19.06.1985
Neðri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6896 í B-deild Alþingistíðinda. (6202)

404. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að ég er svolítið hissa á till. sem hv. sjútvn. hefur lagt hér fram og er á þann veg að Fiskveiðasjóði verði heimilt að veita lán eða ábyrgðir vegna stofnframkvæmda við fiskeldisstöðvar með veði í fasteignum eða gegn ábyrgðum, eins og þar segir. Ég er hissa á því vegna þess að í reglum stofnlánadeildar er slík heimild fyrir hendi. Hæstv. forsrh. vitnaði í frv. sem hafi verið samin eins og það að einhver frumvörp hafi verið samin réttlæti það að þessi till. sé borin hér fram. Það hafa nú áður verið samin frumvörp sem hafa aldrei orðið annað en frumvörp. Ég sé því ekki að það séu mikil rök fyrir þessari brtt.

En þarna er um grundvallarbreytingu að ræða í sambandi við hvar eigi að ætla þessum málum stað í sambandi við fjármögnun. Ég sé ekki betur en að verið sé að slá því föstu að það eigi að taka það frá stofnlánadeild landbúnaðarins, eins og það hefur verið fram að þessu, og færa það í Fiskveiðasjóð. Við höfum líka reynslu fyrir því. Það voru ætlaðar úr Framkvæmdastofnun á síðasta ári 20 millj. í þessu skyni. Þó að stjórn stofnlánadeildar teldi rétt að þetta fjármagn yrði lánað í gegnum deildina var það ekki gert, heldur fór þannig, þó að fyrir lægju þar nokkuð margar tillögur, að stofnlánadeildin fékk aðeins 3 millj. til að lána út í þessu skyni.

Ég vil vekja athygli á því að þarna er um stefnubreytingu að ræða í þessum málum. Ég sé ekki að það hafi verið nauðsynlegt að flytja þessa brtt. Ég er henni andvígur og mun greiða atkv. gegn henni.