20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6983 í B-deild Alþingistíðinda. (6342)

84. mál, Vesturlandsvegur

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til athugunar till. til þál. um könnun á nýrri legu Vesturlandsvegar, sérstaklega gerð brúa er hannaðar væru með tilliti til hafbeitarmöguleika í Kollafirði og Leiruvogi. Till. þessi var flutt fyrr á þessu þingi af hæstv. ráðh. Matthíasi Á. Mathiesen og hv. þm. Pétri Sigurðssyni og felur það í sér að athugun fari fram á því hvort hagkvæm sé vega- og brúagerð úr Geldinganesi við Leiruvog og Kollafjörð í Kjalarnes. Verði sérstaklega kannað hvort skapa megi í sambandi við slíka vega- og brúagerð ákjósanlega aðstöðu til hafbeitar fyrir lax í Kollafirði og Leiruvogi.

Nefndin hefur fjallað um tillöguna og fengið umsagnir frá Landssambandi fiskeldis- og hafbeitarstöðva, Vegagerð ríkisins, borgarverkfræðingi og borgarskipulagi, fjárlaga- og hagsýslustofnun og veiðimálastjóra. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nál. rita Kristín S. Kvaran með fyrirvara, Björn Dagbjartsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Eggert Haukdal og Birgir Ísl. Gunnarsson, en tveir nm. voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, þeir Þórarinn Sigurjónsson og Garðar Sigurðsson.