19.06.1985
Efri deild: 105. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6962 í B-deild Alþingistíðinda. (6290)

98. mál, sóknargjöld

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Frv. til l. um sóknargjöld o. fl. var samþykkt hér í hv. Ed. fyrir alllöngu. Það fór síðan til hv. Nd. og voru þar gerðar á því tvær breytingar. Þessar breytingar eru tæknilegs eðlis.

Í fyrsta lagi öðlist lögin gildi hinn 1. jan. 1986, en eins og lögin voru samþykkt frá Ed. var sagt að þau öðluðust gildi þegar í stað. Það er að sjálfsögðu tæknilega ógerlegt að innheimta sóknargjöld eftir þessum nýju lögum fyrr en á næsta ári þannig að það er mjög eðlilegt að þau taki gildi um næstu áramót.

Í öðru lagi var gerð nokkur orðalagsbreyting á ákvæði til bráðabirgða um innheimtu sóknargjalda og var samþykki brtt. í hv. Nd. svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Á meðan innheimtumaður ríkissjóðs nýtur óbreyttra lögkjara skv. bráðabirgðaákvæði I laga nr. 41/1984 skal þóknun fyrir innheimtu sóknargjalda renna til innheimtumannsins og fara eftir því sem um semst.“

Menntmn. Ed. hefur fjallað um þetta mál og er sammála um að mæla með þessari breytingu.