19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6887 í B-deild Alþingistíðinda. (6183)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Forseti (Salome Þorkelsdóttir):

Vegna orða hv. 2. þm. Austurl. þykir mér rétt að taka það sérstaklega fram að það er mjög virðingarvert hvað stjórnarandstaðan hefur hagað sínum málflutningi af miklum drengskap, vegna þess að hér hafa allir verið sammála um að reyna að tefja ekki málin umfram það sem nauðsynlegt er. Þess vegna tel ég það alveg ljóst að það er ekki gert ráð fyrir því að halda hér áfram löngum fundi og ég vænti þess svo sannarlega að til þess þurfi ekki að koma.

Varðandi langar ræður í þessu máli getur forseti litlu þar um svarað öðru en því að hann hefur gert og gerir sér vonir um að þær verði ekki lengri en brýn nauðsyn er á vegna þess hvernig þingstörfum er nú háttað.