19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6930 í B-deild Alþingistíðinda. (6257)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það kom glöggt fram í seinni ræðu hv. þm. að hans áhersla í þessu máli er fyrst og fremst af pólitískum toga, ekki vegna umhyggju fyrir kennarastéttinni heldur til þess að vekja pólitískar deilur. Það var kjarninn í málflutningi hans og ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst þessi málflutningur ekki hæfa því efni sem hér er til umræðu.

Ég vísa því algjörlega á bug að ég hafi með einu einasta orði hallað á kennarastéttina. Ég skora á þennan hv. þm. að nefna eitt einasta orð sem ég hef sagt þar sem ég hef brigslað kennarastéttinni um eitt eða annað, enda sæti síst á mér að gera slíkt. Á hitt lagði ég áherslu í fyrsta lagi. að eins og þetta frv. er fram sett dregur það úr starfsöryggi margra kennara sem starfað hafa um árabil og leyst sín störf vel úr hendi og ekki nóg með það, heldur felur þetta frv. í sér að þessu fólki verður eftirleiðis bannað að kalla sig kennara, ef að lögum verður. Það stendur skýrt í 1. gr. þessa frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt til að bera starfsheitið kennari hefur sá einn sem fullnægir skilyrðum laga nr. 51/1978, um embættisgengi kennara og skólastjóra.“

Það er þess vegna rangt, sem þessi hv. þm. sagði hér áðan, að takmarkað og/eða tímabundið leyfi til kennslustarfa gæfi rétt til þess að bera þetta heiti á meðan viðkomandi gegndi kennarastörfum.

Hins vegar væri fróðlegt fyrir deildina að fá upplýst hvaða heiti hann vildi velja slíku fólki. Hann gerði áðan samanburð og tók það dæmi að kennara sem hefði full starfsréttindi skyldi löggilda með svipuðum hætti og lækni og tók til samanburðar hómópata eða skottulækni. Nú veit ég ekki hvort þessi samanburður er réttlátur eða sannur. Ég efast um að sami munur sé á kennaraskólagengnum manni eða öðrum sem unnið hefur að slíkum störfum, kannske um árabil. og háskólalærðum lækni eða hómópata. smáskammtalækni. Ég efast um að þessi samanburður sé sannur. Mér finnst hann satt að segja ekki viðeigandi. Eins og hv. þm. sagði áðan lesa ýmsir kennarar það sem skrifað stendur í þingtíðindum og ég veit að þeir kunna hv. þm. engar þakkir fyrir þessi ummæli.

Þar sem ég hef komið nálægt kennslustörfum hefur ekki verið nein spenna á milli þessa fólks. Það hefur reynt að vinna saman. Ég held að hugur kennara standi til þess að þeir sem ekki hafi full starfsréttindi fái möguleika á því að mennta sig betur, eins og gamlir kennarar vilja raunar sjálfir vera stöðugt á námskeiðum að bæta og auka þekkingu sína.

En það var annað sem þessi hv. þm. sagði. Hann vitnaði til heilbrigðisstéttanna. Hann sagði: Það hefur lengi viðgengist að það er lögverndað að bera heitið læknir. Hvernig stendur á því að kennarar hafa ekki fengið lögverndun á sínu starfsheiti eins og læknar? spurði þessi hv. þm. Ég veit ekki betur en fyrrverandi formaður Alþb., Ragnar Arnalds, hafi um skeið verið menntmrh. Ekki kom hann því í verk að kennaraheitið skyldi lögverndað á sínum tíma. Þessi hv. þm. hefur líka setið í ríkisstjórn lengi. Ég man ekki eftir því að undir þeim kringumstæðum gerðist hann einhver sérstakur talsmaður þess að lögvernda kennaraheitið. Það er fyrst nú sem þessi krafa vaknar, sem þetta kemst á dagskrá. Hann veit það, þessi hv. þm., að enginn menntmrh. hefur unnið jafnmikið að þessu máli og sá sem nú situr. Við vitum það líka að þessi hv. þm. hljóp til á s. l. hausti, þegar hann vissi hvar þetta mál var statt, og flutti frv. sitt í auglýsingaskyni eins og honum er svo gjarnt að gera. Og við urðum vitni að því að hann talaði hér á skrýtnum nótum úr þessum ræðustól og gaf undir fótinn til þess að reyna að slá ryki í augu fólks til þess að reyna að koma stoðum undir fullyrðingar sem hann hafði engar sönnur fyrir. Þetta er sá málflutningur sem hann hefur viðhaft í þessu máli og er honum síst til sóma.

Það er hárrétt að við erum hér að fjalla um andlega velferð uppvaxandi kynslóðar í landinu. En hvernig skyldi nú standa á því að færri sóttu háskólanám fyrrum en nú er? Þessi hv. þm. heldur því fram að núverandi menntmrh. hafi ekki komið þar við sögu að fyrir því séu líkindi að fleiri menntaðir kennarar komi til starfa á næstu árum en verið hefur um hríð. Hann gleymir þá hinu, hversu búið er að langskólafólki nú. Námslán eru að fullu greidd nú og betri skilyrði fyrir námsfólk en áður var. Auðvitað mun þetta til frambúðar valda því að menntafólk fæst til kennslustarfa. Auðvitað erum við báðir sammála um að öllum mönnum er fengur að háskólanámi, fengur að menntun, og við vitum það öll, sem hér erum inni, að þeir kennarar sem ómenntaðir eru eru smám saman að týna tölunni. Það er fólk annarrar kynslóðar en þeirrar sem nú er að setjast í háskóla. Það er fólk sem á sínum tíma hafði ekki ráð né efni á því að setjast í háskóla að loknu menntaskólanámi, oft og tíðum m. a. vegna þess að fólk festi ráð sitt og hafði ekki efni á því að stunda háskólanám. Þetta vitum við um.

Það er laukrétt hjá hv. þm., og á bæði við um fiskverkunarfólk, kennara og alla aðra þegna þessa þjóðfélags, að launakjörin eru ekki jafngóð og áður. En hvenær byrjaði kaupmátturinn að hrynja? Hefur þessi hv. þm. séð línurit yfir kaupmáttinn og hvernig hann hrundi eins og foss ofan af bergi frá miðju ári 1982 að miðju ári 1983? Var það ríkisstj. sem nú situr sem eyðilagði allan kaupmátt í landinu, undirstöður efnahagslífsins og atvinnulífsins með sívaxandi verðbólgu frá ári til árs? Var það ríkisstj. sem nú situr sem skildi svo við eftir mesta góðæri sem yfir þetta land hefur gengið að við söfnuðum erlendum skuldum og skilyrði til þess að byggja upp nýjar atvinnugreinar, auka hagræðingu í rekstri og þar fram eftir götunum voru verri en nokkru sinni fyrr? Við vitum svarið. Auðvitað var þetta sú ríkisstj. sem áður sat. Við vitum hversu sterk tökin í efnahagsmálum voru strax eftir stjórnarskiptin og við vitum hver árangurinn hefur orðið.