19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6922 í B-deild Alþingistíðinda. (6253)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Páll Dagbjartsson:

Herra forseti. Hér er til umr. frv. um lögverndun á starfsheitinu „kennari“. Þetta hefur alltaf vakið nokkra spurn í huga mér. allt frá því ég heyrði það fyrst rætt í röðum minna kollega. kennara og skólastjórnenda, hver rök lægju að baki þeirri kröfu að fá þess háttar lög sett hér á hinu háa Alþingi.

Ég er í fyrsta lagi almennt séð mjög efins um að ganga eigi langt í lagasetningu af þessu tagi. Ég held að það beri að fara varlega í þær sakir.

Í öðru lagi breytir þetta engu um það að áfram verður kennaraskortur vítt og breitt um landið og gæti jafnvel verkað þveröfugt og aukið á óróa og flótta úr kennslustörfum í hinni dreifðu byggð.

Í þriðja lagi er mér kunnugt um að þessar óskir frá Kennarasambandinu eru fram komnar í þeirri trú að lagasetning af þessu tagi mundi bæta hag stéttarinnar og bæta stöðu kennara í kjarasamningum og færa þeim meiri laun. Ég fæ ekki séð að þau rök fái staðist.

Hins vegar vil ég láta það koma skýrt fram að ég hef áhyggjur af því hve erfitt er að halda í vel menntaða og hæfa kennara vítt og breitt um landið. Við verðum að snúa við blaðinu með einhverju móti þannig að vel hæfir og menntaðir kennarar sæki beinlínis í kennslustörf.

Ég held að þar geti ekki nema eitt komið til, en það eru betri laun og breytingar á ýmsum atriðum er varða vinnuskyldu og vinnutilhögun kennara.