20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6979 í B-deild Alþingistíðinda. (6330)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Þetta mál um Ríkismat sjávarafurða var mikið rætt á s. l. vori og skiptar skoðanir þar um. En um niðurstöðuna í því máli held ég að allir hafi verið sæmilega sáttir, enda skil ég ekki þá umræðu sem hér fer fram. Á hvern er verið að ráðast? Hverja er verið að gagnrýna? Sölusamtökin lögðu mikið kapp á það að fá sjálf að hafa sem mest eftirlit og mat á sinni eigin vöru því að þar brann eldurinn heitast. Ef þau gátu ekki selt sína vöru, þá var það þeirra að kippa því í lag. Það var fast sótt af þeim aðilum að fá að meta sem mest sjálfir. Það hefur verið gert, þeim hefur verið leyft að gera það í mörg ár. Það er ókunnugleiki margra ræðumanna hér að halda því fram að það hafi orðið afturför í þessum efnum við þessa breytingu. Síður en svo. T. d. hefur SÍF sótt það mjög fast, vil ég segja hv. 4. þm. Vesturl., að fá að gera þetta sem mest sjálft. Hvað eru menn að gagnrýna? Vilja menn ekki fá nokkurt frelsi í þessu efni heldur hanga í gamla kerfinu og fá engu breytt?

Þá kemur að hinum partinum sem ég legg engan dóm á. Ég er ekki lögfræðingur og ekki lagasmiður. Það má vel vera að það þurfi að lagfæra eitthvað í þessum lögum, á það legg ég engan dóm, en að því skyldi ég standa ef þarna væru veikir hlekkir í. En varðandi framkvæmd þessa máls, þá er það ósæmileg gagnrýni sem hér er höfð í frammi á hæstv. ráðh., sem ég tel hafa unnið vel að þessum málum og eins og best er fyrir hönd bæði framleiðenda og þeirra sem eru að fá sem mest út úr okkar sjávarafurðum. Þess vegna skil ég ekki þá gagnrýni sem hér hefur verið höfð uppi.