19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6886 í B-deild Alþingistíðinda. (6182)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Einhvern veginn hafði ég það á tilfinningunni í landbn. í morgun, og reyndar í kvöld líka, að hv. stjórnarliðum væri það nokkurt kappsmál að koma þessu máli í gegn. Og við það miðaði ég mína fyrri ræðu hér í kvöld að kleift væri að afgreiða þetta mál með skikkanlegum hætti og a. m. k. fyrir miðnætti. En það er greinilegt að stjórnarliðar eru á annarri skoðun, eða ég hef misskilið þá, því að þeir hafa haldið uppi löngum ræðum með löngum tilvitnunum í grg., ályktanir og annað því um líkt sem vitanlega hefði verið hægurinn hjá að gera hér í kvöld og rekja í löngu máli. Ég furða mig nokkuð á þessu. Og það er greinilegt að þeir höfundar frv. sem hér eru til andsvara, hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 11. landsk. þm., hafa ekki ætlast til þessarar samvinnu við okkur í minni hl., það er alveg ljóst, því að þeir eru búnir að upptaka mestallan þann ræðutíma sem hér gafst með ítarlegum lestri úr hinum og þessum gögnum sem þeir hafa haft meðferðis og ekkert er á móti að þeir kynni hv. þd., síður en svo. En þá hefði ég hagað mínu máli á allt annan veg hér fyrr í kvöld, undirbúið mig undir það á allt annan veg og haft fjölmargt til aflestrar til afþreyingar fyrir þá hv. 11. landsk. þm. og hv. 5. þm. Vesturl., sem ég hélt í barnalegu sakleysi mínu að vildu koma þessu frv. fram með skaplegum hætti eftir þau slæmu vinnubrögð sem við höfðum orðið að sætta okkur við í þessum efnum í hv. landbn.

Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með þetta og ég spyr hæstv. forseta hvort það sé meiningin að við höldum þessu áfram lengi nætur. Það verður ekki hjá því komist, ef hv. stjórnarliðar halda hér hvern langhundinn á fætur öðrum, að taka þetta mál aftur til ítarlegrar skoðunar og lesa hér upp svo sem eins og tíu, tuttugu bls., eins og þeir hafa gert hér í kvöld einnig. Ég spyr hæstv. forseta hvort meiningin sé að halda hér áfram endalaust og gefa mönnum þá tækifæri til að ná vopnum sínum, eins og frægur maður segir hér í þinginu, og ná sér í lestrarefni, því að þá mundi ég óska eftir því að þessum fundi yrði frestað hér og nú, miðað við þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Ég vildi óska eftir því ef það er meining stjórnarliða að halda hér áfram eins og þeir hafa gert fram að þessu.