20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6972 í B-deild Alþingistíðinda. (6319)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að koma því þannig fyrir að ég svari þessari fsp. og taki síðan ekki aftur til máls. Í framhaldi af því sem ég hef nú rakið var, þegar ný lög um Ríkismat sjávarafurða tóku gildi 1. ágúst 1984, tekið tillit til þeirrar þróunar sem orðið hafði og ákveðið að marka þá stefnu að gera sölusamtökum í fiskiðnaði skylt að auka sitt eftirlit og sjá um úttektarmat. Ríkismat sjávarafurða fyrir hönd hins opinbera fer með yfirmat sem er úrskurðar- og ágreiningsmat. Yfirmat sker úr um réttmæti niðurstöðu úttektar eftirlitsmanna þeirra sem eru í þjónustu sölusamtaka. Gera þarf skýran greinarmun á úttektarmati og yfirmati. Skilgreining þessara tveggja hugtaka mætti vera skýrari í lögunum um Ríkismat sjávarafurða og oft gætir talsverðs misskilnings um notkun þessara hugtaka. Úttektarmat er það mat sem eftirlitsdeildir sölusamtakanna annast og felst m. a. í vinnslueftirliti og stærðarflokkun. Yfirmat er aftur á móti ágreinings- og úrskurðarmat sem fer fram á vegum Ríkismats sjávarafurða ef ágreiningur kemur upp milli eftirlitsmanna, sem eru í þjónustu sölusamtakanna, og framleiðenda.

Hins vegar hefur Ríkismat sjávarafurða eftirlit með eftirlitsstarfsemi sölusamtakanna og má í því sambandi vísa til 14.–20. gr. laganna. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hefur á undanförnum árum verið að auka gæðaeftirlit á eigin vegum. Sjútvrn. gaf út leyfisbréf, eins og ég sagði áður, 27. mars þar sem heimilað er að starfrækja eftirlitsdeild sem framkvæma má eftirlit og mat á öllum söltuðum sjávarafurðum öðrum en söltuðum hrognum og saltaðri síld. Í leyfisbréfi segir að verði ágreiningur um mat skeri Ríkismat sjávarafurða úr um þann ágreining. Leyfisbréf þetta er byggt á ákvæðum laga nr. 53/1984, um Ríkismat sjávarafurða og má í því sambandi vísa í 2., 14. og 18. gr. laganna. Það er því ekki rétt, sem fram kemur í fsp., að Sölusamband ísl. fiskframleiðenda hafi verið fengið í hendur yfirmat á saltfiski. SÍF hefur hins vegar fengið úttektarmatið í hendur, sbr. það leyfisbréf sem ég hef áður vitnað til.

Ég skal vera mjög stuttorður um 3. og 4. liðinn. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að fylgst sé með geymslu og ástandi landaðs afla allt til þess að vinnsla hans hefst. Á þetta hefur verið lögð hin mesta áhersla og fiskmatsráð óskaði í s. l. janúarmánuði m. a. eftir því við Ríkismat sjávarafurða að það herti á eftirliti í hráefnisgeymslu. Það er því von sjútvrn. að slíkt hafi verið gert eftir því sem nokkur kostur er. Hér er hins vegar um svo mikilvægt eftirlit að ræða að að sjálfsögðu er ávallt hægt að gera betur og kann vel að vera að eitthvað hafi á skort í þessu eftirliti. Að sjálfsögðu hefur Ríkismat sjávarafurða þar mikilvægu hlutverki að gegna en mikilvægast er þó að framleiðendur sýni árvekni. Ef framleiðendur eru sér þess ekki meðvitandi getur ekkert eftirlit bjargað því, en þá getur Ríkismat sjávarafurða stöðvað vinnslu.

Nú er í endurskoðun reglugerð nr. 55/1970 um ferskan fisk. Reglugerðin var send hagsmunaaðilum til umsagnar í byrjun janúar. Svör hafa ekki borist nema frá síldarútvegsnefnd, Félagi fiskvinnslustöðva og fagfélagi fiskiðnaðarins, Fiskiðn. Með reglugerð þessari mun eftirlit með geymslu og ástandi landaðs afla fram til þess að vinnsla hans hefst verða eflt.

Að því er varðar fjórða liðinn þá eru ferskfiskmatsmenn í öllu landinu nú 58. Þar af eru 19 í fullu starfi en hinir u. þ. b. 2/3, eru í hlutastörfum. Óánægju hefur gætt meðal ferskfiskmatsmanna vegna launa. Um þessar mundir er að ljúka gagnasöfnun varðandi störf og umfang ferskfiskmats í öllum verstöðvum í landinu. Að lokinni úrvinnslu þeirra gagna verða gerðar ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til úrbóta varðandi störf þeirra. Eitthvað mun hafa verið um það á undanförnum árum, og á sér e. t. v. stað enn þá án þess að um það skuli nokkuð fullyrt hér, að matsmenn, og þá frekast þeir sem enga yfirvinnu fá greidda, þ. e. hlutastarfsmenn, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, innheimti sérstaklega fyrir stærðarflokkun á fiski.

Ég vænti þess að svar þetta sé bærilega fullnægjandi og ég þurfi ekki að bæta hér við. Ég mun reyna að standa við loforð mitt við hæstv. forseta.