08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í kvæðinu Blysför segir Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi:

Þeir, sem gefa þjóðum lög,

þurfa mikið veganesti,

verða að skynja dulin drög,

drauma fólksins, hjartaslög,

bænir þess og bresti.

Þeim er skylt að eygja í anda

inn í framtíð sinna landa,

miða þó sín miklu tök

við manndóm sinn og æðstu rök.

Löggjafar, sem lítið skilja,

lúta aldrei fólksins vilja,

koma öllu á vonarvöl,

verða sjálfir — þjóðarböl.

Betur verður ekki orðuð meginástæða þess að núv. ríkisstj. er nú rúin trausti landsmanna.

Þessi ríkisstj. hefur allt frá upphafi ferils síns virst gjörsamlega úr tengslum við almenning í landinu. Það verður henni að falli. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstfl. undir forsæti Steingríms Hermannssonar hefur gert sig seka um valdahroka og miskunnarleysi gagnvart almennu launafólki. Hún hefur gert sig seka um algjört skilningsleysi á neyð hinna verst stöddu í þjóðfélaginu. Hún hefur þyngt byrðar hinna veikustu, lagt aukin útgjöld á sjúka og aldraða. Hún hefur stöðvað uppbyggingu í dagvistarmálum. Hún hefur brugðist vonum húsbyggjenda sem trúðu loforðaflaumnum í kosningabaráttunni fyrir tæpum tveimur árum. Hún hefur vegið að menntakerfinu, veigamestu undirstöðu þess að hér sé áfram sjálfstæð þjóð. Hún hefur ráðist að rótum velferðarþjóðfélagsins sem hefur verið að byggjast upp hér í landinu okkar undanfarna ártugi. Hún hefur grafið undan tiltrú fólksins í landinu, svipt það sjálfstrausti og trú á framtíðina. Þess vegna vantreystir Kvennalistinn þessari ríkisstjórn.

Núverandi ríkisstjórn hafði óskabyr fyrstu mánuði ferils síns. Þjóðin var orðin skaðbrennd af eldtungum verðbólgubálsins og vildi flest til vinna að sjá þær slokkna. Almennt launafólk var reiðubúið að sætta sig við kjaraskerðingar og rýrari kost ef það mætti verða til hjálpar við endurreisn efnahagslífsins og uppbyggingu atvinnulífsins. Nú finnst þessu fólki það hafa verið svikið. Það ætlaði aldrei að standa eitt að niðurgreiðslu verðbólgunnar. Þolinmæði þess er þrotin.

Ríkisstjórnin notaði ekki tækifærið sem fólkið lagði henni upp í hendurnar — eða hvar er sú alhliða uppbygging atvinnulífsins sem svo oft hefur verið minnst á? Hvar er nýsköpunin margumtalaða? Hverjar eru þær ráðstafanir í atvinnumálum sem svo nauðsynlegar eru samhliða samdrætti í fiskveiðum og vinnslu? Hvað hefur þessi stjórn gert í þeim efnum? Enn bíða landsmenn eftir því að tekið verði á vanda sjávarútvegsins sem er og verður áfram meginundirstaðan undir efnahagslífi okkar. Enn er verið að velta fyrir sér sömu atriðum og mörg undanfarin ár. Olían er of dýr, orkuverðið of hátt, skipin eru of mörg, fiskarnir of fáir, flutningskostnaður er of hár. En ríkisstjórnin kann engin ráð. Meginundirstaða íslensks efnahagslífs berst svo í bökkum að fólkið sem vinnur við sjávarútveginn hefur ekki mannsæmandi laun þrátt fyrir gengdarlausa vinnu. Ríkisstjórnin hefur ekki tekið á vanda sjávarútvegsins og hún hefur ekki sýnt neina tilburði til uppbyggingar á öðrum sviðum atvinnulífsins heldur. Þess vegna treystir þjóðin ekki þessari ríkisstjórn.

Það sást best í nýafstöðnum kjaradeilum. Ríkisstjórnin vildi ekki hækka laun fólksins, en boðaði skattalækkanir sem kjarabót. Kannske var sú leið nokkuð góð, með vissum annmörkum þó, því hún hefði ekki nýst þeim sem lægst hafa launin og því litla sem enga tekjuskatta. Samt var þessi lausn líklega með því skársta sem þessi ríkisstj. hefur haft fram að færa. En þessi lausn kom of seint. Margir vildu reyna þessa leið, en meiri hluti launafólks treysti ekki ríkisstj. Það óttaðist að stjórnvöld tækju þá kjarabót aftur í formi nýrra skatta. Og það hefðu þau áreiðanlega gert. Ríkisstj. ónýtti sjálf þessa leið með því að boða aukna neysluskatta í stað lækkunar tekjuskatta. Og hún hefur lýst vantrausti á sjálfa sig með því að hóta nú fólki að taka aftur það sem nýbúið er að semja um í samningum sem hún er sjálf aðili að. Hver treystir þá þessari ríkisstj. þegar hún gerir það ekki einu sinni sjálf?

Skoðanakannanir hafa sýnt ört minnkandi fylgi við ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem hefur þó yfirburðaaðstöðu hér á Alþingi. En þessar skoðanakannanir hafa líka sýnt annað. Þessi ríkisstj. hefur alltaf notið mun minna fylgis kvenna en karla. Konur treysta ekki þessari ríkisstj. og skyldi engan undra þegar litið er til þess sem hún hefur gert og ekki síður til þess sem hún hefur ekki gert. Hvað hefur þessi ríkisstj. gert fyrir konur? Spyrjum heimavinnandi húsmæður, konurnar í fiskvinnslunni sem búa við síversnandi atvinnuöryggi, spyrjum kennarana og fóstrurnar, spyrjum konurnar sem að stærstum hluta fylla láglaunahópana. Konur eru búnar að fá nóg af skilningsleysi stjórnvalda á kjörum þeirra. Þær eru löngu búnar að fá nóg af ráðh. sem ræða um lífskjör þeirra og vinnuframlag af fullkomnu skilningsleysi og vanþekkingu. Þær þekkja kjörin af eigin raun.

Umræður um kjaramál hafa nú allra síðustu árin leiðst inn á undarlegar og vafasamar brautir. Nú er ekki lengur litið á tekjur einstaklinga, heldur er klifað á afkomu fjölskyldnanna, ráðstöfunartekjum heimilanna, eins og það er kallað. Konur hafa leitað út á vinnumarkaðinn í stórauknum mæli síðustu árin, ýmist viljugar eða nauðugar. Konur hafa í vaxandi mæli menntað sig til ákveðinna starfa og þarf ekki að rökstyðja það mörgum orðum að bæði þeim sjálfum og þjóðfélaginu í heild er nauðsynlegt og ákjósanlegt að sú menntun nýtist. Þær konur eru því miður einnig fjölmargar sem hafa ekkert val um það hvort vinnuframlag þeirra á sér stað inni á heimilinu eða úti á hinum launaða vinnumarkaði. Vegna þeirrar láglaunastefnu sem rekin er í landinu hafa konur í sívaxandi mæli orðið að taka þátt í öflun heimilisteknanna og ekki þarf að tíunda aðstæður einstæðra foreldra.

Viðbrögð stjórnvalda við þessum aðstæðum eru þau að láta sem þeim komi þetta ekki við. Þau daufheyrast við kröfum um lengingu fæðingarorlofs og öryggi barnanna meðan foreldrarnir afla teknanna. Og þau býsnast yfir kostnaði við umönnun sjúkra og aldraðra. Slíkt telst ekki til sjálfsagðra mannréttinda að mati stjórnvalda, ef marka má orð hæstv. fjmrh. hér áðan þar sem hann líkti málefnum fatlaðra, sjúkra og aldraðra við góðgerðastarfsemi. Og ráðamenn nota neyðarvörn fólksins sem afsökun fyrir lágum launum þess. Lág laun einstaklinga eru réttlætt með því að yfirleitt séu tveir sem afla heimilisteknanna. Slíki er bæði rangt og ósanngjarnt. Heimilistekjur gefa e.t.v. einhverja mynd af ástandi á íslenskum heimilum, en það er fullkomlega óeðlilegt og óréttlátt að draga slíka viðmiðun inn í umræður um launamál. Konur, sem að stærstum hluta fylla hóp hinna lægst launuðu, verða að eiga von um betri kjör og möguleika á að breyta þeim. Heimilisaðstæður eru því miður hverfular, traustustu heimili leysast upp, hjónaböndum er slitið. makar falla frá. Hvaða gildi hafa þá fjölskyldutekjur? Þegar slíkar breytingar kollvarpa tekjuöflun heimilanna blasir fátæktin við og þá eru það konurnar sem verða verst úti. Hið brothætta afkomuöryggi kvenna verður að styrkja. En að því verðum við sjálfar að vinna. Reynslan sýnir að aðrir gera það ekki fyrir okkur.

Konur eru vaxandi afl í þjóðfélagi okkar. Þær reyndust skeleggar í nýlokinni kjarabaráttu og sýndu þar þrautseigju og dugnað. Framganga þeirra þar hlýtur að verða öllum konum hvatning að vinna að bættum kjörum sínum og barna sinna. Sterk viðleitni kvenna nú til að rétta hlut sinn er mikið fagnaðarefni og staðfestir að konur vilja ekki lengur vera meðsekar um áhrifaleysi sitt. Konur þekkja sinn vitjunartíma. En ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þekkti ekki sinn vitjunartíma. Hún nýtti ekki tækifærið sem þjóðin gaf henni. Þess vegna lýsum við vantrausti á þessa ríkisstjórn. — Ég þakka þeim sem hlýddu.