19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6935 í B-deild Alþingistíðinda. (6261)

119. mál, lögverndun á starfsheiti kennara

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, en vil segja örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns.

Ég sagði strax að ég hefði ekki ætlað mér að taka þátt í umr. um þetta mál nema vegna þess að hv. 5. þm. Austurl. gaf sérstakt tilefni til þess með tali sínu um fiskvinnslufólk. Spurning mín til hans var sú: Hvenær var það sem hann setti fram í sinni ráðherratíð eða á þeim árum sem hans flokkur gat ráðið ferðinni í þessum efnum þá skoðun að lögvernda ætti starf fiskvinnslufólks? Við því kom að sjálfsögðu ekkert svar.

Það er út af fyrir sig rétt, sem hv. þm. sagði, að ýmsar ályktanir hafa sést frá Alþb. um þessi efni. en fyrst og fremst hafa þær sést þegar sá flokkur hefur verið í stjórnarandstöðu, en minna á þeim borið þegar sá flokkur hefur haft til þess tækifæri að hrinda slíkum málum í framkvæmd með stjórnaraðild, ég tala nú ekki um þegar ráðh. viðkomandi flokks hafa farið með málaflokka sem hér að lúta. Það er það sem á skorti.

Hv. þm. sagði að hann hefði stutt frv. sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson o. fl. hefðu flutt nýverið og verið fellt. Það er rétt. Ég kalla það ekkert sérstakt framtak hjá hv. 5. þm. Austurl. þó að hann rétti upp hendina með slíku frv. hér í þd. Spurningin hefur verið og er: Hvernig hefur þessi hv. þm. og Alþb. sem heild skilað þessu hlutverki í reynd þegar það hefur haft tækifæri til þess að koma hlutunum í framkvæmd? Þar er mínusinn, að mínu viti, hjá þessum hv. þm. og öðrum hv. þm. Alþb. í áhrifastöðum.

Hv. þm. minntist hér á félagsmálapakka. Margir þeirra félagsmálapakka, sem lofað var í ráðherratíð þeirra hv. þm. sem Alþb. tilheyra, hafa verið sviknir. Það hefur verið rifjað upp hér í þinginu áður og væri sjálfsagt ástæða til þess að gera það enn, en ég skal ekki gera það tímans vegna nema frekara tilefni gefist til. (SvG: Komdu með dæmi.) Hv. þm. Svavari Gestssyni, 3. þm. Reykv. , hefur margoft verið sýnt fram á að hann og aðrir hv. þm. Alþb. sviku sem ráðherrar gefin fyrirheit í samningum og félagsmálapökkum frá fyrri tíð, gagnvart sjóðunum ekki síður en öðrum. (SvG: Ekki rétt.) Það er hægur vandi að segja: Ekki rétt, ekki rétt. Því hefur ekki verið mótmælt með rökum af hæstv. fyrrv. félmrh. eða heilbr.- og trmrh. að þau væru svikin loforðin sem hann gaf meðan hann sat í ráðherrastóli. Líklega eru hv. 5. þm. Reykv. og flokkur hans sem heild að uppskera vegna þeirra svika sem hæstv. fyrrv. ráðh. í broddi fylkingar flokksins hafa gefið loforð um en ekki staðið við. Menn uppskera alltaf eins og þeir sá. (Gripið fram í: Kratar líka?) Að sjálfsögðu kratar líka. Það sýna síðustu skoðanakannanir. Þetta hefði hv. þm. ekki átt að minnast á.

Mér finnst, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að það vanti enn svarið við því sem spurt var um áðan: Hvenær var það í ráðherratíð hv. þm. og ráðherratíð Alþb.ráðh. á árunum 1978–1983 sem sú skoðun heyrðist og var fyrir henni barist af hálfu stjórnvalda þá að tryggja öryggi fiskverkunarfólks, starfsréttindi þess? Þeirri spurningu er enn ósvarað og ég hygg að hv. þm. eigi lítið sem ekkert svar við henni eins og málin hafa þróast og eins og menn hafa staðið að málinu þegar þeir hafa haft tækifæri til þess að hrinda slíku í framkvæmd.