20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6984 í B-deild Alþingistíðinda. (6346)

60. mál, þjónusta vegna tannréttinga

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þessi till. er allra góðra gjalda verð, enda hefur hér verið lýst nál. þar sem kemur fram að öll nefndin hefur mælt með því að þessi till. til þál. yrði samþykkt.

Ég stend hér upp vegna þess að mér er ekki alveg ljóst hvers Reykvíkingar eiga að gjalda varðandi þetta ágæta mál. Í þáltill. segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leita allra leiða til að koma á ákveðinni, skipulegri þjónustu í tannréttingum úti á landsbyggðinni. Skal um málið leitað samvinnu við Tannlæknafélag Íslands og samráð haft við Tryggingastofnun ríkisins um mögulega framkvæmd þessa.“

Nú er að vísu óskilgreint hvað átt er við með landsbyggðinni en ég geri ráð fyrir því að það sé þá átt við héruð og landsvæði utan höfuðborgarsvæðisins. En staðreyndin er hins vegar sú að það er engu minni vandi fyrir þá sem þurfa á tannréttingum að halda að fá slíka þjónustu hér í þéttbýlinu.

Það er rétt sem kemur fram í grg. að það er orðið æ algengara að börn og unglingar leiti tannréttinga sem taka yfir langan tíma og eru dýrar og kostnaðarsamar á ýmsan veg eins og þar stendur. Ástandið hér í Reykjavík er þannig að ef börn eða unglingar þurfa þessa þjónustu þurfa þau að bíða svo mánuðum ef ekki árum skiptir því þessi þjónusta er ákaflega takmörkuð og það sætir eiginlega furðu hversu fáir læknar sinna þessu starfi. Ég held að þeir séu teljandi á fingrum annarrar handar, þannig að vandinn er engu minni. Þó að ég geri ekki lítið úr vanda hinna dreifðu byggða, þá er vandinn engu minni hér á þéttbýlissvæðunum.

Ég hefði haldið að ef hið háa Alþingi vildi álykta í þessu máli og samþykkja einum rómi að skora á ríkisstj. að leita allra leiða til að koma á ákveðnari og skipulegri þjónustu í tannréttingum, þá ætti það að gilda um alla borgara, hvar sem þeir búa. Ég sé ekkert réttlæti í því að skilja þarna á milli dreifbýlis og þéttbýlis og gera sérstaka till. og samþykkt um það að þessi þjónusta nái eingöngu til landsbyggðarinnar.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja fram skriflega brtt. við þessa þál. þar sem gert er ráð fyrir að úr mgr. falli niður orðin „úti á landsbyggðinni“ og þá mundi setningin hljóða svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að leita allra leiða til að koma á ákveðinni, skipulegri þjónustu í tannréttingum. Skal um málið leitað samvinnu við Tannlæknafélag Íslands og samráð haft við Tryggingastofnun“ o. s. frv.

Ég óska eftir því að forseti leiti afbrigða svo að þessi till. fáist tekin á dagskrá.