19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6925 í B-deild Alþingistíðinda. (6256)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Frsm. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var vissulega ánægjuefni að þrír hv. þm. Sjálfstfl. og síðast hæstv. menntmrh. skyldu sjá ástæðu til að ræða þetta mál eftir að mælt hafði verið fyrir nál. og ég fagna því mjög að þau orð sem frá þeim hafa fallið öllum saman skuli vera fest í þingtíðindin. Kennarar eru manna duglegastir við lestur og þeir munu eflaust kynna sér þau viðhorf sem fram hafa komið í máli þessara hv. þm., þ. á m. formanns menntmn. sem lagði hér orð í belg, fyrir svo utan hæstv. ráðh.

Ég vil af þessu tilefni fara nokkrum orðum um athugasemdir þeirra og þau viðhorf sem fram komu hjá hæstv. ráðh. gagnvart kennarastéttinni og kennarastarfinu.

Hjá hv. þm. Páli Dagbjartssyni og hv. þm. Halldóri Blöndal komu fram skýrar efasemdir um gildi þess að lögvernda starfsheiti kennara með starfsréttindum að meira eða minna leyti. Það er sjónarmið út af fyrir sig hvað menn telja skynsamlegt í þessum efnum. En ég vil benda þessum hv. þm. á að Alþingi hefur um margra ára bil verið að lögvernda réttindi og starfsheiti ákveðinna starfsstétta í þjóðfélaginu, (Gripið fram í.) þar á meðal og ekki síst innan heilbrigðisstéttanna. Á yfirstandandi þingi hefur hæstv. heilbrrh. m. a. flutt og fengið samþykkt frv. sem lúta að þessu með dyggum stuðningi stjórnarflokkanna. En þegar kemur að kennurum er annað hljóð komið í strokkinn. Og vegna þess að hér er verið að ræða þessi mál út frá almennum sjónarmiðum get ég út af fyrir sig alveg tekið undir það að við gætum hugsað okkur okkar samfélag á svo marga lund með allt öðrum hætti og á allt öðru spori en fyrir liggur. Menn geta haft óskir um það.

Hér fóru fram í gær gagnmerkar umræður um kjör og laun fiskverkunarfólks, starfsfólks í fiskiðnaði, sem að yfirgnæfandi meiri hluta eru konur, og það var verið að ræða um það af hv. alþm. hvaða leiðir væru helstar til að bæta þar um. Menn stigu á stokk hér hver eftir annan í þessum ræðustól og tóku undir það, sem fram hafði komið hjá málshefjanda, hv. þm. Kjartani Ólafssyni, að kjör þessa fólks væru fyrir neðan allar hellur, samfélaginu til stórtjóns og ósamboðin fólkinu sjálfu. Og hver voru m. a. ráðin sem bent var á? Hv. þm. Kjartan Ólafsson lauk sínu máli í þessari umræðu utan dagskrár með því að benda á það sem eðlilega viðmiðun að starfsfólk í fiskvinnslu hefði kjör á borð við vel ef ekki best launuðu iðnaðarmenn í landinu. Hæstv. sjútvrh. benti á að hann hefði í samvinnu og samráði við Verkamannasamband Íslands verið að undirbúa sérstök fræðslunámskeið fyrir þetta fólk og ég held að hið sama hafi komið fram hjá hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni í hans máli, að slíkt væri ein leiðin til ávinnings og til að tryggja kjör þessa fólks, að reynsla þess yrði metin, sú starfsþjálfun og þekking sem það ávinnur sér í starfi.

Ég bendi á þetta í tengslum við þetta frv. vegna þess að við erum að tala hér um náskyld efni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar í sambandi við fiskverkafólkið að eðlilegt væri og sjálfsagt að það fengi sín ákveðnu réttindi miðað við starfsreynslu og þjálfun og þau réttindi mætti gjarnan lögvernda miðað við það spor sem samfélagið er á í þessum efnum. Það er hægt að gera með mjög mismunandi hætti. Og það er út af fyrir sig varhugavert að loka starfsgreinum um of í samfélaginu. Það getur haft sína neikvæðu þætti. En við skulum líta á þá aðila þar sem sérþekkingar er krafist og tökum þá heilbrigðisstéttirnar. Hver er viðurkenndur læknir á Íslandi í dag sem ekki hefur fengið lækningaleyfi? Hann er að fjalla um heilbrigði fólks og sjúkdóma, gefa vottorð þar að lútandi sem gild teljast. Það dettur fáum í hug að kalla lækna aðra en þá sem leyfi hafa fengið til þess. Ástæðan er auðvitað sú að slíkir menn eru ekki að störfum í samfélaginu. Nú er ég ekki þar með að segja að ramminn kunni ekki að vera of þröngt dreginn í einstökum atriðum. Ég get nefnt sem dæmi að grasalækningar, sem mikið voru tíðkaðar hér í minni núlifandi manna með ágætum árangri, eru litnar hornauga af ýmsum í læknastétt og þeim sem fara með heilbrigðismál í landinu. Mér er kunnugt um að Lánasjóður ísl. námsmanna hefur skirrst við að veita námslán til fólks sem er að mennta sig í svonefndum grasalækningum. (Gripið fram í: Við þurfum að breyta þessu.) Það finnst mér út af fyrir sig vera mjög hæpið svo ekki sé meira sagt.

Ég segi þetta vegna þess að við eru hér að ræða um lögverndun á starfsheiti og um leið spurninguna um starfsréttindi fólks sem er að fjalla um andlega velferð uppvaxandi kynslóða í landinu, kennaranna. Ég fullyrði að þar er síst um vandaminna verkefni að ræða en t. d. hjá læknastéttinni, hjá hjúkrunarfólki, sjúkraliðum og öðrum slíkum í heilbrigðisstétt og met ég þeirra störf og þá menntun sem að baki býr þó vissulega mikils.

Ég spyr: Hvað veldur því að það er allt í einu eitthvað annað uppi á teningnum þegar röðin kemur að kennurum heldur en starfsfólki heilbrigðisstétta? Hvaða rökrænt samhengi er í þeirri afstöðu sem endurspeglaðist í máli hv. þm. Páls Dagbjartssonar og í máli Halldórs Blöndals að þessu leyti og í þeirri tregðu sem ríkt hefur hjá hæstv. menntmrh. til að taka á þessum málum og bera fram frv. eða styðja það frv. sem hér liggur fyrir, e. t. v. með breytingum sem samstaða hefur náðst um, til þess að standa við orð sín og loforð, gefin samtökum kennara á liðnum vetri æ ofan í æ?

Og þá ætla ég að víkja nánar að því sem fram kom hjá hæstv. ráðh. Ráðh. sagði með rétti eitthvað á þá leið að aldrei í sögunni hefðu verið sérkennilegri tímar en í hópi kennara í kjarabaráttunni í vetur. Það er alveg rétt. Það er eðlilegt að það renni hæstv. ráðh. nokkuð til rifja hvernig þróunin hefur verið og viðskipti stjórnvalda, þ. á m. menntmrn., á liðnu skólaári við þá aðila sem mest reynir á í skólastarfi í landinu, kennara. Hæstv. ráðh. lék þann leik lengi vetrar að lofa upp í ermina á sér, þvo hendur sínar og vísa á einhvern annan en sjálfan sig og sitt rn. sem þránd í götu þess að kröfur, sem ráðh. sagði æ ofan í æ að væru í rauninni skiljanlegar og réttmætar, ef reynt var að lesa á milli línanna, næðu fram, það væru einhverjir aðrir en menntmrn. sem stæðu þar í vegi. Það var alveg ljóst við hvern var átt. Það var samflokksmaður hæstv. menntmrh. og samráðherra, fjmrh., sem var verið að reyna að hengja upp í sambandi við þetta efni og ætla ég út af fyrir sig ekki að vera að hafa neitt af honum hvað hans hlut varðar í sambandi við þá hroðalegu þróun sem varð á liðnu skólaári í sambandi við málefni kennara. Hæstv. fjmrh. opnaði í rauninni hug sinn með þeim hætti þann 11. okt. s. l. að lengi mun lifa í a. m. k. sögu fræðslumála á Íslandi þegar hann ræddi um skólastörf, starf kennara og framlag þeirra.

Hæstv. menntmrh., sem sá fram á uppsagnir milli 400 og 500 framhaldsskólakennara í marsmánuði s. l., sagði hér í umr., í Sþ. hygg ég það hafi verið 19. febr. s. l., að það væri allt á flugferð hjá sínu rn. til að greiða úr þessum málum. Endurmat á störfum kennara væri í fullum gangi og senn að sjá fyrir endann á því. Og svo var það þessi nefnd sem ráðh. skipaði um það leyti sem þetta frv. kom fram í hv. Nd. A. m. k. vissi hæstv. ráðh. af því að þetta frv. var á leiðinni inn í hv. Nd. Ég hygg að það hafi verið nokkurn veginn sama daginn sem þetta frv. var lagt hér fram og hæstv. ráðh. gekk frá skipun sinnar nefndar. Ég hygg að það hafi nokkurn veginn borið upp á sama dag. Ég skal ekki fullyrða um klukkustundirnar, enda skiptir það nú ekki máli. Það skiptir varla máli í þessu samhengi. En 19. febr. s. l. stendur hæstv. menntmrh. í þessum stóli og fullyrðir m. a. að menntmrn. sé allt af vilja gert til að greiða fyrir þessu áhugamáli Bandalags kennarafélaga um lögverndun á starfsheiti kennara og nefndin, sem hann skipaði og sagði okkur hér 26. nóv. að væri að ljúka störfum, ætti nú í rauninni bara eftir að setja punktinn aftan við.

Nú er hér talað um uppkast og drög og vinnuplögg sem ekkert hafi verið með gerandi. Liggur þó fyrir, m. a. í máli hv. þm. Kristínar Tryggvadóttur sem tók þátt í umr. hér 14. maí s. l. og átti sæti í nefndinni, að í nefndinni voru öll ágreiningsmál leyst að mati fulltrúa kennara — og það voru aðeins fulltrúar kennara og tilkvaddir aðilar af hæstv. menntmrh. sem störfuðu í nefndinni — nema spurningin um hvernig haga skyldi námskeiðum eða fræðslu fyrir þá kennara sem ekki hefðu full réttindi en leituðust við að ná þeim að því frv. samþykktu sem þarna var í mótun.

Nú kann vel að vera að hæstv. menntmrh. eða trúnaðarmenn ráðh. í nefndinni hafi ekki ræðst við og hjal hæstv. ráðh. í ræðustól á Alþingi hafi verið markleysan tóm, talað úr tómum poka, vegna þess að ráðh. hafi ekki fylgst með því sem var að gerast í þessari nefnd og snerti þó stórfellt atriði og áhugamál kennara fram borin við ráðh. á liðnu hausti og fram undan var uppsögn á fimmta hundrað framhaldsskólakennara í landinu. En áhugi hæstv. menntmrh. á því að sýna lit fyrir sitt leyti, leggja sitt af mörkum, var ekki meiri en þetta: að stöðva störf nefndarinnar 22. febr. s. l. Og það er fyrst í gær — kannske í tilefni þeirrar umræðu sem á sér stað í dag — að hæstv. ráðh. heimilar nefndinni að koma saman á nýjan leik og ganga frá því að hún muni sofa á málinu til hausts. Það var það sem ráðh. upplýsti í umr. áðan. Nefndin, sem þarna var skipuð, mundi sofa á málinu til hausts, sagði ráðh. Hins vegar hefði hún sýslað ýmislegt í millitíðinni, það hefði nú ekki verið svo að ekkert hefði gerst. Ég hefði óskað þess að hv. þm. Kristín Tryggvadóttir hefði verið hér á þingi til að greina okkur frá þeim störfum sem þarna hefðu átt sér stað. Ég tel mér vera fullkunnugt um að engin slík nefndarstörf hafa átt sér stað í millitíðinni, óopinber eða hálfkveðin, frá 22. febr. þangað til í gær, þó að hæstv. ráðh. fullyrti annað. (Menntmrh.: Veit hv. þm. betur um það?) Það er sjálfsagt fyrir hæstv. ráðh. að nota stólinn til að koma sinni vitneskju á framfæri um þetta efni.

Hæstv. ráðh. tók fram þau rök gegn því að samþykkja þetta frv. hér á Alþingi að með því verði réttur kennara að skólum landsins þrengdur þannig að ekki verði unnt að manna skólana og vitnaði þá til þeirrar þróunar og þeirrar ólgu sem ríkt hefði á liðnu skólaári. Hvar er nú upphafið og hvar er hér endir máls? Hvað er orsök og hvað er afleiðing? Það er eðlilegt að spurt sé í þessu samhengi. Skyldi það ekki vera þannig, hæstv. menntmrh., að ein ástæðan fyrir því hvernig komið er undir stjórn hæstv. ráðh. í skólum landsins að því er kennara varðar, hug manna til kennarastarfa, vilja til þess að axla ábyrgð þess, sé afstaða stjórnvalda, þeirrar ríkisstj. sem nú situr og hefur skert kjör kennara sem annarra launþega og skellt skollaeyrum við óskum kennara og og slegið á framrétta hönd um samstarf við þá um hagsmunamál skólanna og þá einnig um hagsmunamál kennarastéttarinnar sem hljóta að fara saman að verulegu leyti? Ég óttast það vissulega að erfiðara verði að manna skólana, eins og það er orðað, fá réttindakennara til starfa í skólum landsins á komandi skólaári, en það var í upphafi þess árs sem nú er liðið. Ég óttast það og ástæðan fyrir því liggur í augum uppi fyrir öllum þeim sem hafa augun opin. Hún liggur í sögu síðasta skólaárs, samskiptum kennara við stjórnvöld þau sem nú sitja, afstöðu hæstv. menntmrh. og annarra ráðh., kannske sérstaklega Sjálfstfl. en líka Framsfl. því hæstv. forsrh. afhenti einnig yfirlýsingar og loforð í hendur kennara í aprílmánuði s. l. — loforð sem ansi lítil innistæða reyndist vera að baki. Að uppkvöddum kjaradómi, sem ríkisstj. vísaði launadellunni við kennara til, var uppskera kennara með full réttindi, sem eru að hefja störf, tæpar 3000 kr. í launum og á sama tíma er ekki tekið undir óskir kennara um að lyfta réttindum þeirra og mati á kennarastarfinu eins og felst í því frv. sem hér er til umr.

Ég gæti, virðulegi forseti, minnt hér á marga fleiri þætti. Ég skal ekki skiljast við þetta mál án þess að svara fsp. hv. formanns menntmn. sem spurði um ákvæði 3. gr. þessa frv., um takmarkað og/eða tímabundið leyfi til kennslustarfa þegar lög þessi taka gildi. Hv. þm. hefur sennilega aldrei séð viðlíka orðalag, að menn fái umþóttunartíma eða að það séu undantekningar heimilaðar, takmarkanir og það tímabundnar takmarkanir til starfa. Í þessum ákvæðum, svo og í ákvæði til bráðabirgða í þessum lögum, er verið að ganga til móts við þau sjónarmið og það ástand sem nú ríkir, þar sem talsvert skortir á að í skólum landsins séu starfandi kennarar með fyllstu réttindi og er verið að gera ráð fyrir að hægt sé að veita takmarkað leyfi fyrir kennarann til þess í senn að bera starfsheitið „kennari“ og sinna starfi tímabundið. En um það er einnig fjallað í tengslum við þetta frv. að greitt verði fyrir því að kennarar geti aflað sér fullra réttinda, stjórnvöld greiði fyrir því.

Hv. þm. Halldór Blöndal var hér sem oftar í tengslum við umr. um málefni kennara að vitna til þess að víða væri að finna ágætismenn sem fást við kennslu og rækja starf sitt vel og leysa það vel af hendi. Það eru engin ný sannindi og það gildir um öll störf að við getum fundið menn, ef þeir fá að spreyta sig í slíkum störfum, sem leysa þau vel af hendi. Sem betur fer er slíka að finna. En það þarf ekki þar með að gilda um stéttina sem slíka að hún sé ekki betur stödd ef til hennar eru gerðar tilskildar ákveðnar kröfur. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir mörgu kennarar sem enn eru í starfi og bera heitið kennari, hafa heimild til þess að óbreyttu, munu verða manna fyrstir til að afla sér fullra tilskilinna réttinda að því frv. samþykktu sem hér er til umr. Þannig er hér aðeins verið að hártoga, skjóta sér á bak við með rökleysum í raun.

Ég tel það hins vegar góðra gjalda vert, vegna þess, að það er upplýsandi, að þessir þrír hv. þm. Sjálfstfl. skuli hafa tekið þátt í umr. með þeim hætti sem verið hefur. En ég bið þá í fullri vinsemd, og þar með hæstv. menntmrh. einnig, að endurskoða sinn gang, reyna nú að nota sumarið að loknum þingstörfum til að ná áttum í samskiptum við kennarastéttina í landinu, reyna að átta sig á því hversu mikið er í húfi að þar náist annars konar samband, aðrir samskiptahættir en upp voru teknir af núverandi hæstv. ríkisstj. við kennarastéttina og sem leitt hafa til slíkra átaka að hæstv. menntmrh. benti á að slíkra væru ekki dæmi í sögunni fram til þessa. Þá hefðu þessi átök. sem hafa kostað mikið til þessa í skóla- og uppeldisstarfi í landinu, ekki verið með öllu til einskis. En dýrkeypt er sú reynsla orðin sem þarna er fengin. Það skulu verða mín lokaorð að ég vona að hæstv. menntmrh. og samflokksmenn hans og ríkisstj. öll nái einhverjum áttum í þessum efnum á því sumri sem nú er hafið.