19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6917 í B-deild Alþingistíðinda. (6249)

398. mál, grunnskólar

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég ætla að segja örfá orð og byrja á að undirstrika þau atriði sem ég er fullkomlega sammála hæstv. menntmrh. um.

Ég er fylgjandi því að það verði hætt af sparnaðarástæðum að greiða ekki fyrir börn sem eru í 9. bekk. Ég er sammála því og tel að við eigum að greiða fyrir öll börn í grunnskólanum hvort sem þau eru í 9. bekk, 8. bekk eða 7. bekk. Það atriði tel ég að horfi til mikilla framfara og að því leyti vil ég að grunnskólalögin komi til framkvæmda.

Það sem hér hefur komið fram og er eina ágreiningsefnið er spurningin um hvort það eigi að vera skilyrðislaus skylda hjá nemandanum og foreldrum hans að barnið fari í skóla, hvort foreldrarnir séu síður færir um að dæma það og barnið en einhver sálfræðingur e. t. v. langt í burtu, sem aldrei hefur séð þetta barn eða talað við það.

Því er haldið hér á lofti að þetta séu börn dreifbýlisins. Því miður eru þær skýrslur falsaðar. Það er mjög algengt, og það veit hver sá sem talar við útivistardeildina í Reykjavík, að börn hverfi héðan úr skóla. ()g hvað er gert við þessi börn? Það er reynt að koma þeim fyrir úti á landi. Og um leið og búið er að koma þeim fyrir þar eru þau talin til dreifbýlisins í skýrslunum sem lagðar eru fram. (Menntmrh.: Hafa þau ekki lögheimili í Reykjavík áfram?) Þau eru talin út frá skólunum. Þegar talað hefur verið um fall nemenda í skólum hefur ekki verið farið eftir lögheimili. Þá hefur verið farið eftir skólum. Dvalarstaðurinn hefur verið lagður til grundvallar, eftir því sem ég best veit, í þessum efnum.

Ég hef staðið frammi fyrir því að ungur nemandi neitaði að koma í skóla. Hann var aðfluttur úr Reykjavík. Hann neitaði algjörlega að mæta. Hann var búinn að vera á öðrum stað fyrri part vetrar og var nú að koma í nýtt umhverfi. Hans rök fyrir því að neita að mæta voru þau að þá kæmust krakkarnir að því hvað hann vissi lítið. Hann vildi halda sinni reisn og frekar vera kaldur karl og mæta ekki. Og hann sagði við mig af því að hann var fullkomlega nógu greindur til að stunda skólanám: Ég fell í vor ef ég mæti hjá þér í skólanum. Hvað græði ég á því? Það verður bara stimplað að ég hef fallið á grunnskólaprófi.

Gallinn við grunnskólalögin er sá m. a. að sagt er að nemandinn megi koma aftur og stunda nám í grunnskólanum eftir eins vetrar hlé. Það er mjög erfið ákvörðun hjá nemanda að gera slíkt vegna þess að jafnaldrarnir eru allir farnir annað. Þeir eru annars staðar. Þess vegna er það miklu minna átak hjá viðkomandi nemanda að fara í fjölbrautaskóla og stunda þar nám í núlláfanga.

Það eru aftur á móti viss atriði í grunnskólalögunum sem eru hættuleg gagnvart því kerfi að halda hér uppi jafnvægi í námi hvar sem er á landinu. Það er það valfrelsi sem er í lögunum um lengd skólatíma á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þar er nefnilega um heilt ár að ræða í mismun. Mér þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. tæki vel eftir því.

Í 41. gr. segir, með leyfi forseta:

„Reglulegur starfstími grunnskóla skal vera 7–9 mánuðir. Skólaárið skal. þegar miðað er við hámarkskennslutíma, hefjast 1. september og því ljúka 31. maí.

Heimilt er þó skólanefnd, að fengnum meðmælum fræðsluráðs og fræðslustjóra. að ákveða í upphafi skólaárs að kennsla hefjist á tímabilinu 15. sept. til 1. oki., og verði þá árlegur kennslutími sem hér segir:

a. í 1.–3. bekk í sjö mánuði,

b. í 4.–9. bekk í sjö og hálfan mánuð.“

Þarna er ekki aðeins heilt skólaár. heldur mun meira í mismun. Það er þetta sem er hættulegt í hinum samræmda skóla. Auðvitað gengur það ekki upp að hægt sé að framkvæma jafnmikla kennslu á þessum stutta tíma og þar sem ætlast er til þess að menn sitji í skóla frá 1. september og út maí.

Þetta gerum við nú samt, en það blasir við, og þær skýrslur hef ég skoðað. að fallið á grunnskólaprófinu er mun meira úti á landi að meðaltali en í Reykjavík, og þetta er ein af ástæðunum.

Ég vil undirstrika að það hvarflaði ekki að mér að standa að þeirri brtt. sem ég flyt hér ef ég liti svo á að með því væri ég að auka mismunun á milli landshluta. (HBl: Öllum getur missést.) Hv. 2. þm. Norðurl. e., sem hefur fengist mikið við kennslu, hefur á þessu aðra skoðun og ég tel ástæðulaust með öllu að virða ekki hans skoðun í þeim efnum. Ég veit að hún er af heilindum mótuð gagnvart börnum og unglingum. En ég ætlast einnig til þess að hann virði þá skoðun mína að það sé betra að standa að þessum málum á þann veg sem ég legg til og honum sé jafnljóst að það er af fullum heilindum gagnvart hagsmunum barna í þessu landi sem ég legg það til sem í brtt. stendur.

Mér er ljóst að hér er uppi skoðanaágreiningur og sá skoðanaágreiningur mun í reynd koma fram gagnvart um 5% af nemendum landsins. Hæstv. menntmrh. gerði sér grein fyrir því og hefur á því fullan skilning að hluti af þessum nemendum fengi undanþágu og færi ekki í skóla þannig að prósentan yrði enn lægri í framkvæmd. Það er vissulega rétt að það gefur möguleika til áframhaldandi náms að ljúka 9. bekk, en fall á grunnskólaprófi gefur enga möguleika fram yfir það að ljúka ekki þessu námi. Þrátt fyrir allt hugleiða börnin þessa hluti mjög mikið og sína stöðu í þessum efnum.

Ég vil líka benda á að ég vona að í framtíðinni gerist það að hægt verði í íslenskum skólum að sinna meir hagsmunum hvers nemanda fyrir sig og þeir tímar muni koma að við fullnægjum grunnskólalögunum varðandi þær kröfur sem þau gera um þjónustu af hálfu ríkisins við þá nemendur sem eru á eftir í námi. En það væri líka vel ef við gætum staðið þannig að þessum málum að þeir nemendur sem eru á undan í námi gætu lokið því námi á átta árum. Það væri líka til bóta fyrir skólastarfið.

Ég vil bæta því við að ég ber fulla virðingu fyrir þeim málflutningi og þeim rökum sem hér hafa verið uppi höfð gagnvart níu ára skólaskyldu og mér er ljóst að þeir sem þar hafa flutt sitt mál eru sannfærðir um að þeir eru að gera börnunum greiða með því að leggja það til. Hins vegar er það staðreynd hvað þetta snertir að kannske er mín sannfæring óvenjuföst í þessu máli vegna þess að stóran hluta af ævi minni hef ég fengist einmitt við þetta verkefni og á þeirri reynslu byggi ég mína afstöðu.