20.06.1985
Sameinað þing: 100. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6987 í B-deild Alþingistíðinda. (6355)

156. mál, nýting ríkissjóðs á hluta af Seðlabankabyggingu

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Fyrir þingi hefur legið þáltill. um yfirtöku ríkissjóðs á Seðlabankabyggingu undir Stjórnarráð Íslands. Nm. fannst nokkuð fast að orði kveðið þegar talað var um yfirtöku en leit engu að síður svo á að mjög hefði verið byggt við vöxt þegar ákveðið hefði verið að byggja yfir Seðlabanka Íslands.

Það kom fram í umsögn frá Seðlabankanum um þetta mál að hann taldi sig hafa til útleigu um 500 fermetra og var því vinveittur að stjórnarráðið kæmi þar til greina sem aðrir sem leigjandi. Hins vegar blasir það við að þessi bygging er á margan hátt sérhæfð og vissir hlutir hennar eru traustir, það traustir að ekki er nauðsyn til að vernda stjórnarráðið af slíkum styrkleika í byggingu og því hæpið að fara í það að taka þetta hús og láta svo óvissu ríkja um það hvort Seðlabankinn byggði e. t. v. helmingi stærra hús á eftir.

Nefndin leggur því til að þessi þáltill. verði samþykkt með breytingu sem hún flytur á sérstöku þskj. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eggert Haukdal, Birgir Ísl. Gunnarsson og Stefán Benediktsson.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa brtt. eins og nefndin leggur til að tillgr. orðist (Forseti: Með tilliti til þess hve knappur er tíminn er spurt að því: Þarf að lesa brtt.? Hv. þm. eiga að vera fulllæsir til þess að geta kynnt sér þetta.) Þetta er vafalaust rétt hjá forseta og frsm. efar það ekki að þeir muni vera læsir.