15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

Umræður utan dagskrár

Forseti (Ingvar Gíslason):

Dagskrá þessa fundar er býsna löng, 14 mál eru á dagskránni. Eigi að síður stendur svo á að tveir hv. þm. hafa óskað eftir því að mega segja hér nokkur orð utan dagskrár. Hef ég orðið við þeirri beiðni gegn því að þeir ráðherrar, sem hv. þm. ætla að beina máli sínu til, séu því samþykkir og svo mun vera. En ég vænti þess að þær umr. sem nú munu hefjast þurfi ekki að verða úr hófi fram á lengdina. Hugsun mín er sú að fyrst og fremst tali þeir hv. þm. sem þegar hafa óskað eftir því að hreyfa hér málum utan dagskrár og síðan viðkomandi ráðh., en úr því verði umr. sem allra stystar og vonandi gætu menn orðið við beiðni minni um að þær yrðu nánast engar.

Hv. 2. landsk. þm. hefur óskað eftir að taka til máls utan dagskrár og beina máli sínu til hæstv. menntmrh.