08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar ný ríkisstjórn sest að völdum hlýtur nokkur eftirvænting að ríkja meðal þegnanna. Hvað mun hún gera? Hvernig mun hún reynast? Mun hún hlúa áfram að því velferðarþjóðfélagi sem hér hefur þróast undanfarna áratugi? Ég hef verið að fletta stefnuyfirlýsingu þeirri sem hæstv. ríkisstj. gaf út þegar hún settist í ráðherrastóla. Þetta er fyrir margra hluta sakir fróðlegt plagg. Bæði fyrir það sem þar er sagt og það sem ekki er sagt. Og í því sambandi vil ég benda á að þar stendur ekki eitt orð um uppeldismál, skólamál eða menntamál yfirleitt. Við Íslendingar höfum haft það orð á okkur að við séum vel menntuð þjóð. Við höfum verið stolt af því áliti. Og við höfum gert okkur Ijóst hve miklu varðar að grunnþættir menntunarinnar séu í góðu lagi, bæði hvað varðar skipulag og framkvæmd, og sömuleiðis að aðstaða til menntunar sé sem jöfnust hvar sem er á landinu, bæði hvað varðar grunnskólamenntun og framhaldsmenntun. Þetta hafa fyrri stjórnvöld einnig gert sér ljóst. Og því voru grunnskólalögin sett og þess vegna hafa fjölbrautaskólar og menntaskólar risið úti um landsbyggðina og það er vel. En núverandi hæstv. ríkisstj. virðist ekki gera sér grein fyrir því hversu mjög framtíð þjóðar okkar er undir því komin að eiga vel menntað fólk.

Atvinnuuppbygging í framtíðinni hlýtur í miklu meiri mæli en áður hefur verið að grundvallast á vísindamönnum til rannsóknarstarfa svo og margs konar sérmenntuðu og tækniþjálfuðu fólki. En ríkisstj. er stefnuyfirlýsingu sinni trú og hefur menntamálin að hornreku. Hún þrengir á allan hátt að menntunarmöguleikum ungs fólks í landinu. Hún hefur veli viðhalds- og rekstrarkostnaði grunnskólanna yfir á sveitarfélögin án þess að nýir tekjustofnar komi á móti. Dæmi eru þess að allt að 90% útsvarsálagningar eins sveitarfélags fari til skólamála. Fámenn sveitarfélög hljóta að kikna undan þeirri fjárhagslegu byrði. Ef til vill segja einhverjir að þarna muni Jöfnunarsjóður sveitarfélaga koma til hjálpar. Ég vil upplýsa að í fjárlögum þeim sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að lögboðið framlag til hans verði skert um 140 millj.

Og það er ekki gert endasleppt við menntamálin. Á síðastliðnu vori kom bréf frá menntmrn. til allra námsstjóra og skólastjóra við grunnskólann. Boðskapur þessa tilskrifs var í stuttu máli að skera skildi niður kennslustundafjölda um 2.5% og annan skólakostnað, svo sem gæslu, akstur og laun við mötuneyti, um 5%. Ég get nefnt það sem dæmi um hvernig þessi sparnaðarherferð bitnar á þeim sem minnst mega sin að í Norðurl. e. er framlag til sérkennslu skorið niður um 3/4 af áætlun. Trúlega er þetta svipað í öðrum landsfjórðungum. Þannig er búið að þessum okkar minnstu bræðrum.

Þá má minnast á fleira af svipuðu tagi, svo sem skert fjárframlög til Lánasjóðs íslenskra námsmanna, Háskóli Íslands fær aðeins lítinn hluta af því fé sem hann fer fram á til launa og rekstrar. Fjárbeiðni hans til nýbygginga er synjað með öllu og öll rannsóknastarfsemi er í algjöru fjársvelti.

Kennarar hafa um árabil búið við sultarlaun, svo sem yfirleitt er um þær vinnustéttir þar sem konur eru fjölmennar. Kjörum þeirra er svo komið að talað er um flótta í stéttinni. Þeir fengu að vísu nokkrar úrbætur í nýafstöðnum samningum, en ennþá er langt frá því að kjör þeirra séu viðunandi.

Þannig er búið að þeim sem eiga að sjá um menntun uppvaxandi æsku og þannig er búið að menntamálum í þjóðfélaginu yfirleitt. En meðan fjárveitingavaldið

daufheyrist við öllum beiðnum námsstjóra, skólastjóra og rektora um fé til bráðnauðsynlegra námsgagnakaupa og brýnna framkvæmda og svarar öllum á þá leið að ekkert fé sé til, þá fer hæstv. menntmrh. í ferðalag út um heim með fimm manna föruneyti. Að vísu er látið í veðri vaka að þessi för sé boð, en hitt mun þó raunar sannara að þetta ferðalag kosti menntmrn. Og gagnsemi þessa ferðlags liggur ekki í augum uppi fyrir venjulegu fólki. En ekki er að undra þótt tómahljóð sé í fjárhirslunni ef þetta er dæmigerð forgangsröðun verkefna á þeim bæ. Og ég spyr: Er þessi stjórnun menntamála það sem kjósendur báðu um fyrir einu og hálfu ári?

Samtök um kvennalista leggja áherslu á að stuðla beri að jafnri aðstöðu til náms hvar sem er á landinu. Einmitt nú, þegar gildi menntunar fer vaxandi, er brýnt að slaka hvergi á kröfum. Lykilatriði í uppbyggingu atvinnulífsins er menntun og við vörum við afleiðingum þess að þrengja að menntakerfinu. Slíkt getur valdið óbætanlegu tjóni fyrir menningu þjóðarinnar og nýja atvinnuhætti.

Sparnaðarráðstafanir ríkisstj. hafa í ýmsum tilvikum komið harkalega niður og einnig þar sem síst skyldi. Siðmenning þjóðar er oftlega metin eftir því hverja aðbúð hún veitir lítilmagnanum, hverrar aðstoðar aldraðir, sjúkir og öryrkjar eiga kost. Við vitum hvernig hæstv. ríkisstj. hefur tekið á þeim málum. Það er ekki vansalaust að fólkið sem hefur byggt upp íslenskt atvinnulíf af þeim skörungsskap að Íslendingar teljast nú sjötta ríkasta þjóð veraldar hefur nú varla til hnífs og skeiðar og hefur engin efni á að greiða þá heilbrigðisþjónustu sem það þarfnast, svo rýr er sá ellilífeyrir sem skammtaður er úr sameiginlegum sjóðum okkar og þeirra.

Sparnaðaraðgerðir hæstv. ríkisstj. hafa nú þegar leitt til þess að hér eru að spretta upp einkaskólar og sjálfstæðar heilbrigðisstofnanir. Við treystum ekki stjórnvöldum sem vanrækja menntun uppvaxandi æsku, vanrækja aðbúnað aldraðs fólks og telja að sjúklingar eigi að fá læknishjálp í hlutfalli við tekjur.

Hæstv. ríkisstj. hefur gengið illa að skipta því sem til skiptanna er og erfitt er að sjá hvers konar réttlætissjónarmið vaka fyrir henni. Ég hef lýst því hvernig sparnaður hennar kemur fram í menntamálum og heilbrigðismálum, en það eru til hlutir sem ekkert virðist þurfa að spara til og það sanna nýútkomnir ríkisreikningar berlega. Í ráðuneytisreikningum eru óskilgreindir liðir við skrifstofuhald sem nefnast ýmis starfsmannagjöld eða ýmis rekstrargjöld. Risnugjöld eru aftur á móti hvergi svo að ætla má að í þessum liðum sé sá þáttur falinn. Hjá einu ríkisfyrirtæki fara þessir kostnaðarliðir, ýmis útgjöld, fram úr fjárlögum um rúmar 63 millj. á síðasta ári og fleiri dæmi má nefna þó að í minna mæli sé. Hjá hinum ýmsu ráðuneytum leikur þessi kostnaður á bilinu frá 2 millj. og upp í tæpar 10 millj. Það er fjmrn. okkar sem þarna á metið í því að fara fram úr fjárlögum hvað varðar ýmis starfsmannaútgjöld og ýmis rekstrargjöld. Ráðuneytum stjórna þeir sem segja okkur að engir peningar séu til og allir þurfa að spara. Hvernig væri að skylda ráðuneytin til þess að sundurgreina þessa „ýmsu útgjaldaliði“ svo að við sjáum hvernig þeir fara að því að spara? Til hvers eru fjárlög ef slíkum gjaldaliðum eru engin takmörk sett?

Sveinn Björnsson fyrrum forseti mótaði fyrsta sendiráð Íslendinga erlendis. Í endurminningum sínum segir hann, með leyfi hæstv. forseta.:

„Ég gerði mér það ljóst í upphafi, að íburður og óhófleg risna yrði ekki til þess að auka virðingu lítillar þjóðar.“

Það er trú mín að ráðamönnum okkar væri holli að íhuga þessi orð. Sú stjórn sem nú situr hefur berlega sýnt að hún er ekki í neinum tengslum við hversdagslíf almennings í landinu. Hún hefur engan skilning á högum hans né þörfum. Á erfiðum tímum hefur hún reynst okkur illa og við treystum henni ekki til að sýna hagsýni, ráðdeild né framsýni þó að betur ári. — Góðar stundir.