20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6978 í B-deild Alþingistíðinda. (6329)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið um hlutdeild prófessors Sigurðar Líndals í þessu máli vil ég benda á að það sem fræðimaðurinn Sigurður hefur gert er að taka lögin og reglugerðina, sem eru hin opinberu gögn í þessum málum, og leggja sitt mat á þau. Og útkoman liggur fyrir í þessari úttekt. Menn sem eru að túlka lög í landinu eiga ekki að þurfa að vera á beinni línu við rn. sem einhvern tíma hafa lagt þessi frv. fram. Það hlýtur að vera að bókstafurinn standi. Þetta er útkoman úr því sem þar er að finna og það er vissulega umhugsunarefni fyrir þingið og náttúrlega ríkisstj. hvernig þetta lítur út.

Ég get vitnað til örfárra atriða. T. d. segir hér: „Í öðru lagi er einsýnt að ríkismat á öllum fiskafurðum til útflutnings er algerlega í höndum afurðadeildar Ríkismatsins og lögin hafa ekki að geyma neina heimild til að fela öðrum eða sérstökum aðilum það verk.“

Síðan segir: „Ekki er nánar útlistað hvað felst í þeim orðum 3. gr. að sjá um flokkun og úttekt sjávarafurða til útflutnings. Eftir eðlilegri orðanotkun verður að leggja þessa starfsemi að jöfnu við yfirmat til útflutnings, sem afurðadeild Ríkismatsins á að annast á öllum fiskafurðum skv. upphafsorðum 14. gr. Fer þetta ákvæði reglugerðarinnar því í bága við framangreint ákvæði laganna.“

Ég get lesið áfram, með leyfi forseta: „Að svo miklu leyti sem gert er ráð fyrir að aðrir en Ríkismat sjávarafurða annist eftirlit með og úttekt á afurðum til útflutnings er það í ósamræmi við upphaf 14. gr. laganna og fær ekki staðist.“

Ég held að menn þurfi ekki frekar vitnanna við í þessu máli. Hvað sem þeim finnst um hvernig eigi að standa að úttektarmálum og þess háttar þá er alveg ljóst að mínu mati að sjútvn. Nd., sem hafði þetta mál lengst til meðferðar, hefur auðvitað fulla ástæðu til að kíkja á það. Ég vil því endurtaka tilmæli mín til formanns nefndarinnar, sem ég sé að er nú í salnum, að nefndin líti á þetta ef hún verður eins skipuð og skilar sér til þings í haust, vegna þess að það er augljóst að málið fær ekki næga umfjöllun núna.