðbólgu og vera með nafnvexti kannske 20% . En þeir hafa ekki gefið bændum þá. Þeir hafa gengið í gegnum samskiptakerfið allt saman. Menn þora núna að tala um byggingu Osta- og smjörsölunnar og sóunina á öllum sviðum, skrifstofubyggingar og verslunarhallir Sláturfélags Suðurlands sem aldrei borgar grundvallarverð. Bændur sjálfir eru að taka sinn rétt og auðvitað munu þessir kjúklingabændur ekki láta bjóða sér það að komið verði yfir þá einhverju kerfi þó að það sé loðið orðalag um að þeir eigi að koma inn í einhverja af þessum greinum. Þessum lögum verður aftur breytt í frjálsræðisátt í haust. Það verður auðvitað ekki þægilegt fyrir bændur að framsóknarmenn skuli hafa þessi áhrif enn þá, af því að þeir eru því miður undir svo sterkri pressu þessa kerfis, sem hefur farið með íslenski þjóðlíf eins og við vitum, ekki bara landbúnaðinn heldur sjávarútveginn líka, sem hefur verið neyddur til að taka dollaralán á okurvöxtum núna í 5–6 ár og er allur kominn á hausinn fyrir ofstjórnarvitleysu.

Ég veit svo sem að hv. þm. sagði þessi orð í vissum hálfkæringi, en ég ætla ekki að láta það standa í Alþingistíðindum að ég hafi breytt eitthvað um skoðun í þessu efni. Aldrei að eilífu fyrr en þetta kerfi hefur verið upprætt.