08.11.1984
Sameinað þing: 17. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 921 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

55. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. seinasti ræðumaður veittist að okkar jafnaðarmönnum fyrir að hafa laumast undan ábyrgð í ríkisstjórn 1979. Það heitir á máli annarra en framsóknarmanna að standa við stefnu sína. Það geta þeir ekki af auðskiljanlegum ástæðum, þeir hafa enga.

Hæstv. forsrh. sagði hins vegar í sjónvarpi í fyrrakvöld að hann sæi eftir því mest á ævinni að hafa ekki forðað sér í tæka tíð úr faðmlagi Alþb. í ríkisstjórn 1983. Það gat hann að sjálfsögðu ekki. Hann var límdur við ráðherrastólinn, hafði enga stefnu til að standa við. Þeir eru sjálfum sér samkvæmir, framsóknarmennirnir.

Herra forseti. Pólitík er að vilja. Ef við vitum hvað við viljum getum við í sameiningu breytt þjóðfélaginu. Minnumst þess að það er ekki ranglæti hinna illviljuðu sem er verst. Það versta er afskiptaleysi hinna góðviljuðu.

Hvernig vill Alþfl. breyta þjóðfélaginu? Fyrst: Hver eru vandamálin sem okkur skiptir mestu að finna nú lausn á? Ég nefni tvö.

S.l. tvö ár höfum við sameiginlega orðið fyrir tekjumissi vegna minna sjávarfangs, óhagstæðari aflasamsetningar og markaðserfiðleika sem má áætla á bilinu 5–6 milljarða kr. Þetta er tap sem þarf að jafna niður á þjóðina.

Hitt vandamálið þarfnast skýringa. Bestu hagfræðingum okkar ber saman um að við erum nú a.m.k. 25 milljörðum kr. fátækari en við værum ef verðbólgunni hefði ekki verið sleppt lausri s.l. áratug, ef erlendu lánin, sem við slógum eins og nýríkir flottræflar í innkaupaleiðangri, hefðu skilað okkur lágmarks arði. Þetta var áratugur hinna glötuðu tækifæra.

Ef Kröfluflokkarnir þrír hefðu aldrei fengið að reisa íslensku hugviti níðstöng við Kröflu, allir í skuld, sem kostar okkur á ári jafnmikið í vexti og afborganir og að reka Háskóla Íslands, ef seinustu tuttugu Steingrímstogararnir hefðu aldrei verið keyptir, ef Alþb. hefði ekki í fimm ár haft af okkur 2.5 milljarða í erlendum gjaldeyri fyrir tapaða orkusölu, ef við hefðum varið þeim 13 milljörðum sem við höfum greitt með offramleiðslu og milliliðakerfi landbúnaðarins s.l. sex ár öðruvísi, ef við hefðum í tæka tíð stöðvað fjárflóttann frá heilbrigðu atvinnulífi í bankahallir, sláturhús, undanrennumusteri, verslunarhallir og villur hinna nýríku, ef við hefðum ekki hegðað okkur eins og nýríkir olíufurstar í gleðihúsi, þá værum við nú 25 milljörðum kr. ríkari en við erum. Þá spyrði enginn hvort íslenskir atvinnuvegir gætu greitt mannsæmandi laun fyrir heiðarlegt vinnuframlag.

Pólitík er að vilja, sagði ég. Þetta sýnist vera það sem meiri hlutinn vildi. Við jafnaðarmenn vöruðum við í tæka tíð. Okkur var ekki trúað þá. Áður en við segjum hvernig við viljum nú leysa vandann skulum við fyrst líta á hvernig hæstv. ríkisstj. hefur reynt að leysa hann.

1. Hún hefur ekki hróflað við rótum vandans. Þær liggja í hinu pólitíska fyrirgreiðslukerfi kerfisflokkanna, þessu samábyrga velferðarkerfi fyrirtækjanna sem okkur hefur reynst svo dýrt, enda eru það ær og kýr framsóknarmanna og hluta Sjálfstfl.

2. Ríkisstj. brást við 6 milljarða tekjutapi þjóðarbúsins með því að færa 7–8 milljarða úr launaumslögum fólksins til fjármagnseigenda. Launþegar í landinu hafa því þegar greitt fyrir skakkaföllin og 40% í viðbót upp í skuldirnar frá stjórnartíð þeirra félaga, Steingríms og Svavars.

3. Ríkisstj. hefur horft aðgerðarlaust á hið hripleka tekju- og söluskattskerfi. Því til viðbótar hefur hún lækkað skattbyrði fyrirtækja um 1–2 milljarða, annarra fjármagnseigenda um 600–700 millj. á sama tíma hefur skattbyrði launafólks vegna beinna skatta, útsvara og óbeinna skatta hækkað um rúma 2 milljarða.

Og meira: Hluti útgerðar og fiskvinnslu er sokkinn í skuldir. Ríkisstj. býður smávegis greiðslufrest og ný lán. Það er eins og að lengja hengingaról hins dauðadæmda. Skuldafjötrar, hengingaról, á það að vera líflínan?

Herra forseti. Þessi pólitík stjórnarflokkanna hefur afhjúpað alvarlega bresti í undirstöðum íslensks samfélags. Gliðnunin, sem byrjaði á verðbólguáratugnum, er að verða að óbrúanlegri gjá. Nú er svo komið að landið byggja tvær þjóðir. Það er aðeins önnur þjóðin sem ber byrðarnar fyrir hina. En það er til önnur þjóð í þessu landi. Hún hefur engar fórnir fært. Hún skammtar sér sjálf lífskjör. Hún greiðir ekki sinn hlut í sameiginlega sjóði landsmanna. Hún lifir um efni fram. Hún styður hæstv. ríkisstj. Það er þessi þjóð sem byggir í Stigahlíðinni. Þessar tvær þjóðir eru nú í þann veginn að segja sig úr lögum hvor við aðra.

Nú spyr ég ykkur, þúsundirnar sem kusuð Sjálfstfl. í seinustu kosningum: Vissuð þið hvað þið vilduð? Sáuð þið fyrir hvað þið hrepptuð? Var þetta það sem þið vilduð? Hver er niðurstaðan? Einn kjósandi Sjálfstfl., kannske fyrrverandi, frá seinustu kosningum orðar það svo:

„Staðreyndin er sú að fólki er nóg boðið. því er misboðið, því er ofboðið.“

Pólitík er að vilja, sagði ég. Ég er hér málsvari Alþfl., flokks íslenskra jafnaðarmanna. Hvað viljum við? Hvernig viljum við breyta þessu þjóðfélagi?

1. Við viljum brjóta á bak aftur spillt fyrirgreiðslu- og skömmtunarkerfi kerfisflokka og hagsmunasamtaka í lánasjóðum og bankakerfi. Í staðinn viljum við leysa úr læðingi áræði, hugvit og atorku nýrrar kynslóðar og brjóta okkur braut í nýjum vaxtargreinum framtíðaratvinnuveganna.

2. Við viljum afnema velferðarkerfi fyrirtækjanna. Við erum tilbúnir að draga úr ríkisrekstri þar sem hagkvæmnisrök sýna að sá rekstur væri betur kominn í höndum annarra. Við viljum enga bakdyraþjóðnýtingu tapsins.

3. Vegna þess að jafnaðarmenn voru og eru baráttumenn fyrir þeim afskiptum ríkisvaldsins sem stuðla að tekjujöfnun og félagslegu öryggi viljum við forðast að atvinnulífið lendi á framfæri skattgreiðenda. Það á þvert á móti að skila þeim verðmætum sem samfélagið óskar að verja til sameiginlegrar þjónustu.

4. Þegar fullyrt er að atvinnulífið geti ekki greitt laun sem nægja til framfærslu fjölskyldu er okkar svar einfalt: Breytum því. Hvernig? Með því að færa fjármuni írá þeim sem hafa makað krókinn til hinna sem hafa fært fórnir. Við viljum ekki líða það að allsnægtir og örbirgð þrífist hlið við hlið í okkar litla samfélagi. enda mun slíkt þjóðfélag ekki fá staðist. Hvernig á að gera þetta?

1. Við viljum afnema tekjuskatt á launatekjur allt að 35 þús. kr. á mánuði. Fyrir því höfum við barist á hverju þingi í áratug. Nú vildu allir þá Lilju kveðið hafa.

2. Við erum reiðubúnir að mæta tekjumissi ríkisins af þeim sökum með niðurskurði ríkisútgjalda og sölu ríkisfyrirtækja þar sem það styðst við hagkvæmnisrök.

3. Við erum eini flokkurinn á Alþingi sem hefur s.l. tvö ár haldið uppi látlausri umræðu um skattsvikin, þetta krabbamein íslensks þjóðfélags. og aðgerðir gegn þeim. Tillögur okkar í þeim efnum liggja fyrir lið fyrir lið og fleiri eru í smíðum. Ég skal nefna tvö dæmi: Við viljum afnema undanþágur frá söluskatti að mestu leyti. Við viljum taka söluskatt af innflutningi í tolli. Í svari við fsp. minni á Alþingi s.l. þriðjudag upplýsti hæstv. fjmrh. að tekjuauki ríkissjóðs af slíkum aðgerðum gæti numið 8 milljörðum kr., tvöföldun á núverandi tekjustofnum söluskatts. Því til viðbótar má slá föstu að bæta mætti við 2–4 milljörðum kr. vegna stórbættrar innheimtu.

Þannig vinnst allt í senn:

1. Ríkissjóður fær auknar tekjur í stað þess að vera rekinn á erlendum lánum.

2. Unnt er að verja hluta af þessum fjármunum til þess að lækka söluskattinn verulega og þar með vöruverð, sem þjóðin bíður eftir.

3. Hækkun matvæla, sem nú eru undanþegin söluskatti, má mæta með því að endurgreiða barnafjölskyldum ríflegar fjölskyldubætur af stórauknum tekjum.

Í næstu viku munum við Alþfl.-menn leggja fram till. um nýjan stighækkandi eignarskatt til tveggja ára. Hverjir eiga að greiða hann? Þau fyrirtæki og stóreignamenn sem á verðbólguáratugnum nutu stórkostlegrar eignatilfærslu frá almenningi í skjóli verðbólgu, neikvæðra vaxta og hins hripleka skattakerfis. Tekjunum á að verja til þess að gera stórátak í húsnæðismálum unga fólksins sem nú hefur verið úthýst eða sætir afarkostum á leigumarkaði.

Þetta, herra forseti, væru kjarabætur í ósvikinni mynt án verðbólgu. Þetta væru umbætur í réttlætisátt. Stefnu okkar jafnaðarmanna má draga saman í þessum niðurstöðum: að létta skattbyrði launafólks, að uppræta skattsvik forréttindahópa, að tryggja lækkun verðlags, að létta skuldabyrði húsbyggjenda, að lækka vexti og fjármagnskostnað atvinnulífs og einstaklinga, að auka jöfnuð og réttlæti í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég hef hér nefnt dæmi um hvað við jafnaðarmenn viljum gera, hverju við viljum breyta. Nú er röðin komin að þér sem mál mitt heyrir. Hvað vilt þú? Hverju vilt þú breyta? Ég beini máli mínu til ykkar, þúsundanna sem kusuð Sjálfstfl. í góðri trú fyrir seinustu kosningar og til ungu kynslóðarinnar í landinu sem þessi ríkisstj. lofaði gulli og grænum skógum í húsnæðismálum og hefur nú allt svikið. Leyfist mér að leiða fram eitt vitni þeirra þúsunda sem hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með hinn nýja Sjálfstfl. þeirra Þorsteins Pálssonar. Alberts Guðmundssonar og Davíðs Oddssonar. Þorgeir Ibsen skólastjóri í Hafnarfirði segir í viðtali við Morgunblaðið:

„Sú ríkisstj., sem sat á undan þessari, var vond ríkisstj.“ Ég er sammála. „Þessi, sem nú situr, fór vel af stað.“ Það er dálítið til í því. „En nú hefur hún brugðist hrapallega. m.a. með þeim afleiðingum að misrétti og ranglæti í þjóðfélaginu er nú meira en verið hefur um langt skeið.“

Herra forseti. Þetta er vantraust á hæstv. ríkisstj. flutt af kjósendum Sjálfstfl. sem hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum.

Ríkisstj. þekki ekki sinn vitjunartíma, því miður.

Þess vegna er hennar tími liðinn. Ég spyr, herra forseti: Hvaða samleið á maður sem svona hugsar með þeim Sjálfstfl. sem orðinn er í hans eigin orðum „að gullastokki til að fá útrás fyrir hégómlegan metnað og valdagræðgi forréttindahópa í þjóðfélaginu?“

Ég skora á ykkur sem standið í sömu sporum og Þorgeir 1bsen skólastjóri, þúsundum saman, að hugsa það til enda. Eigið þið ekki samleið með íslenskum jafnaðarmönnum? Þarf ekki þetta þjóðfélag á að halda sameiningarafli jafnaðarhugsjónarinnar — ekki aðeins í orði heldur líka í verki? Og ég spyr þig, ungi Íslendingur: Átt þú ekki samleið með eina flokknum á Alþingi sem varaði við afleiðingum af framferði kerfisflokkanna á ártug hinna glötuðu tækifæra, sem hefur lagt einn flokka fram framkvæmanlegar tillögur um skilvirki og réttlátt skattakerfi, sem þorir í stjórnarandstöðu að leggja fram tillögur um að skattleggja hina ríku til að bæta fyrir misgerðir þjóðfélagsins við hina ungu? Hugsið þið málið, unga fólk á Íslandi.

Sumir segja, herra forseti, að Alþfl. sé of veikur. Þá er það ykkar, kjósendur góðir, að breyta því, því að pólitík er að vilja, eins og Gunnar Thoroddsen heitinn sagði, og að framkvæma.

Íslenskir jafnaðarmenn halda senn flokksþing sitt. Við eigum nú brýnna erindi við þjóðina en nokkru sinni fyrr. Þess vegna þurfum við að taka af tvímæli um það hverjir við erum, hvar við stöndum og hvað við viljum. Í því efni skiptir þetta mestu:

Við eigum að hasla okkur völl vinstra megin við miðju í hinu íslenska flokkakerfi.

Við eigum að gera Íslendingum ljóst að við erum róttækur umbótaflokkur í efnahagsmálum.

Við eigum að vísa á bug öllum hugmyndum um samruna og kosningasamstarf við Alþb., þó ekki væri nema vegna hörmulegrar reynslu þessarar þjóðar af ríkisstjórnarþátttöku þess flokks.

Við eigum að taka af tvímæli um að við erum ekki gamaldags ríkisforsjárflokkur. Við erum róttækur umbótaflokkur, en ekki kerfisflokkur. Við viljum virkara lýðræði og valddreifingu í þessu þjóðfélagi. Um slíka stefnu eigum við að vera reiðubúnir til stjórnarsamstarfs við öfl sem undir þá stefnu vilja taka.

Herra forseti. Við lýsum ábyrgð á hendur þeim einstaklingum sem á örlagastundu s.l. vor rufu einingu íslenskra jafnaðarmanna og bera ábyrgð á hörmungum þjóðarinnar undir núverandi stjórnarstefnu. Það voru mistök. Enn er hins vegar ekki of seint að bæta fyrir þau mistök og það vex hver af því sem reynir slíkt. Við skulum vona að sameiginlega beri jafnaðarmenn gæfu til þess.

Herra forseti. Í Gerplu Laxness segir frá landstjórnarmanni, Ella kóngi Engilsaxa, sem svo var heillum horfinn að hann tegldi fogla í friði, en seldi upp í ófriði og bauð aldrei liði út nema til að herja á eigin þegna. Þá kemur mér hann í hug, Ella kóngur, þegar ég horfi úr þessum ræðustól á núverandi landstjórnarmenn, hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson, hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson og aðstoðarmann þeirra, hv. 1. þm. Suðurl. Þeir tegldu fogla í friði sumarsins, en þeir seldu upp stjórnarstefnunni í ófriði haustmánaða og nú er svo fyrir þeim komið að þeir geta ekki einu sinni boðið út liði gegn þegnum sínum lengur því að það er brostinn flótti á liðið.

Góðir Íslendingar. Þennan flótta þurfum við að reka heim til föðurhúsa. Við skulum ekki láta okkur vaxa það í augum. Minnumst orða Þorgeirs Ibsens, þess sem ég vitnaði til áður, hins óánægða — og sáróánægða — sjálfstæðismanns, þegar hann lýsti flokknum sem einu sinni var flokkur Bjarna Benediktssonar og Ólafs Thors. Nú horfir hann á þennan flokk og lýsir honum svo, með leyfi forseta:

„Nú virðist mér að hann sé farinn að líkjast stórum slöttólfi. Hann er mikill vexti, en linkulegur, garmurinn. Og er það mikið harmsefni því að vissulega hefur flokkurinn fram til þessa átt erindi við þjóðfélagið.“

Herra forseti. Víst var sú tíð, en hún er núna fátíð. Nú þurfum við frjálslyndir menn á Íslandi, raunverulegir jafnaðarmenn á Íslandi, að taka höndum saman um að fylla upp í þetta tómarúm. Það er framtíðarverkefni íslenskra jafnaðarmanna.