20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6983 í B-deild Alþingistíðinda. (6344)

60. mál, þjónusta vegna tannréttinga

Frsm. (Kjartan Ólafsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. allshn. Sþ. á þskj. 1316. Þar kemur fram að allshn. hefur rætt till. til þál. um aukna þjónustu vegna tannréttinga en þá till. er að finna á þskj. 60. Er hún flutt af hv. 2. þm. Austurl.

Nm. í allshn. hafa orðið sammála um að leggja til að till. verði samþykkt með þeirri einu breytingu að fyrirsögn till. sem var upphaflega „Tillaga til þingsályktunar um aukna þjónustu vegna tannréttinga “ en verður skv. tillögu n. „Tillaga til þingsályktunar um bætt skipulag á þjónustu vegna tannréttinga.“

Till. sjálf er fáorð og kannske rétt að rifja upp hvað í henni stendur. Hún er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leita allra leiða til að koma á ákveðinni, skipulegri þjónustu í tannréttingum úti á landsbyggðinni. Skal um málið leitað samvinnu við Tannlæknafélag Íslands og samráð haft við Tryggingastofnun ríkisins um mögulega framkvæmd þessa.“

Tillögunni fylgir ítarleg grg. og vísa ég til hennar. Undir nál. rita auk mín formaður n., Ólafur Þ. Þórðarson, Jóhanna Sigurðardóttir, Birgir Ísl. Gunnarsson og Stefán Benediktsson sem ritar undir nál. með fyrirvara. Fjarstaddir afgreiðslu málsins voru þeir hv. þm. Pétur Sigurðsson og Eggert Haukdal.