19.06.1985
Neðri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6943 í B-deild Alþingistíðinda. (6271)

210. mál, selveiðar við Ísland

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég verð að segja að þetta eru allfurðuleg vinnubrögð þegar þetta mál er annars vegar. Þetta er mikilvægt mál. Ég held að það séu margar vikur eða mánuðir síðan ég óskaði eftir að segja nokkur orð í þessu máli. Síðan hefur þetta stöðugt verið á dagskrá. Ég hef marginnt hæstv. forseta eftir því hvort ætlunin væri að ræða málið, en ávallt fengið það svar — eða alltaf hefur hæstv. forseti gefið það í skyn — að það yrði ekki hreyft við þessu máli fyrst um sinn. Nú á þessum síðustu dögum þingsins um miðnæturskeið kemur allt í einu andinn yfir hv. alþm. og tekið er að ræða selmálið sem svo er nefnt.

Það er varla að ég hafi mikla löngun til að fara að ræða þetta mál efnislega núna um lágnættið. Ég held að það sé alls ekki unnt. En ég vil þó minnast á örfá atriði. Þetta frv. eða frv. í einhverju formi um þessi efni er að mínum dómi alveg nauðsynlegt. Þetta er stórmál, stærra en margir hyggja. En það verður einhvern veginn að ná betri tökum á því. Sú nefnd sem um það hefur fjallað hér í hv. Nd. er klofin og samstaða er ekki um málið. Ég viðurkenni það fyllilega að á síðustu árum hefur selnum, sérstaklega útselnum, fjölgað það mikið að það virðist svo sem gera þurfi ráðstafanir gegn offjölgun hans með einhverju móti. En hvernig á að ná tökum á því er annað mál. Vitanlega er þetta stórkostlegt vandamál fiskvinnslunnar, hið svokallaða hringormavandamál, þó að ekki séu sönnuð tengslin milli selanna og hringormanna í fiskinum, að því er ég best veit. En eigi að síður er hringormavandamálið það stórt og það þjóðhagslega mikilvægt að það verður að gefa þessu máli fullan gaum.

Í þessu frv. felst svo m. a. að það stendur til að fella úr gildi lög sem lengi hafa gilt á Breiðafirði um selaskot, um selaskot á Breiðafirði og uppidráp frá 1925 og þó miklu lengur, þ. e. þar sem öll selaskot eru bönnuð á Breiðafirði og fjörðum þeim sem inn úr honum ganga fyrir innan línu sem hugsast dregin úr Eyrarfjalli sunnan Breiðafjarðar í Stagley og frá Stagley hálfa mílu frá Oddbjarnarskeri nyrðra í Bjargtanga í Barðastrandarsýslu. Nú má vel vera, og ég skal ekki neita því, að það þurfi að endurskoða þessi öldnu lög og breyta þeim, en við nánari athugun tel ég þó varhugavert að afnema þau á þennan máta að fullu.

Ég viðurkenni að á þessum slóðum þarf að fækka sel, sérstaklega útselnum. En það verður að gera það á skipulegan hátt. Og ég hugsa til þess með hryllingi ef inn um allan Breiðafjörð ösla hraðbátar skjótandi í allar áttir. Ég get ekki fallist á það að litt athuguðu máli.

Auðvitað mætti margt fleira um mál þetta segja. Niðurstaða mín er sú að eins og málið ber að nú get ég með engu móti samþykkt það.