19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6936 í B-deild Alþingistíðinda. (6264)

86. mál, áfengislög

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég legg til að málið verði samþykkt eins og það kemur frá Ed. Ástæður fyrir þeirri skoðun minni eru:

Í fyrsta lagi er ekki nema einn dagur eftir af þingstörfum og í öðru lagi er Ed. yfirfull af málum. Þar er núna reynt á tveimur dögum að afgreiða mál sem tók tvo mánuði að afgreiða í Nd. Ég hygg að með tilliti til þessara tveggja atriða sé hverju máli stofnað í hættu sem sent er til afgreiðslu þangað upp. Ég tel að það sé þess vegna ástæða til að taka við málinu eins og það kemur frá Ed. og afgreiða það óbreytt, senda það ekki þangað aftur. Þannig fæst þjóðaratkvæði í málinu. Þannig getur Alþingi tekist á við það síðar. Þá er komin niðurstaða að því leyti að þjóðin hefur gefið til kynna sína afstöðu í málinu og boltinn er þá ótvírætt hjá þinginu. Þessari neyðarlegu tvíhyggju sem hefur þjáð þingheim í tvö ár, þingið — þjóðin, þingið — þjóðin, verður þá lokið og þingið á þá einskis annars úrkosti en að afgreiða málið. Ég held að sérhver önnur afgreiðsla stofni málinu í þá hættu að við stöndum í haust í nákvæmlega sömu sporum og undanfarin tvö haust, að menn flytja frv. til l. um að þingið ákveði þetta eða að menn flytji frv. til L um þjóðaratkvgr. um bjór og síðan lendi málið í tómarúmi á milli þeirra sem vilja að þjóðin ákveði og hinna sem vilja að þingið ákveði.

Ég hef komist að þessari niðurstöðu af praktískum ástæðum. Ég tel að þingið eigi að skila efnislegri niðurstöðu sem auðveldi að það verði tekin afstaða í málinu. Það er best gert á þann hátt, sem ég hef lýst, að taka við málinu eins og það kemur frá Ed., samþykkja það og hafa þjóðaratkvgr.

Síðan tekst þingið á við óumdeilanlega skyldu sína og menn hafa þá ekki í neitt annað hús að venda. Halldór Blöndal: Herra forseti. Það hefur þegar reynt einu sinni á það hér í þessari hv. deild hvort menn séu ginnkeyptir fyrir því að hafa þjóðaratkvgr. um áfengt öl og komið hefur í ljós að það var fellt mjög myndarlega. Eftir atkvgr. í Ed. liggur það fyrir að meiri hl. alþm. hefur greitt atkvæði gegn þjóðaratkvæðagreiðslu. Ætti það að verða hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni til umhugsunar eins og hann hefur talað undanfarið.

Ég flyt hér ásamt hv. 6. þm. Reykv. brtt. sem er í þá veru að frv. verði breytt í sitt fyrra horf, eins og deildin afgreiddi það héðan enda álít ég að það sé á mörkunum að afgreiðsla Ed. á frv. sé þingleg. Ég held að breyting Ed. á efni frv. valdi því að ekki sé lengur hægt að tala um að þetta sé frv. til l. um breyt. á áfengislögum nr. 82/1969, heldur eigi frv. að heita, eins og það kom frá Ed.: frv. til l. um þjóðaratkvæðagreiðslu. Vil ég bera það undir hæstv. forseta hvort hann er ekki sammála mér um að núverandi fyrirsögn dugi ekki við frv. eins og það kom frá Ed. Ég held að það séu alveg hreinar línur.

Ég held að allir menn viti að þetta var aðferð þeirra þm. sem þar voru í meiri hluta til þess að komast hjá því að taka afstöðu til málsins, og er það nú næsta napurlegt og nöturlegt, jafnlanga og glæsilega sögu og sumir þeirra þm. eiga í baráttu sinni fyrir áfengum bjór hér á landi.

Ég vil velta því upp hvað sé átt við með þjóðaratkvgr. um það hvort bjór að styrkleika 4–5% að rúmmáli skuli borinn undir atkvæði þjóðarinnar. Þessi þjóðaratkvgr. á að vera ráðgefandi. Nú erum við hér með mikið af sterkum drykkjum. Við erum með viský, við erum með vodka, við erum með ákavíti o. s. frv. Við erum með létt vín, borðvín, alls konar tegundir af léttu víni. Það dettur engum manni í hug að bera það undir þjóðina hvort rétt sé t. d. að menn megi drekka sterk vín, borðvín, sérrý eða portvín. Nei, það sem skal bera undir þjóðina er hvort menn megi drekka hér bjór af styrkleikanum 4–5%. Það er allt og sumt.

Það er ekki einu sinni verið að spyrja þjóðina að því hvort greiða eigi atkv. um að það eigi að banna öllum Íslendingum að drekka bjór af styrkleikanum 4–5%. Nei. Hæstv. dómsmrh., sem leyfir öll bjórlíkin hér um allan miðbæinn, telur rétt að bera þetta undir þjóðina, en ekki hitt hvernig mönnum falla þær bjórstofur eða hitt þó heldur sem vaxið hafa upp.

Það er ekki heldur verið að spyrja þjóðina að því hvort henni þyki rétt að áfengur bjór skuli vera einkadrykkur þeirra manna sem fara til útlanda.

Þó svo að þetta yrði borið undir þjóðina eins og það kemur frá Ed. stæði eftir sem áður að ferðamenn mættu koma með áfengan bjór til landsins og eftir sem áður stæði að bjórlíki mætti viðhafa hér í öldurhúsum. Þetta er nú reisnin yfir þeirri þjóðaratkvgr. sem þessir hv. þm. eru að leggja til.

Svo á þjóðaratkvgr. að vera ráðgefandi. Hugsum okkur að 45% þjóðarinnar segðu: Ég vil heldur drekka áfengi af styrkleikanum 4–5% en vín sem er miklu sterkara. Eiga þá 55% að geta sagt: Þú mátt ekki drekka svo veikt áfengi. Hvað finnst mönnum að sé hæfilegur meiri hluti til þess að banna mönnum að drekka 4–5% áfengi í ráðgefandi leiðbeiningu til manna um þjóðaratkv. — einkanlega þegar fyrir liggur að þeir mega drekka þetta áfengi hér á landi ef þeir ferðast til útlanda? Það er m. a. s. þannig að ef þeir kaupa innlendan bjór mega þeir hafa með sér 24 dollur, en ef hann er erlendur mega þeir hafa með sér tólf. Svo nákvæmt skal það vera. Og þessi bjór, sem menn koma með til landsins, má vera af öllum mögulegum styrkleika án nokkurrar lagastoðar. En svo þegar kemur frv. um að menn megi að réttum lögum kaupa hér 4–5% bjór skal það undir þjóðaratkv. Svo nákvæmt skal það vera.

Reykvíkingar hafa t. d. heldur aldrei verið spurðir að því, eins og t. d. menn á Akureyri, hvort þeir vilji hafa áfengisútsölu í Reykjavík. Væri ekki rétt að nota tækifærið, ef þjóðaratkvgr. yrði, til að spyrja Reykvíkinga að því hvort þeir kæri sig nokkuð um að hafa hér áfengisútsölu? Mér fyndist það. Og hvar eru nú gömlu góðtemplararnir úr því að ekki kemur fram hugmynd um að nota þetta tækifæri til að spyrja menn að því hvort þeir vilji yfirleitt nokkurt vín í landinu? (ÓÞÞ: Er ekki einn í pontunni?) Af hverju ekki að breyta þessu og segja: Við skulum hafa þjóðaratkvæði um það hvort yfirleitt megi selja vín í þessu landi?

En það eru ekki svo stórar og miklar spurningar sem verið er að spyrja um. Það eru 4–5 prósentin fyrir þá sem ekki fara til útlanda. Það er allt og sumt. Ekki er nú reisnin mikil. Þó er það nú skárra hjá flm. þessa bjórfrv., formanni Alþfl. Hann er þó röggsamari en hinir að því leyti til að hann vill hafa atkvgr. bindandi. Og auðvitað er það rétt. Úr því að fara á út í atkvgr. á hún að vera bindandi. Að því leyti er hans tillöguflutningur vitlegri. En eftir sem áður ætti þetta að heita frv. til l. um þjóðaratkvgr.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég var ekki einn þeirra manna sem flutti þetta mál inn í þingið. Ég tel á hinn bóginn rétt, úr því að búið er að gera það, að alþm. taki skýra og beina afstöðu og líka til þess hvað þeir meina. Hvað eiga þeir við með „ráðgefandi“? Hvernig stendur á því að þjóðaratkvgr. er aðeins um bjór milli 4 og 5% og þar fram eftir götunum? Það eru ýmsar spurningar sem vakna, en kannske er sú ástæða þyngst á metunum hjá mér þegar ég er staðráðinn í því að leggjast gegn þjóðaratkvgr. að mér óa allar þær áfengisumræður sem maður á yfir höfði sér á þessu sumri ef til þjóðaratkvgr. kæmi.