19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6932 í B-deild Alþingistíðinda. (6259)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það var ekki ætlan mín að blanda mér í þessar umr., en sér í lagi eitt atriði, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Austurl., varð þess valdandi að mig langar til að leggja nokkur orð í belg.

Ekki skal ég draga úr mikilvægi kennarastéttarinnar og að hennar verkefni eru mikil, en það eru fleiri stéttir sem ekki eru neitt síður nauðsynlegar en kennarastéttin og ýmsar aðrar þær stéttir sem fengið hafa lögverndun á sínum starfsréttindum. Hafi ég tekið rétt eftir heyrði ég ekki betur en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segði að hann hefði verið þeirrar skoðunar að lögvernda ætti störf t. d. fiskvinnslufólks. Sé þetta rétt eftir tekið hjá mér kemur mér það einkennilega fyrir sjónir að slíkt skuli ekki hafa komið opinberlega fram alla þá tíð sem hv. þm. hefur gegnt ráðherrastörfum í ríkisstjórn og hans flokksbræður farið með ráðuneyti sem þessi málefni heyra undir. Ég man ekki betur en þessi hv. þm. hafi verið ráðh. frá 1978 nær samfellt án þess að ég a. m. k. hafi heyrt þess getið opinberlega eða eftir honum haft að hann væri þeirrar skoðunar að hann teldi að það ætti að lögvernda störf fiskvinnslufólks. Ég vildi gjarnan óska eftir því af hálfu hv. þm. að hann léti þd. í té hvenær slíkt hafi komið fram í hans ráðherratíð og hans samflokksmanna á árabilinu 1978–1983, á þeim tíma sem hv. þm. var ráðh. og hefði ásamt sínum flokksbræðrum og meðráðherrum getað ráðið ferðinni í þessum efnum. Líklegt finnst mér að ástand fiskvinnslunnar og staða þess fólks sem við hana vinnur væru ekki jafnslæm og nú er ef þessi skoðun hefði verið í alvöru sett fram og henni framfylgt af þeim hv. þm. sem hér á hlut að máli og öðrum þeim sem í hans ráðherratíð sátu í ríkisstjórn. Mér finnst þetta eitt dæmið enn um að menn tala öðru máli í stjórnarandstöðu en þegar þeir hafa valdið til að framkvæma.

Ég er ekki með þessu á nokkurn hátt að kasta rýrð á kennarastéttina sem slíka, en ég er þó þeirrar skoðunar að það sé a. m. k. orðin spurning hvort við höfum ekki gengið nú þegar of langt í lögvernd starfsstétta og starfsheita. Kannske þurfum við að ganga þá braut til enda til að geta svo afnumið allt í einu lagi. Ég a. m. k. er þeirrar skoðunar að það sé ekki síður ástæða til að lögvernda starfsheiti t. d. fiskvinnslufólks. Það er ekki síður mikilvægt í okkar þjóðfélagi að lögvernda ýmsar aðrar stéttir.

Ég varð undrandi á því að heyra þetta eftir að hv. þm., sem hér á hlut á að máli, hefur gegnt ráðherraembætti þetta langan tíma og horft upp á það að fiskvinnslufólk hefur verið rekið út af vinnumarkaðinum, úr vinnu, stundum oft í hverjum mánuði. Því hefur verið vísað heim oft í hverjum mánuði á því tímabili sem þessi hv. þm. var ráðh. ásamt sínum flokksbræðrum og ýmsum öðrum sem fóru með þessi málefni. (GSig: Hvaða mál er á dagskránni?) Ég er ekki hissa þó að hv. þm. Garðar Sigurðsson spyrji. Er honum ekki ljóst hvað um er að ræða hér? Það er lögverndun á starfsheiti kennara. En þessum hv. þm. finnst það auðvitað ekkert koma við lögverndun á starfsheiti annarra stétta, eins og t. d. fiskverkunarfólks. Hann er þm. fyrir Suðurlandskjördæmi, þessi hv. þm., og finnst það ekki skipta neinu máli hver staða fiskverkunarfólks er. Þessi hv. þm. átti líka aðild að ríkisstjórn frá 1978 — megninu — til 1983 og gat þá haft áhrif á að bæta stöðu fiskverkunarfólks. En það er rétt að upplýsa þennan hv. þm. um að þess vegna geri ég þetta að umræðuefni að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hóf umr. um þetta áðan undir þessum dagskrárlið.

Ég skal ekki ergja hv. þm. þeirra Sunnlendinga meira með þessu tali, en vil gjarnan ítreka þá spurningu til hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar hvenær hann setti fram þá skoðun á þeim árum sem hann var ráðh. og hans flokkur gat haft afgerandi áhrif til að breyta að t. d. ætti að lögvernda störf fiskverkunarfólks á Íslandi. Hvenær var slíkt sett fram af hans hálfu eða hans flokks á þeim tíma sem tækifæri var til að hrinda því í framkvæmd, þegar flokkurinn átti aðild að meirihlutastjórn á Íslandi?