20.06.1985
Sameinað þing: 99. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6979 í B-deild Alþingistíðinda. (6331)

510. mál, Ríkismat sjávarafurða

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það er varla að maður þori að koma hingað þegar allt fer svona af stað en ég skal reyna að vera afskaplega hógvær. Ég held þrátt fyrir allt, og hvað sem má segja um ágæti þessa lagaprófessors, að hann hefði haft gott af því að tala við menn sem hafa vit á fiski. Ég veit ekki hvort hann hefur lesið grg. með frv., en þar er t. d. skýrt mjög rækilega hvað átt er við með yfirmati. Mér skildist, eftir því sem ég heyrði þessa grg. hans, að hann legði nokkurn annan skilning í yfirmat heldur en gert er í grg., sem lagasmiðirnir, sem voru lögfræðingar, hljóta nú að hafa ætlast til. Mér finnst sem sagt fyrst og fremst vera hér um misskilning á orðinu yfirmat að ræða, hvers konar yfirmat það er sem menn vilja láta fara fram. Í sumum tilfellum er yfirmat þannig gert að það er skoðaður hver einasti fiskur, t. d. saltfiskur, en meining lagasmiðanna virðist hafa verið sú að breyta því þannig að það yrði svonefnt prufumat, þ. e. „tékk“, tekinn ákveðinn fjöldi sýnishorna og þau skoðuð og það sem út úr því kæmi yrði látið ráða. Þannig fer skoðun á mjög stórum hluta af öllum framleiðsluvörum heimsins fram.

Eitt í sambandi við það sem hv. 4. þm. Vesturl. sagði, að 5–8 millj. kostnaður fyrir SÍF í mat er mjög lítið miðað við það sem aðrir eyða í gæðaeftirlit og í matvælaframleiðslu heimsins. En ég er ekki viss um að það eigi að spara neins staðar, heldur eigi að bæta hinu við.

Ég vil sem sagt ekki hafa þessi orð fleiri en ég hefði mjög gjarnan viljað það, og út af þeim orðum sem fallið hafa um verkfræðingastóð úr þessum ræðustól, þá mætti nefna það um fleiri stéttir.