20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6967 í B-deild Alþingistíðinda. (6316)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 961 hef ég ásamt fjórum öðrum hv. þm., Karvel Pálmasyni, Guðmundi Einarssyni, Guðrúnu Agnarsdóttur og Ellert B. Schram, borið fram fsp. til hæstv. sjútvrh. um Ríkismat sjávarafurða. Fsp. er í fjórum liðum. Skömmu eftir að hún var lögð fram barst mér í hendur grg. frá Sigurði Líndal prófessor, þar sem hann fjallar um reglugerð nr. 137/1985 um fyrirkomulag mats og eftirlits með sjávarafurðum til útflutnings og hvort sú reglugerð sé í samræmi við lög nr. 53/1984 um Ríkismat sjávarafurða. Það er í stuttu máli, herra forseti, niðurstaða prófessorsins að reglugerð nr. 137/1985 sé ekki í samræmi við lögin.

Fyrsta fsp. er á þessa leið: „Hver ber ábyrgð á mistökum sem verða í útflutningsmati?“

Auðvitað er það ljóst að skv. lögum ber Ríkismat sjávarafurða ábyrgð á matinu eftir því sem kostur er en fiskeigendur hljóta síðan að bera skaða af mistökum sem verða. Mistök í útflutningsmati geta síðan lent á þjóðinni allri með verri markaðsaðstöðu. Slík mistök hafa átt sér stað, bæði varðandi útflutning á saltfiski og útflutning á rækju á síðastliðnu ári. Þarna er um að ræða verulegt tjón fyrir þjóðina, bæði beint en þó kannske sérstaklega óbeint, og það er óútreiknanlegt og erfitt að átta sig á hverju það getur numið í upphafi.

Ég held að það sé af þessum ástæðum alveg óhjákvæmilegt, vegna þeirra mistaka sem hafa orðið, að fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh. hver ber að hans mati ábyrgð á mistökum sem verða í útflutningsmati, eins og þeim sem áttu sér stað á síðasta ári bæði varðandi farm af saltfiski og rækju.

Önnur spurningin í fsp. er á þessa leið: „Hvernig samrýmist það ákvæði 18. gr. laga um Ríkismat sjávarafurða, nr. 53/1984, að fá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda í hendur yfirmat á saltfiski?“

Skv. þeirri lögfræðilegu úttekt sem Sigurður Líndal prófessor við Háskóla Íslands hefur gert er hér um skýlaust lögbrot að ræða, sbr. II kafla grg. hans þar sem fjallað er um reglugerðina. Nú er ekki kostur á því að lesa grg. Sigurðar Líndals upp í heild í knöppum fyrirspurnatíma. En niðurstaða hans í grg. í II kafla hennar er sú að hér sé um skýlaust lögbrot að ræða. Þrátt fyrir það er þetta heimilað í reglugerðinni og prófessorinn telur að fjölmörg önnur ákvæði reglugerðarinnar eigi sér enga stoð í lögum.

Reglugerðin er gefin út 15. mars s. l. en ráðherra hafði um áramótin síðustu, án þess að reglugerðin hafi verið staðfest, afhent Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda úttekt á útfluttum saltfiski sem skv. lögum á einungis að vera í höndum Ríkismats sjávarafurða. Úttektin á saltfiskinum er yfirmat á þeirri afurð og er framkvæmd með sýnatöku. Einu afskipti Ríkismats sjávarafurða af útfluttum saltfiski allt frá síðustu áramótum hafa verið þau að undirrita og stimpla útflutningsvottorð enda þótt enginn starfsmaður þeirrar stofnunar hafi skoðað þann fisk sem vottorðin fjalla um. Um þetta segir Sigurður Líndal prófessor (í umsögn sinni): „Það er fráleitt að Ríkismatið gefi út útflutningsvottorð byggt á úttektar- og matsvottorðum framleiðenda. Slík plögg eru engin vottorð.“

Ég held að í ljósi þessa sé rétt að beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh. að hann íhugi vandlega hvort ekki sé nauðsynlegt að reglugerð af þessu tagi verði hreinlega dregin til baka vegna þess að hún virðist ekki, að mati lagaprófessors, eiga sér stoð í gildandi lögum.

Í fjórða lagi spyr ég hér herra forseti: „Hvernig skýrir sjútvrh. framkvæmd 13. gr. laga um Ríkismat sjávarafurða þar sem fram kemur að ferskfiskmatsmönnum er óheimilt að þiggja laun frá kaupendum eða seljendum afla vegna framkvæmdar ferskfiskmats?“

Fram að gildistöku laganna um Ríkismat sjávarafurða þann 1. ágúst 1984 tóku ferskfisksmatsmenn laun úr ríkissjóði fyrir gæðamat en hins vegar greiddi kaupandi fyrir stærðarmat á fiskinum. Með gildistöku hinna nýju laga var ákveðið að ferskfiskmatsmenn mættu ekki taka laun fyrir stærðarmat hjá kaupanda fisksins, sbr. 13. gr. laganna. Öll laun skyldu greiðast úr ríkissjóði. Þrátt fyrir skýr ákvæði laganna þiggur stór hluti ferskfisksmatsmanna enn þá laun hjá fiskkaupanda fyrir stærðarmat á fiski, enda er breyting sú sem lögboðin er í raun og veru ekki framkvæmanleg nema með stórauknum útgjöldum fyrir ríkissjóð þar sem fjöldi ferskfisksmatsmanna úti á landsbyggðinni er í hlutastarfi hjá ríkissjóði en ekkert viðbótarfé hefur komið til þeirra úr ríkissjóði fyrir stærðarmat þó lögin ákveði að ríkissjóður skuli nú greiða stærðarmat fisksins. Þess vegna eru framangreind ákvæði laganna ekki framkvæmd.

Þriðja spurningin, sem ég legg hér fyrir hæstv. ráðh., hljóðar svo: „Hvers vegna lætur sjútvrh. ekki framkvæma ákvæði 11. gr. laga um Ríkismat sjávarafurða þar sem fram kemur að ferskfiskdeildin skuli „. . . fylgjast með geymslu og ástandi landaðs afla og allt til þess er vinnsla hans hefst?““

Ég ætta ekki að hafa fleiri orð um þessa fsp. en ætla aðeins að lokum að vitna í grg. sigurðar Líndals. Í fyrsta lagi kveður hann upp þann dóm: Reglugerðin stenst ekki lög. Í öðru lagi sendir hann löggjafanum svofellda kveðju, sem mætti vera nokkurt umhugsunarefni þessa sólarhringa þegar verið er að hrúga hér í gegn frv. í stórum stíl um stærstu málaflokka án þess að menn oft á tíðum, að ég held, geri sér grein fyrir því hvað um er að ræða:

„Það skal að lokum tekið skýrt fram að hér er enginn dómur á það lagður hvernig æskilegast sé að haga mati og eftirliti með sjávarafurðum til útflutnings, heldur á það eitt að ekki hefur tekist að gera lögin og reglugerðina svo úr garði að neinni stefnu verði framfylgt svo viðunandi sé. Er þó líklega öllum ljóst að á sviði eins og þessu, þar sem miklir hagsmunir eru oft í húfi og veruleg hætta á árekstrum, er sérstök nauðsyn að reglur, hvort heldur eru í lögum eða reglugerðum, séu eins skýrar og skilmerkilegar og kostur er. Þessi lagasetning hefur tekist miklu miður en skyldi og hlýtur það að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir alþm. hvernig það gerist að lög þannig úr garði gerð komist í gegnum þingið. Einhver brotalöm virðist vera á tæknilegum undirbúningi löggjafar hér á landi.“