19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6905 í B-deild Alþingistíðinda. (6245)

398. mál, grunnskólar

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þær raddir gerast nú æ háværari sem vilja auka frelsi skólanemenda, gefa þeim tækifæri til að velja sjálfir hversu mörgum árum þeir eyða í skóla eða m. ö. o. stytta skólaskyldu þótt ekki verði dregið úr fræðsluskyldunni. Flestir munu þó sammála um að skylda beri fólk til að tileinka sér einhverja lágmarksþekkingu. Það er sem sagt lengd skólaskyldunnar sem menn eru ósammála um. Helstu og nánast einu rökin til stuðnings þessari stefnu, þ. e. minnkun skólaskyldu, birtast í nál. minni hl. menntmn. á þskj. 1161 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Það er álit minni hl. að það yrði skólastarfi í grunnskólum landsins ekki til framdráttar ef þeir nemendur, sem nú hverfa úr skóla eftir 8. bekk, yrðu skyldaðir til að halda áfram námi sem þeir hafa engan áhuga á. Minni hl. telur að þeir nemendur, sem þannig yrðu þvingaðir til skólaveru, gætu skaðast verulega með slíkri ráðstöfun og e. t. v. gæti það komið í veg fyrir framhald í námi síðar meir.“

Fyrir þessum getgátum skortir öll rök og því miður hafa sáralitlar rannsóknir verið gerðar sem staðfest geti eitt eða annað í þessum efnum.

Það hljómar út af fyrir sig vel að vilja auka valfrelsi nemenda og halda því á loft að þeim hljóti að vera námið þeim mun ljúfara og léttara ef þeir stunda það af fúsum og frjálsum vilja. Málið er bara ekki svona einfalt.

Eins og nú háttar eru unglingar frjálsir að því að hætta skólanámi eftir átta ár í grunnskóla. Reynslan sýnir að um 95% nemenda sem ljúka námi í 8. bekk halda áfram námi í 9. bekk, enda veitir 8. bekkjar prófið þeim engin réttindi hvorki til starfs né framhaldsnáms. Sem fyrr segir höfum við allt of litlar rannsóknir að styðjast við þegar þessi mál eru rædd, en fullyrða má að ein meginástæða þess að nemandi hættir skólagöngu eftir 8. bekk sé umfram allt aðstaða hans heima fyrir. Kemur þar hvort tveggja til, atvinnulífið í sjávarplássunum, sem kallar unglingana til starfa áður en þeir hafa aflað sér sérhæfðrar menntunar, svo og fjarlægð við skóla sem víða hamlar gegn aðsókn nemenda í dreifbýlinu. Á því er veruleg hætta að allmargir nemendur haldi ekki áfram námi af þessum sökum, sem hér voru nefndar, ef átta ára skólaskyldan verður lögfest og mun það að mínu viti enn auka á aðstöðumun nemenda eftir búsetu. Við skulum ekki heldur gleyma því að víða úti um land er starfstími skólanna skemmri en í þéttbýlinu, sem eykur enn á aðstöðumun nemenda, þótt á hinn bóginn megi e. t. v. halda því fram að sums staðar njóti nemendur betri einstaklingskennslu í fámenninu.

Við Kvennalistakonur höfum haft áhyggur af þessum aðstöðumun og lögðum fram till. á haustþingi til leiðréttingar. Hún er á þskj. 142 og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að tryggja að ríkissjóður gegni sömu skyldum hvað varðar fjárframlög við 9. bekk grunnskóla og við aðra bekki grunnskólans, án þess þó að skólaskylda komi til.“

Nú má vera að tillgr. sé óheppilega orðuð að því leyti að hana má skilja svo að við séum beinlínis andvígar því að 9. bekkur tilheyri skyldunáminu. Það er þó ekki raunin. Í þessari þáltill. felst það að nemendur 9. bekkjar njóti sömu réttinda og aðrir nemendur grunnskóla þrátt fyrir að skólaskylda 9. bekkjar hefur ekki komið til framkvæmda og verið frestað ár eftir ár. Megingallinn við þá framkvæmd er það hróplega óréttlæti, sem hefur fylgt í kjölfarið, að nemendur 9. bekkjar hafa ekki setið við sama borð og aðrir nemendur grunnskóla hvað varðar framlög úr ríkissjóði.

Nú er það svo, að unglingar innan 16 ára aldurs teljast ekki fullgildir á vinnumarkaðinum og hafa því lágt kaup. Þrátt fyrir það hafa verið lögð á þá útgjöld umfram aðra grunnskólanema, svo sem námsbókakaup. Í dreifbýlinu hefur þessi mismunun í raun og veru gengið enn lengra þar sem nemendur hafa þurft búsetu vegna að vera í heimavistarskólum. Öll börn og unglingar, sem í heimavist eru, greiða hráefniskostnað í mötuneyti, en auk þess er nemendum 9. bekkjar gert að standa straum af launakostnaði starfsfólks í mötuneyti. Má því ljóst vera að útgjaldaaukning heimilanna vegna þessa er umtalsverð. Við litum því svo á að till. okkar væri réttlætismál.

Við urðum þess mjög varar á hringferð okkar um landið í fyrrasumar hve miklar áhyggjur voru í dreifbýlinu af þeim aðstöðumun sem er á milli náms í dreifbýli og þéttbýli. Það voru menntunarmál barnanna sem virtust víðast hvar brenna heitast á foreldrum í dreifbýli. Erfiðleikarnir við að kljúfa kostnaðinn, sem fylgir því að senda unglinga langa vegu til langdvalar, eru býsna mörgum um megn þannig að það hefur dregið úr því að foreldrar hafi treyst sér til að senda börn sín í 9. bekk. Þetta var því tilraun okkar til að taka á þessu máli.

Þetta var sem sagt okkar afstaða og þessi till. var borin fram nú m. a. vegna þess að við töldum fremur lítil líkindi til þess að níunda árið yrði lögfest í bráð. En ég vil taka hér af öll tvímæli um það að við munum greiða atkv. gegn því frv. sem hér er til umr. Í grunnskólalögunum er kveðið á um að öllum nemendum séu gefin sem jöfnust tækifæri til náms. Með lögfestingu þess frv. sem hér er til umr. værum við að festa í sessi aðstöðumun nemenda eftir búsetu og það væri að mínu viti spor aftur á bak.